Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 97/2011

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 97/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dagsettri 2. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 27. júlí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B var 40.200.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 110% af skráðu fasteignamati eignarinnar, eða 44.220.000 kr. Í endurútreikningnum kemur einnig fram að kærandi er eigandi bifreiðarinnar X metin á 1.080.000 kr. og bifreiðarinnar Z, metin á 600.000 kr.

Eftir að kærandi hafði kært málið til úrskurðarnefndarinnar ákvað kærði að taka málið upp til endurákvörðunar. Samkvæmt tilkynningu um seinni endurútreikning Íbúðalánasjóðs, dags. 23. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 32.900.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 110% af skráðu fasteignamati, eða 36.190.000 kr. Í endurútreikningnum kemur einnig fram að bifreiðin í eigu kæranda með skráningarnúmerinu X sé nú metin á 700.000 kr og bifreiðin með skráningarnúmerinu Z sé nú metin á 450.000 kr. Sú ákvörðun Íbúðalánasjóðs er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 4. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2011, tilkynnti Íbúðalánasjóður úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála að sjóðurinn hefði ákveðið að taka mál kæranda til endurákvörðunar. Endurákvörðun Íbúðalánasjóðs var send kæranda og úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 23. september 2011. Starfsmaður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná tali af kæranda í því skyni að fá úr því skorið hvort kærandi óski þess að halda kærunni til úrskurðarnefndarinnar til streitu eftir að endurákvörðun Íbúðalánasjóðs í máli hennar barst, en árangurslaust. Verður málið því tekið til úrskurðar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og upplýsinga sem nefndinni hafa verið látnar í té.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir synjun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. september 2011, segir kærandi að hún kæri ákvörðun Íbúðalánasjóðs, þar sem verðmat fasteignarinnar að B sé úrelt auk þess sem verðmæti bifreiða í hennar eigu sé ofmetið.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi kærði ákvörðun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána í 110% leiðinni og færði fram þau rök að við endurútreikning áhvílandi íbúðarlána hennar hjá Íbúðalánasjóði hafi kærði byggt á úreltu verðmati fasteignar auk þess sem verðmæti bifreiða í hennar eigu hafi verið ofmetið. Með endurákvörðun í máli kæranda frá 23. september 2011 liggur fyrir að Íbúðalánasjóður hefur fallist á þau rök kæranda og hefur verðmat fasteignar hennar að B og verðmat aðfararhæfra eigna í eigu kæranda verið endurskoðað.

Til þess ber að líta að við ákvörðun Íbúðalánasjóðs er byggt á skráðu fasteignamati fasteignarinnar, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Þá hefur verðmæti aðfararhæfra eigna verið lækkað frá því sem fram kemur í skattframtali og virðist byggt á verðmati þeirra. Samkvæmt framansögðu og því sem hér hefur verið rakið verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um endurútreikning á lánum A áhvílandi á fasteigninni að B, dagsett 23. september 2001, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta