Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Mikilvægar staðreyndir vegna umræðu um ofvirknilyf

Notkun ofvirknilyfja sem innihalda metýlfenidat er hvergi í heiminum meiri en á Íslandi. Notkunin hefur aukist ár frá ári, sérstaklega hjá fullorðnum. Niðurgreiðslum metýlfenidats verður ekki hætt en eftirlit með ávísunum metýlfenidatslyfja til fullorðinna verður eflt, auknar kröfur gerðar um faglega greiningu og strangari skilyrði sett fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Velferðarráðuneytið og fulltrúar ADHD samtakanna funduðu fyrir helgi þar sem ráðuneytið gerði grein fyrir þessum áformum og rökin að baki þeim. Sjá samantekt frá fundinum.

Í opinberri umræðu um metýlfenidat að undanförnu hefur komið fram að til standi að hætta alveg greiðsluþátttöku almannatrygginga í metýlfenidatlyfjum fyrir fullorðna, líkt og segir í fjárlagafrumvarpi ársins 2013. Að óbreyttu er áætlað að niðurgreiðslur metýlfenidats fyrir fullorðna myndu á næsta ári nema hátt í 340 milljónum króna en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er miðað við að útgjöldin lækki um 220 milljónir króna. Eftir stendur þriðjungur af fjárhæðinni sem nýtast mun til að greiða niður metýlfenidat hjá fullorðnum. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fækki í hópi fullorðinna sem fá ávísað metýlfenidatslyfjum með bættum greiningum, breyttum vinnureglum sjúkratrygginga, hertu eftirliti Embættis landlæknis og stofnun sérstaks teymis á Landspítala sem verður faglegur bakhjarl sérfræðinga og ráðgefandi fyrir heilbrigðisyfirvöld. Fjármögnun vegna stofnunar teymisins hefur verið tryggð.

Sívaxandi notkun metýlfenidats meðal fullorðinna er áhyggjuefni

  • Notkun metýlfenidats
    Lyfjanotkun (DDD) metýlfenidats 2006-2011 eftir aldurshópum

Þróun og rannsóknir á metýlfenidatlyfjum hafa fyrst og fremst beinst að börnum og ungmennum og eins og fram kemur í markaðsleyfum lyfjanna eru þau ætluð aldurshópnum 6-18 ára. Viðurkennt er að lyfin geta gagnast fullorðnum í ákveðnum tilvikum en það vekur athygli hve ávísun þeirra til fullorðinna hefur stóraukist á síðustu árum og er nú orðin meiri meðal fólks yfir tvítugu en hjá börnum og ungmennum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Íslendingar með heimsmet í notkun metýlfenidats

Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna sá í árslok 2010 ástæðu til þess að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á þeirri staðreynd að hvergi í heiminum væri notkun metýlfenidats meiri en á Íslandi. Bent var á að misnotkun efnisins sé vel þekkt meðal þjóða þar sem lyfið er mjög aðgengilegt. Vakta þurfi útbreiðslu, fylgjast með hvernig því sé ávísað til að fyrirbyggja ofnotkun og vera á verði gagnvart ólöglegri dreifingu og misnotkun.

Hér á landi er metýlfenidat það efni sem sprautufíklar á Íslandi nota í mestum mæli samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ. Afleiðingar þess eru alvarlegar og hafa meðal annars komið fram í stóraukinni tíðni HIV-smits og lifrarbólgu B meðal fíkla. Markmið boðaðra aðgerða er að tryggja fullorðnum þessi lyf sem tvímælalaust þurfa á þeim að halda en draga um leið úr ofnotkun og misnotkun metýlfenidats sem er þekkt og vaxandi vandamál hér á landi.

Til frekari upplýsinga er athygli vakin á umfjöllun í Læknablaðinu 02. tbl. 97. árg. 2011 um mikla notkun ADHD lyfja hér á landi: Met í notkun ADHD-lyfja. Viðtöl við Kristin Tómasson, Pál Matthíasson og Geir Gunnlaugsson.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta