Hoppa yfir valmynd
21. desember 2021 Innviðaráðuneytið

Mikil ásókn í styrki til mannvirkjarannsókna

Fjörutíu aðilar sóttu um ríflega 454 milljón króna styrki í Ask, nýstofnaðan mannvirkjarannssóknarsjóð, í fyrsta umsóknarferli sjóðsins. Umsóknarfrestur rann út 9. desember sl. en til úthlutunar eru 95 milljónir. Fagráð annast faglegt mat umsókna í samræmi við áherlsur á sviði nýsköpunar og atvinnulífs, veitir umsögn um styrkumsóknir og gerir tillögur til ráðherra um úthlutun styrkja.

Askur er nýr mannvirkjarannsóknasjóður í eigu félagsmálaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. HMS annast rekstur og daglega umsýslu hans. Sjóðurinn veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum í mannvirkjagerð. Framvegis verður auglýst eftir umsóknum í Ask í september á ári hverju.

Við úthlutun sjóðsins fyrir árið 2021 er lögð áhersla á: 

  • Raka- og mygluskemmdir: Verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda og hvernig unnt sé að bregðast við þeim með árangursríkum hætti.
  • Byggingarefni: Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, á endingu þeirra og viðnámsþoli, á efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur. Einnig verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins
  • Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda: Verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda á líftíma mannvirkja.
  • Tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum: Þróun tæknilegra lausna sem hafa einkum það markmið að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, skilvirkni, samskipti og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.
  • Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis: Rannsóknir á gæðum íbúðarhúsnæðis, hagkvæmni og hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja meðal annars með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.

Hver einstakur styrkur sem sótt er um skal ekki nema hærri fjárhæð en 19 milljónir kr. og ekki meira en 70% kostnaðaráætlunar viðkomandi verkefnis.

Umfang umsókna í Ask í þessari fyrstu úthlutun hans endurspeglar spennandi grósku í nýsköpun og rannsóknum innan mannvirkjageirans. Umsækjendur eru með fjölbreytta þekkingu og reynslu sem spannar vítt svið í byggingariðnaði. 

 

Flestar styrkbeiðnirnar falla í flokkinn byggingarefni. Einnig eru mörg verkefni sem varða framþróun í orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda annars vegar og gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis hins vegar. Hið sama gildir um verkefni sem fjalla um séríslenskar áskoranir varðandi raka og myglu í byggingum sem er brýnt að rannsaka betur. Þá fela nokkur verkefnanna í sér tækninýjungar eða framfarir í byggingariðnaði. Að þessu sögðu er ljóst að margar umsóknanna tengjast í raun fleiri en einum flokki, sem er vel því þannig koma verkefnin til með að geta skilað margvíslegum ávinningi fyrir samfélagið.

Rannsóknarflokkar Sótt um í
hverjum flokki
Sótt um
%
Fjöldi
verkefna
Byggingarefni 160.977.380 35% 13
Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda 112.856.000 25% 10
Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis 90.282.700 20% 8
Raka- og mygluskemmdir 48.182.000 11% 5
Tækninýjungar 41.413.900 9% 4
Samtals 453.711.980   40

Fagráðið, sem veitir umsögn um styrkumsóknir, mun leggjast yfir mat umsókna á næstu vikum. Það skipa eftirfarandi fulltrúar:

  • Olga Árnadóttir, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, formaður ráðsins
  • Björn Karlsson, fulltrúi félagsmálaráðuneytis
  • Guðríður Friðriksdóttir, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis
  • Ólafur Pétur Pálsson, fulltrúi samstarfsnefndar háskólastigsins
  • Hjörtur Sigurðsson, fulltrúi Samtaka iðnaðarins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta