Limlestar til að forðast útskúfun
Foreldar stúlkubarna víða í Afríku og Asíu líða oft vítiskvalir yfir því að þurfa að láta dætur sínar gangast undir limlestingar á kynfærum (e. female genital mutilation). Aðgerð sem er ekki bara sársaukafull og brot á mannréttindum, heldur getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel leitt til dauða. Þrýstingur frá samfélaginu og stórfjölskyldunni er þó oft svo mikill að foreldrar telja sig eiga ekki annarra kosta völ svo að þau sjálf og dóttir þeirra verði ekki útskúfuð úr samfélaginu. Þetta segir yfirmaður verkefnis sem hefur það að markmiði að útrýma slíkum limlestingum á næstu árum eða áratugum.
Töluverður árangur hefur náðst á síðustu tíu árum í að draga úr limlestingum á kynfærum stúlkna og kvenna, sem gjarnan eru framkvæmdar í þeirri trú að þannig megi viðhalda meydómi þeirra og koma í veg fyrir að þær verði ótrúar eiginmönnum sínum. Um er að ræða aðgerðir sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð að hluta til eða öllu leyti og jafnvel saumað fyrir leggöng. Mikill fjöldi kvenna verður fyrir óbætanlegum skaða, bæði líkamlega og andlega, vegna limlestinganna. Innan margra samfélaga í Afríku, og á fleiri svæðum, er þetta talinn nauðsynlegur undirbúningur fyrir fullorðinsár og hjónaband.
68 milljónir stúlkna í hættu
Árið 2008 hófst samstarfsverkefni á milli UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna) og UNFPA (Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna) sem hefur það að markmiði að útrýma þessum limlestingum og hraða þeirri vinnu eins og hægt er. Verkefnið nær til 17 Afríkulanda, en langflestar þeirra kvenna sem limlestar hafa verið eru frá löndum Afríku.
UNFPA áætlar að rúmlega 200 milljónir stúlkna og kvenna í 30 löndum séu á lífi í dag sem hafi verið limlestar með þessum hætti. Flestar á tímabilinu frá fæðingu til 15 ára aldurs. Óttast er að um 68 milljónir stúlkna eigi á hættu að verða limlestar fyrir árið 2030 verði ekkert að gert.
Nafissatou Diop, yfirmaður samstarfsverkefnisins, var stödd hér á landi í vikunni til að endurnýja stuðning Íslands við verkefnið, en utanríkisráðuneytið hefur stutt verkefnið frá árinu 2011. Nafi, eins og hún er alltaf kölluð, segir stuðning landa eins og Íslands mjög mikilvægan, ekki bara fjárhagslega heldur líka pólitískum vettvangi.
Ítarlegri grein á Mbl.is