Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2020 Innviðaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samið við Ljósið um þjónustu við fólk á landsbyggðinni

Elsa. B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins við undirritun samningsins. - myndMynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur styrkt Ljósið um 34 milljónir kr. til að veita fólki með krabbamein, sem búsett er á landsbyggðinni, og aðstandendum þeirra þjónustu með rafrænum hugbúnaði og bæta aðgengi íbúa um land allt að starfsemi Ljóssins. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára og munu fjármunirnir gera sérfræðingum Ljóssins kleift að auka faglega þjónustu í gegnum fjarfundabúnað og efla samvinnu við aðra fagaðila á landsbyggðinni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Elsa. B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins undirrituðu samninginn í dag í húsakynnum Ljóssins við Langholtsveg.

Styrkurinn er veittur á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en ein af aðgerðum hennar er að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Samningurinn er í takt við áherslur í heilbrigðisstefnu stjórnvalda um að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu með innleiðingu á fjarheilbrigðislausnum.

„Það er afskaplega þýðingarmikið að íbúar á landsbyggðinni eigi tækifæri á að nýta sér endurhæfingarþjónustu Ljóssins til viðbótar við heilbrigðisþjónustu heima í héraði. Starfsfólk Ljóssins hefur unnið ómetanlegt starf á síðustu fimmtán árum og fyrir það ber að þakka,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Samningurinn er mikilvægt skref í að bæta endurhæfingarferli krabbameinsgreindra um allt land. Þeir sem greinast með krabbamein og eru búsettir á landsbyggðinni hafa aðeins í litlum mæli átt kost á að nýta sér þjónustu Ljóssins hingað til,“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.

Ljósið fagnar 15 ára afmæli

Ljósið fagnar 15 ára afmæli í ár og veitir fjölbreytta þjónustu fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra. Markmiðið er að veita endurhæfingu í kjölfar greiningar, viðhalda andlegu og líkamlegu þreki, fræða um bjargráð og að ýta undir virkni og félagslega þátttöku.

Í Ljósinu starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga og má þar nefna iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, sálfræðinga, markþjálfa og næringarráðgjafa.

  • Erna Magnúsdótir, forstöðukona Ljóssins, tók á móti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í dag þegar styrktarsamningurinn var undirritaður í húsakynnum Ljóssins á Langholtsvegi.   - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta