Hoppa yfir valmynd
25. mars 2020 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag. Í ávarpinu fjallaði forsætisráðherra um stöðu efnahagsmála í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa komið upp vegna heimsfaraldurs Covid-19 og hvernig stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa brugðist við með aðgerðum til að verja lífsafkomu fólksins í landinu og styðja við atvinnulífið.

Gera það sem þarf til að verja lífsafkomu almennings

Forsætisráðherra sagði að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt – Viðspyrna fyrir Ísland –  snúist um að koma í veg fyrir að fólk missi vinnuna og að fyrirtæki fari í þrot. Aðgerðunum er ætlað að styðja við lífsafkomu fólksins í landinu. Gripið verði til frekari aðgerða til að ná því markmiði ef þörf verður á. „Við munum gera það sem þarf til að styðja við almenning og atvinnulíf í landinu á erfiðum tímum. Við fylgjumst grannt með og erum tilbúin að grípa til frekari aðgerða eftir því sem þörf krefur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Höfum búið vel í haginn

Forsætisráðherra sagði að bæði ríkissjóður og Seðlabanki Íslands séu í mjög sterkri stöðu til að takast á við þau áföll sem nú dynja á. Ríkið hafi talsvert svigrúm til að auka skuldastöðu sína eins og þörf krefur. Þá benti hún á að þó að Seðlabankinn hafi þegar gripið til fjölþættra og mikilvægra aðgerða þá sé hann í betri stöðu en margir aðrir seðlabankar og geti beitt frekari úrræðum ef á þarf að halda.

Forsætisráðherra fór einnig yfir það að hrunið hafi kennt okkur að búa vel í haginn til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við áföll. Seðlabankinn sé nú sterkari en áður og sömuleiðis fjármálakerfið auk þess sem skuldastaða bæði heimila og fyrirtækja sé betri. „Og við búum líka að því að á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið þannig að það er nú betur undir það búið til að takast á við þennan faraldur en það var fyrir tveimur árum,“ sagði forsætisráðherra.

Samstaða, gagnsæi og hreinskilni eru okkar vopn í þessari baráttu

Forsætisráðherra sagðist einnig vera stolt af því að hér á landi höfum við haldið fast í okkar lýðræðislegu hefðir í þeim ákvörðunum sem hefur þurft að taka vegna Covid-19 faraldursins. „Við höfum lagt traust okkar á hvort annað. Við höfum ekki sótt styrk okkar í her eða lögreglu heldur höfum við sótt styrk okkar í samheldni og samhygð samfélagsins. Okkar vopn í þessari baráttu eru samstaða, gagnsæi og hreinskilni,“ sagði Katrín og bætti við: „Við höfum verið opinská með það að þetta er óvissuferð og það munu vafalaust verða gerð mistök. Við vinnum hins vegar út frá bestu gögnum og upplýsingum sem við höfum og tryggjum gagnsæi um þær upplýsingar. Það er auðvitað aldrei hægt að ná hundrað prósent árangri en ég tel sýnt að sá árangur sem við erum að ná sýni að það er alltaf betra að ná árangri með samstöðu heldur en valdboði. Við erum öll almannavarnir.“

Hér má lesa ræðu forsætisráðherra í heild sinni.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta