Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2003 Innviðaráðuneytið

eGovernment 2003

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Lísa Björg Ingvarsdóttir frá Hugviti og Hlöðver Bergmundsson frá LÍN á íslenska kynningarbásnum
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Lísa Björg Ingvarsdóttir frá Hugviti og Hlöðver Bergmundsson frá LÍN á íslenska kynningarbásnum

Frétt frá fjármálaráðuneyti

Dagana 7.-8. júlí gekkst Evrópusambandið fyrir ráðherrafundi og ráðstefnu um rafræna stjórnsýslu (eGovernment) í Como á Ítalíu. Fundurinn var að frumkvæði Ítalíu sem nú fer með formennsku í ESB og var EFTA ríkjunum og umsóknarlöndunum boðin þátttaka. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum voru helstu áhersluatriði Evrópusambandsins á vettvangi upplýsingatækni og rafrænnar stjórnsýslu rædd og fjöldi "fyrirmyndarverkefna" (Best practices) á sviði rafrænnar stjórnsýslu kynntur. Samþykkt var ítarleg ályktun um stefnu og markmið í þessum málaflokki.

Ráðherrarnir lögðu áherslu á að upplýsingatæknin væri mikilvægt tæki til þess að auka skilvirkni í opinberri þjónustu og að nauðsynlegt væri að hafa þarfir hins almenna notanda ávallt í fyrirrúmi við þróun rafrænnar stjórnsýslu. Mikil umræða varð um nauðsyn þess að innleiða samræmda staðla fyrir rafræn samskipti milli opinberra stofnana.

Á ráðherrafundinum lagði Geir H. Haarde áherslu á ad rafræn stjórnsýsla þyrfti að spara bæði tíma og fé, ásamt því að kerfin þyrftu að vera einföld í notkun og svartími góður. Þau yrðu auk þess að vera þannig úr garði gerð að ekki þurfi neina sérþekkingu eða þjálfun aðra en lágmarkstölvukunnáttu til að nota kerfin. Ráðherra gerði einnig grein fyrir þróun rafrænnar stjórnsýslu á Íslandi og sagði m.a. frá skattframtölum almennings og fyrirtækja á netinu og þeirri miklu útbreiðslu sem þau hafa náð á Íslandi.

Samhliða fundinum var haldin sýning þar sem útvöldum evrópskum fyrirtækjum var boðið að kynna fyrrnefnd "fyrirmyndarverkefni"á sviði rafrænnar stjórnsýslu. Eitt íslenskt verkefni var kynnt, en það er nýtt kerfi sem Hugvit hf. hefur þróað meðal annars fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kerfið gerir námsmönnum kleift að sinna erindum við Lánasjóðinn í gegnum Internetið hvar sem þeir eru staddir í heiminum og er því gott dæmi um hvernig rafræn stjórnsýsla getur þjónað almenningi. Forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, flutti ræðu á ráðstefnunni og heimsótti m.a. íslenska básinn.

Vefslóð sem tengist þessu er:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta