Hoppa yfir valmynd
12. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2007

Fimmtudaginn, 12. október 200

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. júlí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. júlí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 27. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Fæðingarorlofssjóður telur, í framangreindu bréfi sínu til mín dags. 31. maí sl., að ég uppfylli ekki ákvæði framangreindra laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, um rétt til fæðingarstyrks hvað varðar lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og að ég falli ekki undir undanþáguákvæði laganna skv. 2. mgr. 19. gr. nefndra laga vegna flutnings lögheimilis míns tímabundið vegna náms erlendis. Einnig er fullyrt í framangreindu bréfi sjóðsins, að undanþáguheimildin varðandi lögheimili eigi ekki við um mig, þar sem ég hafi flutt lögheimili mitt til B-lands 15. janúar 2005 en byrji ekki í skóla fyrr en 1. febrúar 2006. Ég tel hinsvegar ótvírætt að ég uppfylli fyllilega ákvæði 2. mgr. 19. greinar nefndra laga um lögheimili og undanþáguheimild hennar og einnig að fullyrðingin í framangreindu bréfi sjóðsins um nám mitt sé beinlínis röng.

Í ítarlegu bréfi mínu dags. 8. júní sl. (sjá fskj. nr. 4), sem ég sendi sjóðnum sama dag, ásamt 5 fylgigögnum; þ.e. 1) lánsáætlun LÍN námsárið 2005-2006, 2) bréf Fæðingarorlofssjóðs hjá Tryggingarstofnun ríkisins dags. 5. okt. 2004 um fæðingarorlof mitt (ekki fæðingarstyrk minn) vegna fyrsta barns okkar frá des. 2004 til og með maí 2005, 3) vottorð frá sveitarfélaginu F-borg um D-nám mitt frá og með apríl 2005 til mars 2006, 4) ársyfirlit 2005 vegna mín frá skattyfirvöldum F-borgar, 5) ársyfirlit 2006 vegna mín frá skattyfirvöldum F-borgar; í þessu framangreinda bréfi mínu þá andmælti ég synjun Fæðingarorlofssjóð og að mínu mati með fullnægjandi skýringum og gögnum.

Ég vísa í þetta framangreinda bréf mitt dags. 8. júní sl. og til útskýringa minna í því máli mínu til frekari stuðnings, en ég vil jafnframt vitna orðrétt í eftirfarandi tvær lokamálsgreinar bréfsins, sem að mínu mati eru meginatriði málsins:

„Því er ekki rétt sú ályktun að ég hafi ekki flutt erlendis þann 15. janúar 2005 til að hefja nám. Ég hóf undirbúningsnám mitt í kvöldskóla í apríl 2005 og gat ekki hafið fullt nám í dagskóla fyrr en 1. febrúar 2006, þar sem við hjón fluttumst erlendis með 3 mánaða gamalt barn og ég var heima með barnið, allt þar til það gat hafið dagvistun hjá dagmömmu, í byrjun árs 2006.“

Þá segir í kærubréfi:

Ljóst er að starfsemi Fæðingarorlofssjóðs fellur undir stjórnsýslulög nr. 37/1993, með síðari breytingum. Því hefði mátt vænta þess að Fæðingarorlofssjóður gætti þess í hvívetna að framfylgja vinnureglum, sem væru í góðu samræmi við góða stjórnsýsluhætti og ýmis ákvæði nefndra stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. í mínu tilviki er augljóst að slíkt hefur ekki verið gert. Ég nefni til stuðnings þessari fullyrðingu minni t.d. ákvæði 7. gr. laganna um leiðbeiningarskyldu, 10. gr. laganna um rannsóknarreglu, 11. gr. laganna um jafnræðisreglu, og sérstaklega 12. gr. laganna um meðalhófsreglu, 13. gr. laganna um andmælarétt, 14. gr. laganna um tilkynningu um meðferð máls og ekki hvað síst vísa ég til 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 22. gr. laganna um efni rökstuðnings.

Með vísan til framangreindra athugasemda minna og nefndra stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, er það að mínu mati í hæsta máta afar óvenjuleg, einkennileg, óframbærileg og óásættanleg opinber stjórnsýsla, svo að ekki sé meira sagt, að hvergi er í þessu síðara synjunarbréfi sjóðsins vikið einu orði að framangreindu andmælabréfi mínu dags. 8. júní sl., ekkert fjallað um skýringar mínar né framsettar röksemdir mínar í því. Andmælabréfi mínu er augljóslega að engu leyti svarað. Nánast það eina sem sagt er í þessu síðara synjunarbréfi sjóðsins dags. 27. júní sl. umfram efni fyrra synjunarbréfsins, sem dags. er 31 .maí sl., eru eftirfarandi tvær makalausu, ósönnu og ótrúverðugu setningar:

1  „Sjóðurinn stendur við fyrri ákvörðun þar sem ekki er hægt að veita undanþágu á undanþágunni.“

Og strax á eftir þessi ótrúlega og ósanna fullyrðing:

2  „Þ.e.a.s. aðil(l)i (leiðr. mín) verður að hefja nám um leið og hann flytur annað“.

Hvað varðar fyrri setninguna þá er það hrein rangfærsla að um sé að ræða beiðni mína um að veita mér „undanþágu frá undanþágunni“. Það er engin þörf á slíku. Að mínu mati er það ótvírætt að ég uppfylli algjörlega undanþáguákvæðið varðandi lögheimili skv. 2. mgr. 19. gr. fyrrgreindra laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, en ákvæðið um það atriði er svo orðrétt:

Úr 2. mgr. 19. gr. 1. nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum:

„Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“

Óumdeilt er að ég hef átt lögheimili á Íslandi samfellt frá fæðingu til 15. janúar 2005, þ.e. ekki einungis í áskilin 5 ár fyrir flutning lögheimilis skv. framangreindu lagaákvæði heldur í alls 24 ár. Ekkert í þessum lagatexta, skv. beinum orðum hans, gefur til kynna að það megi túlka hann á þann veg og með svo þröngri túlkun og/eða lagaskýringu, að lögmætur lögheimilisflutningur til náms erlendis sé skilyrtur við að fullt nám sé hafið strax við flutning.

Loks segir í kærubréfi um röksemdir kæranda:

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga markmið og anda þessara laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og ástæður þess að Alþingi taldi afar brýnt að setja nefnd lög, því í athugasemdum sem fylgdu með frumvarpinu til laga um fæðingar-og foreldraorlof, þskj. 1065 - 623. mál, sem lagt var fram á 125. löggjafarþingi 1999-2000, segir beinlínis og orðrétt svo í 2. mgr. og 10 mgr. athugasemdanna:

„Athugasemdir við lagafrumvarp þetta!

2. mgr.: „Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín en í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Var að því markmiði stefnt við gerð þessa frumvarps en jafnframt er þá verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.“ (leturbr. mín).

10. mgr.; „Í frumvarpinu er kveðið á um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar eða í námi til fæðingarstyrks. Gerð er tillaga um að bæði móðir og faðir sem eru í þessari stöðu eigi rétt á fæðingarstyrk en ekki einungis móðir líkt og er í núgildandi kerfi. Þá er lögð áhersla á að litið verði heildstætt á þessi tvö kerfi, þ.e. rétt til fæðingarorlofs og rétt til fæðingarstyrks, ef foreldrar falla hvort undir sitt kerfið þannig að taki annað foreldrið hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og njóti greiðslna samkvæmt frumvarpinu styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.“ (leturbr. mín).

Mér er einfaldlega ómögulegt annað en að líta svo á, að synjun Fæðingarorlofssjóðs á fæðingarstyrk til mín, sbr. bréf hans 31. maí og 27. júní sl. sé beinlínis í hróplegri andstöðu við ótvíræð markmið og anda framangreindra laga nr. 95/2000 um fæðingar-og foreldraorlof, með síðari breytingum, eins og anda og markmiðum þeirra laga er lýst í athugasemdum með umræddu laga frumvarpi hér að framan, auk þess sem að synjunin hefur, að mínu mati, hvorki nokkra laga- né reglugerðarstoð, eins og ég hef áður rakið í þessu kærubréfi mínu.

Til frekari skýringar á stöðu minni og menntun tel ég rétt að geta þess, að ég hafði ekki stúdentsprófsmenntun frá Íslandi við flutning okkar til B-lands þann 15. janúar 2005. Hins vegar hafði ég lokið námi í E á Íslandi og hef lögbundin réttindi sem E þar. Kunnátta mín í tungumálinu var hins vegar afar lítil sem engin. Menntun mín sem E frá Íslandi var metin í B-landi sem vissir áfangar til stúdentsprófs. Talið var þó afar nauðsynlegt, áður en að ég hæfi nám til öflunar stúdentsprófsréttinda í B-landi (og á Íslandi) hér í F-borg, þá yrði ég að afla mér nauðsynlegrar grunnkunnáttu í D. Slíkt grunnnám hentaði mér ágætlega því mér stóð til boða að stunda það nám á kvöldnámskeiðum. Eins og áður hefur komið fram var ég „heimavinnandi“ húsfaðir í fæðingarorlofi á launum (ekki fæðingarstyrk) frá Fæðingarorlofssjóði frá desember 2005 til og með maí 2006 (sjá fskj. nr. 4) við gæslu sonar míns J, sem er fæddur 18. okt. 2004. Vegna fæðingarorlofslauna minna bar mér því skylda til að vera heima með syni mínum. Hóf ég D-námið strax í apríl 2005 og stóð það yfir þar til í mars 2006, en 1. febrúar 2006 hófst nám mitt til öflunar stúdentsprófsréttinda mér til handa. Í samfellt 16 mánuði, að afloknu áskildu grunnnámi mínu í tungumálinu, þ.e. frá 1. febrúar 2006 til loka júní 2007 stundaði ég stúdentsprófs nám mitt og útskrifaðist sem stúdent þann 29. júní sl. Hef ég í framhaldi af stúdentsprófi mínu skráð mig til náms í haust í B.Sc. nám í H-fræði við G-háskóla og hefst nám mitt nú í ágúst n.k. og mun það nám væntanlega taka um 3-4 ár.

Mér finnst einnig rétt að í lokin rifji ég upp helstu röksemdir mínar um hvers vegna ég tel að ég eigi rétt á fæðingarstyrk í samræmi við margrædd lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum:

1. Ég flutti til B-lands 15. janúar 2005, ásamt konu minni og ungum syni, gagngert til þess að fara í stúdentsprófsnám og síðar í háskólanám, og að gera slíkt á sama tíma og kona mín stundaði sitt háskólanám hér í F-borg. Hún lauk sínu Mastersnámi í I-fræði nú í júní við G-háskóla og mun hefja 3ja ára doktorsnám í sömu grein nú í ágúst n.k.

2. Ég hef enga launaða vinnu stundað hér í B-landi frá því að við fluttum hingað þann 15. janúar 2005 og engra tekna aflað hér í B-landi eins og staðfest er af viðkomandi skattyfirvöldum, sjá fskj. nr. 4, og því engra réttinda til fæðingarstyrks aflað mér hér í landi.

3. Ég hef átt mitt lögheimili á Íslandi frá fæðingu í alls 24 ár samfellt og hef mitt skattalega lögheimili á Íslandi á meðan á dvöl minni stendur hér í B-landi.

4. Ég tel að mér hafi beinlínis verið óheimilt að fara í fullt nám strax við flutning til B-lands þann 15. janúar 2005 því að þá var ég á launum í fæðingarorlofi (ekki á fæðingarstyrk) til loka maí 2005 og bar því að vera „heimavinnandi“ húsfaðir, a.m.k. þar til fæðingarorlofsgreiðslum lauk í maí lok 2005. Það er því beinlínis rökleysa, og ég tel reyndar að mér hafi verið algjörlega óheimilt að vera á sama tíma á launum í fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði sem „heimavinnandi“ húsfaðir við gæslu ungs sonar míns og að vera á sama tíma í fullu námi. Hvernig átti ég þá að uppfylla skilyrði laganna um að vera samvistum við drenginn minn á meðan á fæðingarorlofsgreiðslum stæði?

5. Ég tel að ég uppfylli fullkomlega 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, um undanþáguheimild lögheimilis vegna námsmanna.

6. Ég tel ótvírætt að ég uppfylli miklu meira en tilskilið er um a.m.k. 6 mánuði í fullu námi á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, þar sem ég stundað fullt samfellt nám í 16 mánuði fyrir fæðingu auk samfellds 11 mánaða grunnnáms þar á undan.

7. Ég tel að ljóst sé, að engin stoð er í fyrrgreindum lögum og eða reglugerðum um fæðingar- og foreldraorlof, sem staðfestir þá fullyrðingu Fæðingarorlofssjóðs að aðili verði að hefja nám um leið og hann flytur lögheimili sitt.

 

Með bréfi, dagsettu 24. júlí 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. ágúst 2007. Í greinargerðinni segir:

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 31. maí 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hann hefði ekki verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og ekki væri séð að hann hefði flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms. Þann 11. júní 2007 barst bréf frá kæranda, dags. 8. júní 2007, greiðsluáætlun frá TR, dags. 5. október 2004, staðfesting frá F-borg að kærandi hefði verið skráður í námskeið í tungumálinu í kvöldskóla frá 12. apríl 2005, dags. 12. apríl 2005, skattframtal 2005 frá B-landi. Einnig fylgdi með lánsáætlun maka kæranda hjá LÍN, dags. 8. júní 2006. Framangreind gögn voru ekki talin gefa tilefni til að breyta fyrri niðurstöðu, sbr. bréf Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 27. júní 2007.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar og að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 6/2007.

Samkvæmt þjóðskrá og bréfi frá kæranda, dags. 8. júní 2007, flutti kærandi lögheimili sitt frá Íslandi til B-lands 15. janúar 2005. Í bréfi G-háskóla til kæranda, dags. 22. mars 2007, kemur fram að kærandi hafi verið skráður í nám við skólann frá 1. febrúar 2006 og að náminu muni ljúka 30. júní 2007. Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að nám kæranda hafi ekki hafist fyrr en rúmu ári eftir að kærandi flutti lögheimili sitt til B-lands. Í bréfi frá kæranda með yfirskriftinni „Góðan dag“, ódagsett, kemur jafnframt fram að kærandi hafi ekki hafið nám við G-háskóla fyrr en í febrúar 2006. Í bréfinu kemur jafnframt fram að frá því að kærandi flutti út og þar til nám hans hófst hafi hann verið heimavinnandi í fæðingarorlofi með fyrsta barni sínu sem fæðst hafi í október 2004. Er þetta jafnframt staðfest með bréfi kæranda, dags. 8. júní 2007. Með tölvupósti Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. ágúst 2007, var farið fram á að G-háskóli upplýsti hvenær kærandi hafi sótt um skólavist við skólann. Í svari G-háskóla samdægurs kemur fram að skólinn hafi móttekið umsókn kæranda um skólavist 17. nóvember 2005 eða tíu mánuðum eftir lögheimilisflutninginn. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að tilgangur lögheimilisflutnings kæranda til B-lands hafi verið vegna náms við G-háskóla og því getur undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. rgl. nr. 1056/2004 ekki átt við í tilviki kæranda. Hefur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hann eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað og að kærandi eigi heldur ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. ágúst 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 10. september 2007, þar sem hann ítrekar fyrri kröfur og rökstuðning.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 11. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Barn kæranda fæddist 7. júlí 2007. Samkvæmt gögnum málsins flutti hann lögheimili sitt til B-lands 15. janúar 2005. Hann var þá í fæðingarorlofi sem lauk í maí 2005. Í bréfi dagsettu 12. apríl 2005 frá F-borg er staðfest að kærandi hafi hafið kvöldnám í tungumálinu. Hann hóf síðan nám við G-háskóla þann 1. febrúar 2006 en um námið hafði hann sótt 17. nóvember 2005.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hans við G-háskóla. Hann uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl. um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Samkvæmt því skapaði nám hans þegar af þeirri ástæðu eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni.

Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar sbr. 1. mgr. 18. gr. ffl. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skulu foreldrar eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barns. Greiðsla fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi kemur því ekki til álita.

Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda, staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta