Hoppa yfir valmynd
25. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2007

Fimmtudaginn, 25. október 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. júlí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 23. júlí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 17. júlí 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrk námsmanns.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Á skólaárinu 2006-2007 hóf ég mastersnám við nýjan skóla í B-landi eftir að hafa lokið grunnnámi á Íslandi. Bæði á haustönn og vorönn var ég skráð í 100% nám en féll í einu prófi á haustönn 2006. Lauk ég því 50 ECTS einingum á árinu sem er 83% námsárangur. Ekki er mögulegt fyrir mig að taka upp þetta eina próf sem ég féll í því ég á að eiga barnið í ágúst og upptökuprófin eru í ágúst. Mér var bent á þann möguleika að vinna í einn mánuð eftir prófin til að ná samfellt 6 mánuðum í námi og starfi.

Það er hins vegar ansi erfitt fyrir mig þar sem ég var ekki búin í prófum fyrr en 28. júní og var þá komin 7 og hálfan mánuð á leið. Það er ekki beint auðvelt að fá vinnu í B-landi komin þetta langt á leið þar sem ekki er ætlast til þess þar að konur vinni síðasta mánuðinn í B-landi og ég mátti ekki fljúga til Íslands til að fara að vinna þar vegna þess hve langt ég var komin á leið.

Námsveturinn 2005-2006 lauk ég 100% námsárangri báðar annirnar og vann síðan sumarið 2006 til byrjun ágúst þegar ég flutti til B-lands. Ég hef því alltaf stundað námið af fullum krafti og unnið eins og ég hef getað þess á milli. Mér finnst að taka eigi tillit til þess að ég var að hefja nám í nýjum skóla á haustönn 2006 og var í 100% námi þótt ég hafi ekki lokið nema 66% á þeirri önn. LÍN tekur tillit til þess í útreikningi námslána ef fólk er á fyrstu önn í erlendum háskóla og nægir þá 60% námsárangur til að eiga rétt á námslánum. Ég stundaði námið af fullum krafti allt síðasta ár eins og sést á því að ég lauk 100% árangri á vorönn sem er 5 mánuðir. Mér finnst ekki sanngjarnt að ófullnægjandi námsárangur í einu próf (ég fékk 5 en þurfti 6 til að ná) sem ekki er mögulegt fyrir mig að taka upp á þessu ári auk þess að ekki er mögulegt fyrir mig að vinna í sumar geri það að verkum að ég fái ekki fæðingarstyrk þar sem ljóst er að ég var í fullu námi allt tímabilið. Einnig finnst mér að taka beri tillit til þess að yfir síðasta árið er ég með 83% námsárangur og því er ekki eins og ég sé alveg við viðmiðunarmörkin. Á þessum grundvelli kæri ég úrskurð fæðingarorlofssjóðs og bið um endurskoðun á honum.“

Með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 4. apríl 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 14. ágúst 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 23. janúar 2007, námsferilsyfirlit kæranda frá D-háskóla, dags. 2. júlí 2007 og staðfesting frá E-sveitarfélaginu að kærandi njóti ekki neinna greiðslna þaðan, dags. 5. júlí 2007. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. júlí 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 14. ágúst 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 14. ágúst 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá D-háskóla, dags. 2. júlí 2007, stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006 og vorönn 2007. Var kærandi skráður í 15 einingar (30 ECTS) á haustönn 2006 og lauk 10 einingum (20 ECTS). Á vorönn 2007 var kærandi skráður í 15 einingar (30 ECTS) og lauk þeim öllum.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11 – 15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Kærandi náði 66,7% námsframvindu á haustönn 2006 sem telur fjóra mánuði. Á vorönn 2007 var kærandi skráður í 15 einingar og lauk þeim öllum. Vorönn telur fimm mánuði. Kærandi nær því einungis 5 mánuðum í fullu námi fyrir fæðingu barns. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögunum er ekki að finna neina undanþágu þegar foreldri hefur verið skráð í fullt nám en hefur síðan ekki staðist tilskilinn einingafjölda né heldur er að finna undanþágu um að hægt sé að leggja saman meðaltal tveggja anna við mat á fullu námi. Með hliðsjón af þessu og þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Undanþáguákvæði 8. og 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 um fæðingar- og foreldraorlof eiga ekki við í tilviki kæranda þar sem hún hafði hvorki verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði áður en nám hófst né heldur hafði hún lokið a.m.k. einnar annar námi og síðan verið í samfellt á vinnumarkaði fram að töku fæðingarorlofs.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 17. júlí 2007.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. október 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Áætlaður fæðingardagur barns var 14. ágúst 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. ágúst 2006 fram að fæðingu barns. Kærandi var við nám við D-háskóla. Við mat á því hvort hún uppfylli skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hennar og námsárangurs á haustmisseri 2006 og vormisseri 2007. Fullt nám á misseri við skólann telst vera 30 ECTS. Fullt nám á misseri í skilningi laga nr. 95/2000 og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 telst því vera 22,5 – 30 ECTS. Kærandi var skráð í 30 ECTS á haustmisseri 2006 og lauk 20 ECTS, en féll í einu 10 ECTS fagi sem ólokið er. Á vormisseri 2007 lauk kærandi 30 ECTS.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um nám kæranda á haustönn 2006 verður ekki talið að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Ekki eru ákvæði í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 sem heimila samlagningu námsárangurs á tveimur misserum.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta