Aukið viðnámsþol nærsamfélaga í Malaví
Í vikunni var skrifað undir samstarfssamning milli Rauða krossins á Íslandi og utanríkisráðuneytisins um áframhald verkefnis í Malaví sem heitir „Aukið viðnámsþol nærsamfélaga í Malaví“ en það er samstarfsverkefni Rauða kross félaganna á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Ítalíu auk Rauða krossins í Malaví sem er framkvæmdaraðili. Verkefnið er dyggilega stutt af utanríkisráðuneytinu.
Verkefnið hófst í ársbyrjun 2016 og mun ljúka í árslok 2019. Verkefnið er unnið í þremur héruðum: Mangochi, Mwanza og Chikwawa. Að sögn Atla Viðars Thorstensen sviðsstjóra hjálpar- og mannúðarsviðs hjá Rauða krossinum á Íslandi telur markhópur verkefnisins 150 þúsund manns.
„Grunnmarkmiðið er að efla viðnámsþrótt fólks á verkefnasvæðunum og sérstök áhersla er lögð á þátttöku þeirra sem berskjaldaðastir eru. Verkefnið samtvinnar ýmsa þætti: Bæta heilsufar íbúa til lengri tíma, meðal annars að draga úr mæðra- og ungbarnadauða, draga úr dauðsföllum af völdum malaríu og stuðla að heilbrigðu líferni, tryggja aðgengi fólks að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess, salernisaðstöðu og hreinlæti, stuðla að bættum neyðarvörnum og neyðarviðbrögðum á verkefnasvæðinu,“ segir Atli Viðar.
Verkefninu má skipta í fimm meginþætti; (1) heilbrigði, (2) vatn & hreinlæti, (3) neyðarvarnir & neyðarviðbrögð, (4) aukin félagsleg þátttaka og (5) efling getu landsfélagsins.
Atli Viðar segir að árangurinn í verkefninu hafi til þessa verið mjög góður og framkvæmd að mestu á áætlun. „Verkefnið grundvallast á framlagi sjálfboðaliða Rauða krossins í Malaví og mikil áhersla var lögð á að efla enn frekar getu og þekkingu sjálfboðaliða við framkvæmd verkefnisins sem miðla þekkingu sinni til sinna nærsamfélaga sem þeir tilheyra sjálfir og hafa þannig traust heimamanna. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins hafa meðal annars unnið hörðum höndum að því að koma upp salernisaðstöðu heimili í þorpum,við heilsugæslu og í skólum ásamt því að tryggja íbúum á svæðinu aðgengi að öruggu drykkjarvatni. Þá hefur verið unnið að því að draga úr malaríusmitum og berskjölduð börn hafa fengið ritföng, skó, vasaljós, skólabúninga og skólagjöld greidd til að geta stundað nám,“ segir hann að lokum.