Fjárlagafrumvarp 2007
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 24/2006
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007 er með 15,5 milljarða tekjuafgangi sem er tæplega 23 milljörðum króna betri afkoma en gert var ráð fyrir í síðustu langtímaáætlun.
Frumvarpið sýnir að staða ríkissjóðs er sterk og þrátt fyrir áætlanir um að tekjur lækki í krónutölu á milli ára verða skuldir áfram greiddar niður og staðan bætt með öðrum hætti. Verulegt aðhald hefur verið í ríkisfjármálum árin 2005 og 2006, en tekjuafgangur þessara ára hefur verið um 5% af landsframleiðslu að meðaltali hvort ár án áhrifa af sölu Landssímans hf. Eðlilegt er að tekjuafgangur á næsta ári minnki þegar dregur úr umsvifum í efnahagslífinu og ríkissjóður lækkar skatta, eykur vegaframkvæmdir og framlög til velferðarmála til mótvægis. Ríkisfjármálum verður því beitt á móti þeim samdrætti í innlendri eftirspurn sem óhjákvæmilega verður þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur. Tekjuskattar einstaklinga verða lækkaðir um eitt prósentustig á næsta ári auk þess sem persónuafsláttur hækkar. Skattleysismörk verða eftir breytingarnar um 90 þúsund krónur á mánuði og hafa þá hækkað um 14%. Barnabætur hækka um 1,7 milljarða króna milli ára m.a. vegna lækkunar skerðingahlutfalla og að bæturnar munu ná til 18 ára aldurs í stað 16 ára eins og nú er. Áætlað er að útgjöld vegna almannatrygginga og þjónustu við aldraða aukist um 7 milljarða króna á næsta ári meðal annars vegna hækkunar lífeyris, lækkunar skerðingahlutfalla og einföldunar almannatryggingakerfisins. Hrein staða ríkissjóðs, það er hreinar skuldir að frádregnum viðskiptareikningum og innistæðum ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, lækkar úr 32% af landsframleiðslu árið 1997 í aðeins 1,4% á næsta ári. Sterk staða ríkisfjármála er spegilmynd af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur einnig birst í vaxandi kaupmætti, litlu atvinnuleysi, lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga samhliða því að framlög til mennta- og velferðarmála hafa verið aukin. Stefnan hefur verið skýr; að efla grunnþætti efnahagslífsins fyrst með bættu umhverfi atvinnulífsins og nota ábatann af lækkandi skuldum og vaxtakostnaði ríkisins til að lækka skatta á einstaklinga og efla innviði efnahagslífsins enn frekar með framlögum til menntamála og rannsókna auk þess að efla velferðarkerfið.
Afkoma umfram væntingar árin 2006 og 2007
Gert er ráð fyrir 15,5 milljarða króna tekjuafgangi á ríkissjóði árið 2007, eða sem nemur 1,3% af landsframleiðslu. Tekjuafkoma ríkissjóðs árið 2007 verður um 23 milljörðum betri en áætlað var í langtímaáætlun sem fylgdi fjárlagafrumvarpi 2006. Endurskoðuð áætlun um afkomu ríkissjóðs árið 2006 sýnir tekjuafgang er nemur tæplega 50 milljörðum króna, sem er mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í fjárlögum, en þar var gert ráð fyrir tæplega 20 milljarða tekjuafgangi. Ríkissjóður er því að skila umtalsvert auknu aðhaldi í hagstjórn þessi ár.
Afkoma ríkissjóðs
Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs
Liður
|
Reikn. 2005
|
Reikn. 20051
|
Fjárlög 2006
|
Áætlun 2006
|
Frumvarp 2007
|
---|---|---|---|---|---|
Tekjur |
421,2
|
358,8
|
334,6
|
375,0
|
373,4
|
Gjöld |
308,4
|
302,0
|
315,0
|
326,0
|
357,9
|
Tekjujöfnuður |
112,8
|
56,8
|
19,6
|
49,0
|
15,5
|
Rekstrarliðir sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi |
-77,7
|
-21,7
|
-4,1
|
-2,0
|
-2,2
|
Handbært fé frá rekstri |
35,1
|
35,1
|
15,5
|
47,0
|
13,3
|
Fjármunahreyfingar |
50,4
|
16,3
|
-0,8
|
-2,6
|
3,0
|
Hreinn lánsfjárjöfnuður |
85,5
|
51,4
|
14,7
|
44,4
|
16,3
|
1 Reikningur að frátöldum áhrifum af sölu Landssíma Íslands hf. |
Tekjuafkoma án óreglulegra liða
Tekjuafkoma þegar leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum liðum lýsir betur reglulegri starfsemi ríkisins. Með óreglulegum tekjum er einkum átt við söluhagnað af eignum og með óreglulegum gjöldum er einkum átt við lífeyrisskuldbindingar og afskriftir skattkrafna, en þessa liði má einkum rekja til fyrri ára. Afkoma ríkissjóðs mæld á þennan kvarða sýnir svipaðan tekjuafgang bæði árin 2005 og 2006, eða tæplega 63 milljarða króna hvort ár. Á næsta ári er áætlað að verði 26 milljarða króna afgangur. Sést á þessu að veruleg aðhald hefur verið árin 2005 og 2006 þegar meginþungi stóriðjuframkvæmda stóð yfir og að tekjuafgangur fyrir og eftir þessi tvö ár verður svipaður í krónutölu.
Tekjuafgangur án óreglulegra liða
Liður
|
Reikn. 2005
|
Fjárlög 2006
|
Áætlun 2006
|
Frumvarp 2007
|
---|---|---|---|---|
Tekjur umfram gjöld |
112,8
|
19,5
|
49,0
|
15,5
|
Óregluleg gjöld |
13,9
|
10,8
|
13,8
|
10,8
|
Óreglulegar tekjur |
64,1
|
0,5
|
0,1
|
0,3
|
Tekjuafgangur fyrir óreglulega liði |
62,6
|
29,8
|
62,7
|
26,0
|
Ráðstöfun lánsfjárafgangs
Áætlað er að lánsfjárafgangur nemi 16,3 milljörðum króna á næsta ári, en það er það fé sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar áður en kemur til greiðslu skulda. Verður lánsfjárafgangi varið til að greiða niður skuldir og bæta stöðu ríkissjóðs enn frekar við Seðlabankann. Í árslok 2005 námu fyrirframgreiðslur ríkissjóðs inn á lífeyrisskuldbindingar 100 milljörðum króna ásamt vöxtum og verða komnar í 120 milljarða miðað við áform í fjárlagafrumvarpi 2007. Í lok ágúst síðastliðinn námu heildareignir ríkissjóðs og stofnana ríflega 100 milljörðum króna hjá Seðlabanka Íslands en ríkissjóður styður beint við peningastefnuna með því að leggja fjármuni inn á reikning hjá Seðlabankanum þar sem það dregur úr fjármagni í umferð. Ríkissjóður hefur greitt niður skuldir sínar á undanförnum árum og er gert ráð fyrir að greiddar verði niður skuldir er nemur 25 milljörðum árin 2006 og 2007. Er áætlað að nettó skuldastaða ríkissjóðs verði kominn niður í 16% af landframleiðslu í lok árs 2007 en var 46% árið 1997
Stefnumörkun í ríkisfjármálum 2007-2010
Stefnumörkunin sýnir mun betri afkomu en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006 og að eftir lítilsháttar tekjuhalla verður afgangur á ríkissjóði í lok tímabilsins. Það gerist þrátt fyrir að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf. hefjist á næsta ári. Að frádregnu söluandvirðinu er ríflegur tekjuafgangur öll árin. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr þjóðarútgjöldum á næsta ári og að útflutningur aukist þegar álframleiðsla er komin á fullt skrið. Því mun draga hratt úr viðskiptahalla á næstu árum. Til að mæta samdrætti í þjóðarútgjöldum á næsta ári vegna minni stóriðjuframkvæmda mun ríkissjóður auka framlög til vegagerðar auk þess að skattar á tekjur einstaklinga verða lækkaðir. Helstu markmið í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eru óbreytt frá fjárlögum 2006 að því frátöldu að dregið er úr aukningu á fjárfestingu árið 2007 frá því sem áður var áformað en vöxtur tekjutilfærslna á næsta ári verður tímabundið yfir markmiðum langtímastefnumörkunar:
- Fylgt verði aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Þannig verði árlegur vöxtur samneyslu að jafnaði ekki umfram 2,0% að raungildi og hækkun tilfærsluútgjalda að jafnaði ekki umfram 2,5% að raungildi
- Dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 5,5 milljarða króna árið 2007 frá því sem ráðgert var í langtímaáætlun sem fylgdi fjárlagafrumvarpi 2006. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði aftur auknar árið 2008 í samræmi við fyrri langtímaáætlun og lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.
- Á árinu 2007 verður áfram varið umtalsverðum fjármunum til skattalækkana í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Tekjuafkoma langtímaáætlunar í fjárlagafrv. 2006 og 2007
Tekjuafgangur án ráðstöfunar á söluandvirði Landsíma Íslands hf.
Tekjuskattar einstaklinga lækka og barnabætur hækka
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjuskattar einstaklinga lækki um eitt prósentustig og að persónuafsláttur hækki um 11%. Skattleysismörk hækka því um 14% og verða 90 þús.kr. á mánuði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld vegna barnabóta aukist um 1,7 milljarða króna, eða um fjórðung frá fjárlögum 2006. Gert er ráð fyrir að ótekjutengdar bætur hækki, tenging við tekjur minnki og að bæturnar nái til 18 ára aldurs í stað 16 ára eins og nú er. Með þessum aðgerðum er hluta af styrkri stöðu ríkissjóðs skilað til heimilanna án þess að stefna ríkisfjármálunum í hættu.
Helstu efnahagsforsendur fjárlagafrumvarps 2007
Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir 4,2% hagvexti árið 2006, en aðeins 1% vexti árið 2007. Spáð er að verðlag hækki um 4,5% að meðaltali milli 2006 og 2007 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 3,8%. Gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 2% á milli ára og að atvinnuleysi aukist úr 1,3% af vinnuafli á þessu ári í 2,1% árið 2007. Áætlað er að viðskiptahalli lækki hratt á næstu árum, eða úr 18,7% af landsframleiðslu árið 2006 í 10,7% á næsta ári og 3,8% árið 2008. Lækkun viðskiptahalla má rekja til lækkunar þjóðarútgjalda og til aukins útflutnings á áli.
Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps
Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 373,4 milljarðar króna og lækka um 1,7 milljarða frá áætlaðri útkomu þessa árs, eða um 4,7% að raungildi. Koma þar fram áhrif minni umsvifa á næsta ári og að einkaneysla dregst saman frá þessu ári. Dregur því úr tekjum af veltusköttum svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þá verða tekjuskattar einstaklinga lækkaðir á næsta ári. Áætlað er að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu lækki úr 31% árið 2006 í 29,2% árið 2007.
Útgjöld ríkissjóðs
Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2007 eru áætluð 357,9 milljarðar króna og aukast þau um 31,8 milljarða króna frá áætlaðri útkomu 2006, eða um 5% að raungildi. Koma þar fram áhrif af samkomulagi ríkisins og Landssambands eldri borgara og hækkun á lífeyri öryrkja sem auka útgjöld um 7 milljarða króna. Þá aukast framlög til vegamála um 4,5 milljarða auk þess að áfram er varið auknu fjármagni til menntamála og rannsókna í samræmi við stefnu í vísinda- og tæknimálum. Auk hækkunar lífeyristrygginga hækka barnabætur um 1,7 milljarða króna, framlög til þróunaraðstoðar eru aukin í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og lagður er til einn milljarður króna til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar við áframhald kjarasamninga. Loks má nefna að útgjöld aukast um tvo milljarða króna vegna brotthvarfs varnarliðsins m.a. vegna eflingar á þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Á móti kemur að gripið er til ýmissa aðhaldsaðgerða á gjaldahlið, bæði í rekstri og með því að draga úr fyrri áformum um auknar framkvæmdir. Tímabundið hækka útgjöld ríkissjóðs vegna tekjutilfærslna umfram markmið ríkisstjórnarinnar og má að stærstum hluta rekja það til almannatrygginga og barnabóta. Það ásamt auknum framlögum til vegamála veldur því að útgjöld ríkissjóðs hækka úr 29,2% af landsframleiðslu árið 2006 í 30,5% árið 2007. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármála en árin 2002-2004 voru útgjöldin að jafnaði 33% af landsframleiðslu á grunni ríkisreiknings og fjárlaga.
Vegaframkvæmdir og önnur fjárfesting ríkissjóðs
Sterk staða ríkisfjármála
Staða ríkisfjármála á Íslandi er sterk sé miðað við afkomu ríkissjóðs og skuldastöðu í alþjóðlegum samanburði. Ríkissjóður hefur verið rekinn með umtalsverðum tekjuafgangi á undanförnum árum og verður með talsverðum afgangi á þessu ári. Tekjuafgangi og andvirði seldra eigna hefur verið ráðstafað til að greiða niður skuldir ríkisins og búa á annan hátt í hag fyrir framtíðina. Ríkissjóður er því í stöðu til að lækka skatta þegar dregur úr umsvifum í efnahagslífinu og getur mætt áföllum í framtíðinni án þess að grípa þurfi til skammtímaráðstafana. Sterk staða kemur meðal annars fram í því að vaxtatekjur verða í fyrsta sinn hærri en vaxtagjöld á þessu ári. Nettó skuldastaða ríkissjóðs hefur lækkað hröðum skrefum á undanförnum árum og sé tekið tillit til innistæðu í Seðlabanka Íslands verður staðan aðeins 1,4% af landsframleiðslu, en var 32% árið 1997. Eignir ríkissjóðs og stofnana hjá Seðlabanka Íslands umfram skuldir voru rúmlega 100 milljarðar króna í lok ágúst sl.
Eignir ríkisins í Seðlabankanum
Hreinar skuldir ríkissjóðs á Íslandi og hjá ríkjum OECD
Jafnvægi í efnahagsmálum
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007 og niðurstaða langtímaáætlunar sýna að eftir nokkurt ójafnvægi á utanríkisviðskiptum og tímabundna verðbólgu mun hagkerfið þróast í átt til meira jafnvægis á komandi árum. Gert er ráð fyrir að þjóðarútgjöld dragist saman um 6,4% árið 2007 og 4,4% árið 2008, en að útflutningur aukist um ríflega 10% hvort ár. Halli á viðskiptum við útlönd lækkar því úr 18,7% af landsframleiðslu árið 2006 í 10,7% á næsta ári og 3,8% árið 2008. Þannig mun samdráttur í innflutningi og mikill vöxtur í útflutningi áls knýja hagvöxt næstu árin sem er spáð að verði 1% árið 2007 og 2,6% árið 2008. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist á næsta ári, það dragi úr spennu á vinnumarkaði og verðbólga fari ört lækkandi og nái markmiðum Seðlabanka Íslands í lok næsta árs. Langtímaspár þjóðhagsáætlunar benda til að árlegur hagvöxtur verði um 3%, verðbólga um 2% og viðskiptahalli um 2% af landsframleiðslu.
- Fjárlagafrumvarpið er á fjárlög.is
- Ný þjóðhagsspá
Fjármálaráðuneytinu, 2. október 2006