Hoppa yfir valmynd
20. desember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2002: Dómur frá 20. desember 2002

Ár 2002, föstudaginn 20. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 11/2002.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Sjómannasambands Íslands vegna

Sjómannafélagsins Jötuns

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landsambands íslenskra útvegsmanna vegna

Útvegsbændafélags Vestmannaeyja f.h.

Ísfélags Vestmannaeyja hf.

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 13. nóvember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Pétur Guðmundarson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Sjómannasambands Íslands, kt. 570269-2249, Borgartúni 18, Reykjavík, vegna Sjómannafélagsins Jötuns, kt. 670169-2439, Skólavegi 6, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, vegna Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, kt. 560371-0209, Flötum 25, Vestmannaeyjum, f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., kt. 660169-1219, Strandvegi 28, Vestmannaeyjum.

 

Dómkröfur stefnanda 

Aðalkrafa

Að dæmt verði að með því að halda Antares VE-18 til veiða á sjómannadaginn 2. júní 2002 hafi stefndi brotið gegn grein 1.14. og 6.05. í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Varakrafa

Að dæmt verði að með því að halda Antares VE-18 strax til veiða að löndun lokinni í Noregi, án þess að veita áhöfn hafnarfrí í heimahöfn, hafi stefndi brotið gegn grein 1.14. og 6.05. í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Í báðum tilvikum er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til greiðslu samningsbundinnar sektar samkvæmt grein 1.41. að fjárhæð 352.373 krónur.   Jafnframt er þess krafist að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda 

  1. Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
  2. Að stefnukrafa verði lækkuð.
  3. Að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. gerir út nótaveiðiskipið Antares VE-18.  Á sjómannadaginn 2. júní 2002 var skipið við veiðar í svonefndri Síldarsmugu, þ.e. á afmörkuðu svæði norðaustur af Íslandi sem markast af lögsögu Íslands, Noregs og Færeyja.

Antares hafði haldið til veiða 16. maí eftir að hafa reynt fyrir sér með síldveiðar við suður- og vesturströnd Íslands.  Fyrsti afli fékkst 27. maí og landaði skipið kældri síld í Træna í Noregi sem var seld á uppboði til manneldis og fengust um 36 krónur fyrir kílóið.  Næst fékkst afli, um 500 tonn, þann 4. júní, sem boðinn var til sölu á uppboðsmarkaði hjá Norges sildesalgslag, sem hefur einkarétt á sölu á síldinni í Noregi.  Ekkert boð fékkst í síldina svo ákveðið var að fylla skipið og selja í bræðslu í Bodö 7. júní, en þar fengust einungis um 13 krónur fyrir kílóið.

Næst landaði skipið í Krossanesi á Akureyri 14. júní og hafði þá verið ákveðið að taka áunnið hafnarfrí og 36 klst. í viðbót samkvæmt kjarasamningi vegna útiveru á sjómannadaginn. Skipverjar voru ferjaðir til Vestmannaeyja í frí og komu aftur um borð að kvöldi 20. júní og var þá haldið til veiða á ný.

Vegna veiða skipsins á sjómannadaginn kom stefnandi á framfæri athugasemdum sínum við stefnda, Ufsaberg ehf., með bréfi, dags. 12. júní 2002.  Þar er bent á að slík háttsemi samræmist ekki ákvæðum kjarasamnings þar sem ótvírætt sé kveðið á um að ekki skuli verið á sjó á þeim degi.  Varði slíkt brot sekt að fjárhæð 352.373 krónum, sbr. grein 1.41. í kjarasamningi.

Með bréfi, dags. 18. júní 2002, mótmælti stefndi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, athugasemdum stefnanda og hélt því fram að ekki hefði verið brotið gegn banni við veiðum á sjómannadaginn í ljósi undanþáguákvæðis 3. mgr. 5. gr. laga nr. 20/1987 um sjómannadag, sem væri hluti af kjarasamningi.  Taldi stefndi með vísan til þessa það vera misskilning að kjarasamningur hefði verið brotinn.

Af hálfu stefnda er á það bent að í byrjun maí 2002 hafi áhöfn Antares verið greint frá því að ætlunin væri að fara um miðjan mánuðinn norður í höf til veiða á norsk-íslenskri síld, þar sem ekkert væri að hafa hér við land. Ætlunin væri að landa sem mestu af aflanum til manneldisvinnslu í Noregi til að fá sem best verð. Gera mætti ráð fyrir að síld til manneldis seldist fyrir þrefalt hærra verð en til bræðslu. Þá hafi verið greint frá því að skipið myndi verða úti um sjómannadagshelgina og hafi  skipverjar haft viku til tíu daga til að ákveða hvort þeir vildu fara með eða vera í fríi.

Skipverjum hafi jafnframt verið tjáð að stefndi ætti stóran kvóta í norsk-íslensku síldinni, en mikið hefði vantað upp á að kvóti síðastliðins árs hefði náðst.  Orsök þess væri m.a. sú að mjög illa hefði staðið á með landanir fyrir sjómannadaginn í fyrra og stöðvanir allra skipanna hefðu orðið mun lengri en ráð hafði verið fyrir gert. Það væri mjög slæmt bæði fyrir útgerðina og skipshafnir ef kvótar næðust ekki og ekki síður núna ef norsk-íslenski kvótinn næðist ekki eitt árið enn því að Norðmenn myndu örugglega nýta sér það til að krefjast þess að hlutdeild Íslendinga í úthlutuðum kvóta yrði minnkuð. Því væri áætlað, ef landanir erlendis gengju upp, að skipið yrði ekki stöðvað yfir sjómannadagshelgina og að útivistin gæti orðið þar til kvótinn væri uppveiddur eða ekki veiddist síld lengur.

Þar sem svo virtist að upp væri risinn ágreiningur milli aðila kjarasamningsins um túlkun greinar 1.14. í kjaarasamningi, var þess óskað að Sjómannasamband Íslands tæki afstöðu til málsins.  Það gerði Sjómannasambandið, sbr. bréf, dags. 28. júní 2002, til lögmanns stefnanda, og taldi ótvírætt að undantekning sú sem stefndi vísaði til ætti ekki við enda gagnstætt framkvæmdinni að beita þessu undantekningarákvæði í tilvikum sem þessu, jafnframt því sem undantekningarákvæðinu hafi aldrei verið ætlað að vera beitt í tilvikum sem þeim sem hér um ræði.  Jafnframt var tekið fram að þótt undantekningarákvæðið teldist eiga við leysti það útgerðina ekki undan þeirri skyldu að veita áhöfn hafnarfrí að lokinni löndun annaðhvort þannig að sigla skipinu heim og veita frí eða senda áhöfnina flugleiðis heim.   Engar heimildir væru til að fara beint til veiða á ný.  Taldi Sjómannasamband Íslands augljóst að útgerð skipsins hefði brotið ákvæði kjarasamninga um frí á sjómannadag.

Ofangreindum sjónarmiðum var komið á framfæri við stefnda með bréfi, dags. 18. júlí 2002, en þeim var ekki svarað.

Telur stefnandi einsýnt að ekki verði leyst úr ágreiningi þessum án atbeina Félagsdóms.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi styður málsókn sína eftirfarandi rökum:

Aðalkrafa

Í 1. kafla kjarasamnings aðila sé fjallað um almenn kjör skipverja sem starfi samkvæmt kjarasamningi aðila.  Í 1. mgr. greinar 1.14. sé þannig fjallað um reglur er varði sjómannadag sem gildi um allar veiðar.  Þar komi fram að skipverjum skuli tryggt hafnarfrí frá kl. 12 á hádegi á laugardegi fyrir sjómannadag til kl. 12 á mánudegi.  Tekið sé fram að skipverjar séu ekki skyldir til vinnu á framangreindu tímabili nema öryggi skips sé í hættu eða undantekningarákvæði 3. mgr. greinar 1.14. eigi við en samkvæmt því séu ákvæði um hafnarfrí frávíkjanleg sé um að ræða skip sem ætlað sé að sigla með afla sinn á erlendan markað enda sé skipsáhöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst.

Í 6. kafla kjarasamnings aðila sé fjallað sérstaklega um kjör skipverja á síldveiðum.  Þar sé fjallað um hafnarfrí í grein 6.05.  Sé þess þar í fyrsta lagi getið með ótvíræðum hætti að hafnarfrí skuli tekið í heimahöfn og sé skipi ekki siglt til heimahafnar skuli útgerð kosta för áhafnar þangað og að frítaka hefjist þegar komið sé til heimahafnarinnar.  Þá sé jafnframt kveðið á um með afdráttarlausum hætti í 3. mgr. greinar 6.05. að á síldveiðum skuli skipverjar eiga frí á sjómannadaginn og hafi ákvæðið ekki að geyma neinar undanþágur þar frá.

Að mati stefnanda sé ljóst að stefndi hafi brotið gegn fyrirmælum kjarasamnings aðila er varði hafnarfrí, sbr. grein 1.14. og 6.05., með því að veita áhöfn sinni ekki samningsbundið hafnarfrí á sjómannadaginn.  Engar þær aðstæður hafi verið til staðar í byrjun júní sem heimilað hafi frávik frá meginreglu nefndra ákvæða.

Af hálfu stefnda hafi verið vísað til þess að heimilt hafi verið að víkja frá meginreglunni um hafnarfrí á sjómannadaginn þar sem afla Antares VE-18 hafi verið landað í Noregi og því eigi undantekningarákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 20/1987 við, sem sé efnislega samhljóða 1. málslið 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi aðila.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að málatilbúnaður stefnda í þessum efnum eigi ekki við rök að styðjast af tveimur ástæðum.  Í fyrsta lagi sé ótvírætt að samningsaðilar hafi ekki haft þá aðstöðu í huga sem hér sé um að ræða þegar samið var um undantekningarákvæði greinar 1.14.  Ákvæði þetta hafi verið sniðið að þörfum skipa sem veiddu bolfisk hér við land og sigldu með hann beint á markað erlendis þar sem hann var boðinn upp í stað þess að senda hann með flutningaskipi eftir löndun hérlendis.  Að mati stefnanda sé stefndi því að teygja samningsákvæði þannig að það taki til atvika sem því hafi aldrei verið ætlað að ná til.  Slíkt sé stefnda ekki heimilt, enda sé ótvírætt að viðtekinni framkvæmd og skilningi á kjarasamningsákvæði verði ekki breytt einhliða og þá sérstaklega ekki þannig að undantekningarákvæði sé túlkað rúmt og látið ná til nýrra tilvika og veiðigreina sem ákvæðið hafi ekki tekið mið af þegar um það var samið.  Í annan stað sé túlkun stefnda í þessum efnum enn fjær sanni þegar haft sé í huga að grein 6.05. kveði berum orðum á um að skipverjar skuli njóta hafnarfrís á sjómannadag.  Í 6. kafla kjarasamnings, sem beinlínis fjalli um síldveiðar, séu engar undanþágur frá reglunni um hafnarfrí á sjómannadaginn. Því eigi málatilbúnaður stefnda ekki við rök að styðjast og taka beri aðalkröfu stefnanda til greina.

Varakrafa

Að mati stefnanda sé ótvírætt, jafnvel þó fallist yrði á að stefnda hafi verið heimilt, vegna ákvæða 3. mgr. greinar 1.14., að vera á veiðum á sjómannadaginn, að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings með því að veita skipverjum ekki hafnarfrí þegar veiðiferð lauk með löndun í Noregi.  Vegna löndunar í Noregi og þess að hún hafi misst af sjómannadegi, hafi áhöfninni borið 36 klukkustunda aukafrí, auk þess hafnarfrís sem kveðið sé á um í 1. mgr. greinar 6.05.  Þá hafi hún átt rétt á því að nefnt frí yrði veitt í heimahöfn og hafi útgerðinni verið skylt að kosta för áhafnarinnar þangað, sbr. lokamálslið 1. mgr. greinar 6.05.  Kveðið sé á um það ótvírætt í kjarasamningi að aukafrí samkvæmt grein 1.14. skuli veita strax að siglingu lokinni jafnframt því sem kveðið sé á um fjögurra sólarhringa lágmarksfrí á hverjum 30 dögum í grein 6.05.  Engar heimildir séu til þess að fresta töku þessa frís.  Engin rök hafi verið færð fram af hálfu stefnda fyrir því að heimilt hafi verið að víkja frá ákvæðum kjarasamnings í þessum efnum og sé brot stefnda því ótvírætt fyrirliggjandi.

Sektarkrafa

Að mati stefnanda orki ekki tvímælis, hvort sem fallist verði á aðalkröfu eða varakröfu máls þessa, að stefndi hafi brotið svo gegn kjarasamningi að varði umsömdum sektum sem lagðar séu við slíkum brotum, sbr. grein 1.41. í kjarasamningi aðila.   Að mati stefnanda sé engum þeim atvikum til að dreifa sem leyst geti stefnda undan þessari samningsbundnu greiðslu að ofangreindum brotum staðreyndum.

Aðal- og varakrafa stefnanda taki mið af því að leyst verði úr ágreiningi aðila um túlkun á grein 1.14., sbr. grein 6.05. í kjarasamningi aðila.  Krafa um févíti byggi á grein 1.41. en fjárhæð umkrafins févítis sé í samræmi við hámarksfjárhæð þess ákvæðis að teknu tilliti til þeirra hækkana sem afráðnar hafi verið með úrskurði gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001.

Stefnandi byggir málsókn sína á meginreglum vinnuréttar, lögum nr. 80/1938 og gildandi kjarasamningi aðila.  Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til þess að fá álag er honum nemi dæmt úr hendi gagnaðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi farið að ákvæðum kjarasamninga og laga nr. 20/1987 þegar ákveðið hafi verið að fara til veiða á norsk- íslensku síldinni 16. maí 2002.  Skipverjar hafi, í samræmi við ákvæði greinar 1.14. í kjarasamningi, verið látnir vita fyrirfram um fyrirhugaðar veiðar á norsk-íslensku síldinni og að skipið myndi þá verða í burtu á sjómannadaginn.

Mótmælt er þeim skilningi stefnanda að með 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi sé átt við eitthvað annað en í greininni standi berum orðum.  Ákvæði um frí um sjómannadagshelgina séu frávíkjanleg þegar skipi sé ætlað að sigla með afla sinn á erlendan markað eins og Antares gerði.  Skilyrði þess séu tvö samkvæmt 3. mgr. greinarinnar.  Að skipshöfn sé kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst og að skipverjar fái 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni. Hvort tveggja hafi verið uppfyllt.  Skipverjum hafi verið kunnugt um fyrirhugaðar veiðar og eftir að komið var af síldveiðum hafi verið landað í Krossanesi á Akureyri þann 14. júní.  Þá hafi verið tekið áunnið hafnarfrí og 36 klst. í viðbót vegna útiveru yfir sjómannadaginn.  Skipverjar hafi verið ferjaðir samdægurs til Vestmannaeyja og hafi komið aftur um borð á Akureyri 20. júní og hafi skipið þá um kvöldið haldið aftur til veiða.

Áform stefnda, sem skipshöfninni hafi verið vel kunnug, hafi verið að landa helst öllum afla Antares til manneldis í Noregi og fá þannig mun hærra verð fyrir aflann til hagsbóta fyrir skipshöfn og stefnda.  Vegna verð- og eftirspurnarþróunar á síldarmörkuðum hafi vonir um sölu á síld til manneldis í Noregi brugðist, en það hafi  ekki verið ljóst fyrr en eftir sjómannadagshelgina.  Hefði stefndi ákveðið í framhaldi af löndun í Bodö að taka skipið tómt til heimahafnar til að veita heimahafnarfrí, eins og varakrafa stefnanda byggist á, megi áætla að frátafir frá veiðum hefðu numið a.m.k. 12 dögum.  Tekjutap skipshafnar hefði orðið mikið og kostnaður stefnda verulegur.  Í staðinn hafi skipið farið aftur á veiðar og hafi landað þeim afla á Akureyri 14. júní.  Hafi aflahlutur áhafnar verið samtals um 4,3 milljónir króna fyrir þann túr.

Engar óskir hafi komið frá áhöfn að hætta veiðum og halda heim til að halda upp á sjómannadaginn, enda hefði áhöfnin þá orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi, eins og að framan greini. Vakni þá spurningar um það hvort málarekstur þessi sé í þágu félagsmanna stéttarfélagsins um borð í skipi stefnda eða hafi þann eina tilgang að hirða fé af útgerðinni.

Lækkunarkrafa

Telji dómurinn að brotið hafi verið gegn kjarasamningi á þann veg að varði við grein 1.41. er gerð krafa um lækkun á stefnukröfu.  Stefndi byggir lækkunarkröfu sína á því að grein 1.41. tilgreini hámarksfjárhæð og verði því að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé.  Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir, sem eigi að njóta frísins, séu samþykkir því að taka frí síðar og fengju þá viðbótarfrí eins og 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningnum geri ráð fyrir.  Þessu til stuðnings sé enn fremur vísað til 36. gr. laga nr. 7/1936.

Málskostnaðarkrafa

Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Stefnandi telur að stefndi hafi brotið gegn grein 1.14. og 6.05. í kjarasamningi aðila með því að halda Antares VE-18 til veiða á sjómannadaginn 2. júní 2002 og veita ekki hafnarfrí.  Af hálfu stefnda er því andmælt og byggt á því að farið hafi verið að ákvæðum kjarasamnings og laga nr. 20/1987 um sjómannadag þegar ákveðið var að fara til veiða á norsk-íslensku síldinni 16. maí 2002.

Í 1. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi aðila segir að öll fiskiskip skuli liggja í höfn um sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12.00 á hádegi næsta mánudag.  Samfellt frí í tengslum við sjómannadag skal þó vera 72 klst. og telst það til innunninna fría skv. samningnum. Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu á framangreindu tímabili nema öryggi skipsins sé í hættu.  Að öðru leyti fer um frí á sjómannadaginn eftir því sem segir í lögum nr. 20/1987.

Í 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi aðila segir að ákvæði um frí um sjómannadagshelgina og um jól og áramót séu frávíkjanleg ef um sé að ræða skip sem ætlað sé að sigla með afla sinn á erlendan markað enda sé skipsáhöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Sé siglt á sjómannadegi eða jólum skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni.

Framangreind kjarasamningsákvæði um sjómannadag eru í samræmi við ákvæði 5. gr. laga nr. 20/1987, þó þannig að í lokamálslið 3. mgr. 5. gr. laganna er sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá meginreglu um frí á sjómannadaginn þegar mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst þar um milli útgerðar og skipshafnar.

Í 3. mgr. greinar 6.05. í kjarasamningi aðila er kveðið á um það að á síldveiðum skuli skipverjar hafa frí á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadag.  Það ákvæði, að því er sjómannadag varðar, ber að skýra með hliðsjón af framangreindum undanþáguákvæðum kjarasamnings og laga nr. 20/1987.  Samkvæmt þeim ákvæðum eru sett tvö meginskilyrði fyrir veiðum á sjómannadag, samkvæmt þeirri undanþágu sem á reynir í málinu. Ætlunin sé að sigla með aflann á erlendan markað og skipshöfn þarf að vera kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst.  Í því tilviki sem hér um ræðir liggur fyrir, samkvæmt yfirlýsingu trúnaðarmanns skipverja, dags. 14. október 2002, að skipverjum var kunnugt um fyrirhugaðar veiðar og að til stæði að landa afla erlendis. Samkvæmt þessu og með tilliti til þeirra veiða sem um var að ræða verður því að telja að fullnægt hafi verið undanþáguákvæðum varðandi veiðar á sjómannadaginn 2. júní 2002.  Ber því að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda í málinu.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings, greinum 1.14. og 6.05., með því að veita skipverjum ekki hafnarfrí í heimahöfn þegar veiðiferð lauk með löndun í Noregi.  Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi aðila skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni, ef siglt er á sjómannadegi.  Ómótmælt er að skipverjar fengu tilskilin hafnarfrí þ.m.t. viðbótarfrí samkvæmt 3. mgr. greinar 1.14. eftir komuna til Íslands.  Verður því ekki talið að stefndi hafi gerst brotlegur við tilgreind ákvæði kjarasamnings aðila.  Ber því einnig að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda í málinu.  Framangreind niðurstaða um dómkröfur stefnanda leiðir og til þess að sýkna ber stefnda af kröfu stefnanda um sektargreiðslu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna vegna Útvegsbændafélags Vestmannaeyja f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Sjómannasambands Íslands vegna Sjómannafélagsins Jötuns.

Málskostnaður fellur niður.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Pétur Guðmundarson

  

Sératkvæði

Gunnars Sæmundssonar

Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda að því er aðalkröfu varðar. Ég er hins vegar ósammála rökstuðningi og niðurstöðu þeirra varðandi varakröfu stefnanda og tel að niðurstaðan hefði átt að vera sem hér segir:

Samkvæmt 3. mgr. greinar 1.14. í kjarasamningi aðilia skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni ef siglt hefur verið á sjómannadegi.  Það ákvæði ber að skilja svo að fríið skuli veitt strax að siglingu lokinni en ekki einhvern tíma í óákveðinni framtíð.  Eftir löndun í Noregi þann 7. júní 2002 bar stefnda því að halda skipinu til heimahafnar eða kosta för skipverja þangað, áður en næsta veiðiferð hófst, og veita þeim samningsbunið frí.  Með því að vanrækja það braut stefndi gegn grein 1.14. og 6.05. í kjarasamningi aðila.  Ber því að fallast á að honum verði gert að greiða samningsbundna sekt samkvæmt grein 1.41. í kjarasamningnum að fjárhæð 352.373 krónur.

Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda 150.000 krómur í málskostnað.

 

Gunnar Sæmundsson.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta