Hoppa yfir valmynd
27. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2007

Fimmtudaginn, 27. september 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. júní 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 27. maí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 30. mars 2007 um endurútreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Skv. bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dagsettu 30. mars 2007 (sjá fylgiskjal 1) er endurkröfu minni á sjóðinn hafnað því hann telur mig hafa verið í 25% starfi eða meira á móti hluta fæðingarorlofsins með eldra barni á 24 mánaða viðmiðunartímabilinu. Hafi ég því í raun átt rétt á lægri greiðslum en ég hafi þegið.

Fylgiskjöl 2 og 3 fékk ég send eftir að hafa haft samband við sjóðinn til að inna eftir skýringum og nánari upplýsingum um forsendur höfnunarinnar. Fylgiskjal 2 sýnir útreikning á rétti mínum til greiðslna í fæðingarorlofi fyrir og eftir breytingar á reglugerð nr. 1056/2004 sem mér var sendur eftir að ég hafði samband við sjóðinn. Skjalið sýnir að ég hafi átt rétt á X krónur fyrir breytingar á útreikningum en lækki niður í X krónur þegar breytingar hafi verið reiknaðar. Fylgiskjal 3, leiðbeiningar fyrir endurupptöku þegar seinna barn er fætt 1. janúar 2005 eða síðar, skýrir nánar hvernig sjóðurinn endurreiknar fæðingarstyrki. Sjóðurinn tekur inn í útreikninga sína hvert mánaðartímabil sem styrkþegar eru í a.m.k. 25% starfshlutfalli hjá atvinnurekanda. Í mínu tilviki falla mánaðartekjur mínar í X krónur úr X krónum fyrir aprílmánuð og í X krónur úr X krónum fyrir septembermánuð þegar ég sný aftur til vinnu, þar sem greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eru teknar út, og sem skýrir svo hvernig heildarupphæðin getur lækkað við útreikninginn.

Samkvæmt þessu gerir Fæðingarorlofssjóður ekki greinarmun á 100% starfshlutfalli í yfir 25% hluta mánaðar, eða yfir 25% starfshlutfalli einstaklings á hverjum tíma, sem er, eins og gefur að skilja tveir gjörólíkir hlutir. Þetta gengur ekki einungis, að mínu mati, gegn tilgangi reglugerðarinnar, sem er að koma í veg fyrir að styrkþegar lækki í fæðingarorlofi vegna þess að þeir eigi tvö börn innan tveggja ára (þ.e. að matið miðist við 80% af 80% tekjum þegar einstaklingar taki fæðingarorlof með fyrra barni), heldur hlýtur að ganga gegn jafnræðisreglu þar sem foreldrum er mismunað eftir því hvenær mánaðar þau eiga börn sín eða taka fæðingarorlof. Þessu til stuðnings má benda á að í mínu tilfelli átti ég drenginn minn þann 9 apríl 2005, en hefði ég fætt hann tveimur dögum fyrr, þá hefði væntanlega „starfshlutfall“, í skilningi Fæðingarorlofssjóðs farið niður í 23,3% og hefði þá aprílmánuður ekki verið tekinn með í útreikninga. Ef þessir tveir mánuðir sem eru skertir, þ.e. apríl og septembermánuðir eru teknir út, þá eru meðal mánaðartekjur rétt yfir X krónum og 80% af þeim svarar til X króna sem þýddi að ég næði því þaki sem sett er fyrir greiðslur til einstaklinga úr sjóðnum. Það hlýtur því að stinga í stúf að Fæðingarorlofssjóður reikni mér X króna mánaðartekna fyrir mánuðinn sem ég eignast drenginn minn, þrátt fyrir að vera í 100% starfi fram að fæðingu hans. Heilbrigð skynsemi segir að réttara væri að notast við viðtekna skilgreiningu á starfshlutfalli, þ.e. hlutfall á hverjum tíma og nota dagafjölda við að miða tekjur út, ef tekjur vegna fæðingarorlofs er á annað borð frádregið í viðkomandi mánuði.

Ég vil því kæra þessa niðurstöðu til úrskurðarnefndar og biðja um endurskoðun á þeim útreikningum sem höfnun á endurupptökubeiðni minni byggir á, og ennfremur benda á að þetta gefur væntanlega tilefni til að skoða mál annarra einstaklinga sem eru í svipaðri stöðu og ég sjálf. Svarbréf frá Fæðingarorlofssjóði (sjá fylgiskjal 1) gefur skjólstæðingum afar takmarkaðar upplýsingar, er án rökstuðnings sem auðvelt væri að láta fylgja með, og gefur auk þess í skyn að viðkomandi standi í skuld við sjóðinn, sem getur komið til þess að einstaklingar leiti ekki eftir frekari upplýsingum eða leiðréttingum ef svo ber undir.“

 

Með bréfi, dagsettu 18. júní 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. júlí 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á endurupptökubeiðni kæranda í kjölfar reglugerðarbreytingar nr. 123/2007 er breytti reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með endurupptökubeiðni óskaði kærandi eftir að Fæðingarorlofssjóður endurskoðaði útreikning á greiðslum til sín vegna barns hennar sem fæddist 16. ágúst 2006, sbr. greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 18. ágúst 2006. Kærandi hafði áður verið í fæðingarorlofi vegna eldra barns að hluta til á árinu 2005.

Í málinu lágu fyrir upplýsingar frá ríkisskattstjóra auk eldri gagna frá umsækjanda vegna umsóknar hennar sem ákvörðuð var með framangreindri greiðsluáætlun til kæranda, dags. 18. ágúst 2006.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 30. mars 2007, var henni tilkynnt að við endurreikning hafi komið í ljós að hún hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hún hafi verið í meira en 25% starfi á móti fæðingarorlofi með eldra barni á 24 mánaða viðmiðunartímabilinu og að ekki yrði höfð uppi endurkrafa þar sem hún hafi verið í góðri trú þegar hún þáði greiðslurnar.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt þann 16. ágúst 2006 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2004 og 2005 fyrir þá mánuði sem hún var í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2005.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2004 og 2005 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði fyrir apríl 2005 alls X krónur og á sama tíma var hún með laun frá B samtals X krónur eða í meira en 25% starfi. Fyrir maí – ágúst 2005 var kærandi einvörðungu í fæðingarorlofi eða í minna en 25% starfshlutfalli og ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í september 2005 þáði kærandi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði alls X krónur og á sama tíma laun frá B samtals X krónur eða í meira en 25% starfshlutfalli.

Samkvæmt greiðsluáætlun dags. 18. ágúst 2006 var kærandi með X krónur í meðaltekjur á mánuði fyrir árin 2004 – 2005 og eru 80% af því X krónur á mánuði. Hluti af þessari upphæð eru greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Ef greiðslum Fæðingarorlofssjóðs er sleppt og einungis þeir mánuðir teknir með við útreikning á meðaltali heildarlauna þegar kærandi var í meira en 25% starfi í hverjum mánuði kemur í ljós að meðaltekjur kæranda fyrir umrædd ár lækka í X krónur á mánuði og eru 80% af því X krónur á mánuði. Samkvæmt þessu voru meðaltekjur kæranda reiknaðar hærri á greiðsluáætlun, dags. 18. ágúst 2006 en hún var í raun með þar sem greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði hækkuðu meðaltalslaunin. Kærandi hefur því fengið hærri greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni því er fæddist 16. ágúst 2006 en hún hefði átt að fá. Þar sem kærandi var í góðri trú er hún þáði greiðslurnar verður ekki höfð uppi endurkrafa á hana.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 30. mars 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 6. júlí 2007 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í tilefni af endurupptökubeiðni kæranda í kjölfar setningar reglugerðar nr. 123/2007 um breytingu á reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Ágreiningur er um rétt kæranda til frekari greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Af hálfu félagsmálaráðuneytisins var fallist á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4579/2005 um að lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 hefði ekki næga lagastoð og var ákvæðið fellt niður með áður nefndri reglugerð nr. 123/2007. Samkvæmt því var afnumin sú regla að greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar þ.m.t. greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrðu lagðar til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi. Jafnframt var tekin ákvörðun um að Fæðingarorlofssjóður tæki upp þau mál sem ákvörðuð höfðu verið á grundvelli ákvæðisins þegar foreldri hafði fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tveggja ára tímabili útreiknings meðaltals heildarlauna.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Í athugasemd við 13. gr. í frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 95/2000 sagði að markmið hins nýja kerfis sem þá var tekið upp væri „að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra. Þess vegna er að því stefnt að foreldrar fái 80% af meðaltali heildarlauna óháð starfshlutfalli.“

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt 16. ágúst 2006. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2004 og 2005, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Reiknaðar greiðslur til kæranda samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 18. ágúst 2006 vegna sex mánaða fæðingarorlofs voru samtals X krónur á grundvelli útreiknings samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. og þágildandi 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. og þess sem að framan er rakið hefur það verið mat úrskurðarnefndarinnar að við endurútreikning meðaltals heildarlauna skuli ekki reiknaðar þær greiðslur sem foreldri fékk úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs og ekki þeir mánuðir sem foreldri er ekki að störfum í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting á 13. gr. ffl. Óbreytt er að eingöngu skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á vinnumarkaði. Í athugasemd við 4. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2004 sagði að þá skuli alltaf miða við almanaksmánuði.

Samkvæmt gögnum málsins er staðfest að kærandi var í samfelldu fæðingarorlofi og ekki að störfum á vinnumarkaði tímabilið frá 9. apríl 2005 fram í september sama ár. Með hliðsjón af því og með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 svo og markmiðs laga um fæðingar- og foreldraorlof telur úrskurðarnefndin að við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skuli leggja til grundvallar þá almanaksmánuði viðmiðunartímabilsins sem hún var að störfum allan mánuðinn í a.m.k. 25% starfshlutfalli. Verða mánuðirnir apríl til september 2005 því ekki lagðir til grundvallar við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og að synja kæranda um frekari greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna beiðni um endurupptöku máls er því felld úr gildi. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skal miða við laun hennar mánuðina janúar 2004 til og með mars 2005 og mánuðina október 2005 til og með desember 2005.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og að synja um frekari greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til A er felld úr gildi. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skal miða við laun hennar mánuðina janúar 2004 til og með mars 2005 og mánuðina október 2005 til og með desember 2005.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta