Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi þrjú: Fyrsti fundur um skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum

  • Nefndarheiti: Teymi 3 – Skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum.
  • Nr. fundar: 1.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytinu, 6. nóvember 2013, kl. 13.30.
  • Fundarstjóri: Elsa Lára Arnardóttir.
  • Mætt: Ásta G. Hafberg (Samtök leigjenda), Björk Vilhelmsdóttir (Reykjavíkurborg), Björn Arnar Magnússon (Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins), Gunnhildur Gunnarsdóttir (Íbúðalánasjóður), Gyða Hjartardóttir (Samband íslenskra sveitarfélaga), Hólmsteinn Brekkan (Þingflokkur Pírata), Magnús Norðdahl (Alþýðusamband Íslands), Kristinn Dagur Gissurarson (Þingflokkur Framsóknarflokksins) og Þorbera Fjölnisdóttir (Sjálfsbjörg).
  • Fundarritari: Sigrún Rósa Björnsdóttir.

D A G S K R Á

1. Setning fundar.

Fundarstjóri hóf fundinn og fundarmenn kynntu sig með nafni og á hvers vegum þeir sitja í nefndinni.

2. Staðan í dag þegar kemur að félagslegum úrræðum í húsnæðismálum.

Fundarmenn ræddu það verkefni sem er fyrir höndum og sammæltust um að áður en farið væri að huga að lausnum, þyrfti að fara yfir stöðuna eins og hún er í dag þegar kemur að félagslegum úrræðum í húsnæðismálum.

Í því skyni var velt upp ýmsum sjónarmiðum. Vísað var til skýrslu samráðshóps um húsnæðisstefnu frá því í apríl 2011 sem var gerð á vegum velferðarráðuneytisins og niðurstaðna hennar.

Þá sneru áherslupunktar í umræðunni m.a. að því að bótakerfið eins og það er í dag, þ.e. vaxtabætur, húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur þarfnist endurskoðunar við. Fram kom sjónarmið um að ávallt verði einhver hluti fólks sem vegna aðstæðna þurfi á félagslegu úrræði að halda vegna húsnæðismála hvort sem er tímabundið eða til frambúðar. Staðan hafi einnig breyst í kjölfar hrunsins þar sem nú hafi bæst við hópur sem hafi hingað til ekki fallið undir skilgreiningar  félagsþjónustu um viðmið vegna fjárhagsaðstoðar.Nauðsynlegt sé að skilgreina úrræði fyrir þennan hóp þannig að  honum sé gert kleift að nýta sér félagsleg úrræði sem hann kann að þurfa tímabundið á að halda  vegna félagslegra aðstæðna. Fólk í þessari stöðu sé í vanda þar sem það ráði ekki við að leigja á almennum leigumarkaði en sé yfir tekjumörkum þegar kemur að félagslegu húsnæði. Í dag sé einnig lítið húsnæðisöryggi hjá þeim sem eru á leigumarkaði. Hátt vaxtastig og ávöxtunarkrafa geri það að verkum að ekki sé áhugavert fyrir leigufélög að koma inn á leigumarkaðinn, þar sem kostnaðarverð íbúða sé það hátt. Einnig sé í mörgum tilvikum verið að byggja of stórt húsnæði og í dag vanti minna húsnæði sem fólk geti bæði borgað af og lifað mannsæmandi lífi af þeim tekjum sem eftir eru til ráðstöfunar.

3. Ákvarðanir fundarins.

Fundarmenn komust að þeirri niðurstöðu að áhersla verkefnisins ætti að vera á hvernig hægt væri að tryggja stuðning við það fólk sem þarf á honum að halda tímabundið eða til framtíðar eftir aðstæðum, umfram þann stuðning sem er til staðar. Huga þurfi vel að öldruðum, sem og því fólki sem einhverjum ástæðum þarf sérstakan stuðning. Í því felist einnig að horfa víðar en áður og hafa í huga að fólk geti lent í aðstæðum sem séu í mörgum tilvikum tímabundnar. Leggja verði áherslu á húsnæðisöryggi og að fólk hafi raunverulegt val um búsetu óháð því hvort hægt sé að flokka það í skilgreinda hópa.

Jafnframt voru fundarmenn sammála um að ekki væri ástæða til að fara að finna upp hjólið heldur yrði að einhverju leyti byggt á þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin í þessum málaflokki.

Ákveðið var að fyrir næsta fund væru fundarmenn búnir að skilgreina vel áherslur sínar svo hægt væri að fara að vinna að tillögum um félagsleg úrræði í húsnæðismálum.

Einnig var ákveðið að fyrir næst fund væru fundarmenn búnir að kynna sér efni áðurnefndrar skýrslu samráðshóps um húsnæðisstefnu og ræða í sínu umhverfi.

Fundarmenn mæti með mótaðar tillögur á næst fund nefndarinnar.

4. Skipulag verkefnisins.

Farið var yfir skipulagið framundan og sammæltust fundarmenn um að nauðsynlegt væri að funda vikulega í nóvember, svo unnt væri að ná að skila tillögum til samvinnuhópsins í lok nóvember, líkt og gert er ráð fyrir.

5. Næsti fundur.

Fundarstjóri sjái um að boða tímanlega fund sem verði haldinn í byrjun næstu viku, þ.e. vikuna 11.-17. nóvember.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta