Hoppa yfir valmynd
14. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2002: Úrskurður frá 14. október 2002

Ár 2002, mánudaginn 14. október, var í Félagsdómi í málinu nr.  7/2002.

Kennarasamband Íslands f.h.

Félags grunnskólakennara vegna

Þórunnar Halldóru Matthíasdóttur

gegn

Launanefnd sveitarfélaga f.h.

Seltjarnarneskaupstaðar.

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta var tekið til úrskurðar 17. september sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

 

Stefnandi er Kennarasamband Íslands, kt. 501299-3329, Laufásvegi 81, Reykjavík, fyrir hönd Félags grunnskóla­kennara, kt. 621299-4259, sama stað, vegna Þórunnar Halldóru Matthíasdóttur, kt. 070651-6109, Frostaskjóli 61, Reykjavík.

Stefndi er Launanefnd sveitarfélaga, kt. 550269-4739, Háaleitisbraut 11, Reykjavík, fyrir hönd Seltjarnarneskaupstaðar, kt. 560269-2429, Mýrarhúsaskóla eldri við Nesveg, Seltjarnarnesi.

 

Dómkröfur stefnanda

  1. Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að lögmannsþóknun falli undir útgjöld sem beri að bæta samkvæmt gr. 7.4 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga.
  2. Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.

Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

Hinn 17. september sl. fór fram munnlegur málflutningur um framkomna frávísunarkröfu stefnda og er einungis sú krafa til úrlausnar hér.  Kröfur stefnda í þessum þætti málsis eru þær að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.  Kröfur stefnanda eru þær að kröfur stefnda nái ekki fram að ganga.  Þá er gerð krafa um málsksotnað.

 

Málavextir

Málsatvik eru þau að Þórunn Halldóra Matthíasdóttir starfar sem kennari við Valhúsaskóla, Seltjarnarnesi, en skólinn er rekinn á kostnað og ábyrgð Seltjarnarneskaupstaðar.  Hinn 17. mars 1999 varð hún fyrir slysi er hún féll í stiga skólans með þeim afleiðingum að hún fékk verulegan hnykkáverka á háls, svokallaða ofréttu og klemmu á mænu með tímabundinni dofatilfinningu í höndum.  Hún mun hafa leitað á slysadeild Landsspítala - háskólasjúkrahúss.

Í júnímánuði 2001 leitaði Þórunn Halldóra til lögmanns.  Hann óskaði eftir læknisvottorðum frá þeim læknum sem höfðu annast hana.  Í framhaldi af því var Stefáni Carlssyni bæklunarlækni send beiðni um örorkumat.

Með mati Stefáns Carlssonar bæklunarlæknis frá 18. janúar 2002 var varanlegur miski hennar metinn 15 hundraðshlutar og varanleg örorka 10 hundraðshlutar.

Þórunn er félagsmaður í Félagi grunnskólakennara sem á aðild að Kennarasambandi Íslands.  Um réttindi hennar fer m.a. samkvæmt kjarasamningi þess og Launanefndar sveitarfélaga, en nefndin hefur yfirtekið skyldur fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna.  Samkvæmt 7. kafla kjarasamningsins skulu starfsmenn slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku.  Um skilmála tryggingarinnar skyldu gilda reglur nr. 30/1990 og nr. 31/1990 sem fjármálaráðherra hefur sett.

Seltjarnarneskaupstaður keypti slysatryggingu fyrir starfsmenn Valhúsaskóla hjá Vátryggingafélagi Íslands hf.

Hinn 24. janúar 2002 var félaginu send krafa um uppgjör slysabóta á grundvelli örorkumats Stefáns Carlssonar læknis.  Í kröfubréfinu var tekið fram að samkvæmt kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga skuli bæta starfsmanni er slasast þau útgjöld er hann verður fyrir vegna slyss og ekki eru bætt frá slysatryggingum almannatrygginga.  Á sama grundvelli var þess krafist að félagið greiddi innheimtukostnað, en því er haldið fram af hálfu stefnanda að Þórunn Halldóra hafi þurft að ráða sér lögmann við að afla vottorða, óska eftir örorkumati og á annan hátt að ganga frá uppgjöri við Vátryggingafélag Íslands hf. og afla annarra sönnunargagna fyrir tjóninu.

Hinn 27. febrúar 2002 var gengið frá uppgjöri við félagið sem greiddi útlagðan kostnað vegna læknisvottorða og örorkumats en neitaði að greiða lögmannsþóknun á þeirri forsendu að skilmálar tryggingar þeirrar er Seltjarnarnes­kaupstaður hefði keypt gerðu ekki ráð fyrir slíkri greiðslu.

Lögmaður Þórunnar Halldóru gerði henni því reikning fyrir þá aðstoð sem hann hafði veitt henni og var reikningurinn gerður samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf. og var að fjárhæð 118.598 krónur, þar af virðisaukaskattur 23.338 krónur.  Reikningurinn mun hafa verið greiddur 27. febrúar 2002.

Sama dag beindi lögmaður Þórunnar Halldóru kröfu sinni að Seltjarnarnes­kaupstað.  Var sveitarfélagið krafið um greiðslu á reikningi lögmannsins með vísan til gr. 7.4 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga.

Með bréfi, dags. 19. mars 2002, neitaði Seltjarnarneskaupstaður að greiða þennan kostnað Þórunnar Halldóru á þeirri forsendu að samkvæmt greininni ætti einungis að bæta mönnum læknis­fræðilegan kostnað.  Á þetta getur stefnandi ekki fallist og hefur því höfðað mál þetta.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að Þórunn Halldóra Matthíasdóttir, hafi, er hún slasaðist hinn 17. mars 1999, verið í starfi hjá Seltjarnarneskaupstað. Sveitar­félagið, sem vinnuveitandi, skuli bæta starfsmönnum sínum þau útgjöld er þeir verða fyrir af völdum slyss á vinnustað sem slysatryggingar almannatrygginga bæti ekki, samkvæmt 27. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

Um þetta vísar stefnandi til kafla 7.4 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga er ber yfirskriftina "Slys á vinnustað".  Í honum sé að finna eftirfarandi ákvæði í grein 7.4 :

"Bæta skal starfsmanni þau útgjöld, sem starfsmaður kann að verða fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 27.gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar."

Ákvæðið hafi komið inn í kjarasamninga BSRB árið 1980.  Engar umræður hafi orðið um ákvæðið á sínum tíma, enda hafi það átt rót sína að rekja til dóms um kjör BHM frá árinu 1977.  Þannig hafi félagsmönnum BSRB verið færð sömu réttindi og félagsmenn BHM hafi haft.  Ákvæðið sé óbreytt frá 1980 að öðru leyti en því, að í stað þess að ríkið skyldi áður bæta starfsmönnum slík útgjöld, segi nú að bæta skuli starfsmönnum slík útgjöld. Breytingin muni helgast af yfirtöku sveitarfélaga á rekstri grunnskólans.

Þannig eigi starfsmenn sem slasast á vinnustað rétt á því að þeim séu bætt útgjöld sem af því leiða, hvort sem um sé að ræða sjúkrakostnað, kostnað við öflun læknisvottorða eða annan þann kostnað sem nauðsynlegur sé til þess að hægt sé að setja fram raunhæfa kröfu um bætur.  Ákvæðið sé skýrt og samkvæmt orðanna hljóðan eigi starfsmaður í raun að vera laus við öll útgjöld sem ekki séu bætt samkvæmt 27. gr. laga nr. 117/1993.

Samkvæmt 27. gr. laga nr. 117/1993 sé sá kostnaður sem bættur er m.a. sjúkrahúskostnaður, læknishjálp, lyf og umbúðir, sjúkraflutningur og ferðakostnaður. Útgjöld vegna lögmannsþóknunar fáist ekki bætt samkvæmt 27. gr. 1aga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

Á því er einnig byggt að það sé viðurkennt af íslenskum tryggingafélögum að tjónþolar geti þurft að leita sér aðstoðar við að afla gagna eins og læknisvottorða og örorkumats, sem síðar séu grundvöllur uppgjörs á bótakröfu viðkomandi.  Ráð sé fyrir því gert í 2. mgr. 12. gr. reglna nr. 30/1991, um bætur til starfsmanna er slasast í starfi, að fram fari öflun sönnunargagna áður en bótauppgjör fari fram.  Tryggingafélög miði bætur til tjónþola meðal annars út frá því að þeir þurfi að greiða lögmönnum kostnað samkvæmt þeirra gjaldskrá.  Þannig sé það einnig viðurkennt af íslenskum dómstólum að lögmenn eigi rétt á sanngjarnri þóknun fyrir slík störf í þágu tjónþola.  Þannig teljist lögmannsþóknun, líkt og kostnaður við læknisvottorð og örorkumat, eðlilegur kostnaður.

Með því að viðurkenna ekki slíkan rétt starfsmanna sé í raun verið að skerða bætur þeirra sem nemi þeim kostnaði sem þeir verði að greiða sínum lögmanni.  Slíkt sé andstætt þeirri meginreglu að tjónþoli eigi ætíð að fá tjón sitt bætt að fullu.  Slíkt sé einnig andstætt kaflanum um bætur fyrir varanlega örorku, því þannig fái tjónþolinn ekki þær kjarasamningsbundnu bætur sem samningurinn mæli fyrir um, heldur bætur sem skerðist sem nemi slíkum kostnaði. Ákvæðið byggist þannig á skaðleysis­sjónarmiðum og það beri að túlka út frá þeim.

Þannig byggi stefnandi á því að túlka beri ákvæði greinar 7.4. eftir orðanna hljóðan og samkvæmt framangreindum sjónarmiðum.  Engin umræða hafi orðið um skilning á ákvæðinu árið 1980 er það kom fyrst inn í kjarasamning BSRB.  Þannig verði fyrst og fremst að líta til orðalags ákvæðisins.  Ákvæðið sé í kafla er beri heitið "Slys á vinnustað" og eigi því að bæta kostnað til starfsmanna er þeir verði fyrir vegna slíkra slysa.

Stefnandi kveðst höfða mál þetta með vísan til 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Varðandi aðild bendir stefnandi á að Þórunn Halldóra Matthíasdóttir sé félagsmaður í Félagi grunnskólakennara sem eigi aðild að Kennarasambandi Íslands.

Samkvæmt samþykktum Launanefndar sveitarfélaga fari hún með samningsumboð þeirra sveitarfélaga sem veiti henni umboð.  Seltjarnarneskaupstaður hafi veitt nefndinni slíkt umboð.  Samkvæmt samþykktum nefndarinnar samþykki nefndin endanlega gerð kjarasamninga og séu þeir ekki háðir samþykki viðkomandi sveitarfélags.

Launanefnd sveitarfélaga hafi átt aðild að þeim kjarasamningi sem í gildi hafi verið við Kennarasamband Íslands hinn 17. mars 1999, er slysið átti sér stað, og eigi auk þess í dag aðild að gildandi kjarasamningi Kennarasambands Íslands.  Með vísan til l. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna séu það samningsaðilar sem geti lagt mál fyrir Félagsdóm.  Einnig er vísað til 4. og 5. mgr. 3. gr. sömu laga.

 

Málsástæður stefnda  vegna frávísunarkröfu

Af hálfu stefnda í máli þessu er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi.  Byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að fyrirsvar aðildar máls þessa sé ranglega tilgreint.  Þannig hafi Seltjarnarneskaupstaður einungis falið Launanefnd sveitarfélaga að vera í fyrirsvari við gerð kjarasamninga gagnvart Kennarasambandi Íslands. Seltjarnarneskaupstaður beri hins vegar sjálfstæða ábyrgð á efndum kjarasamnings og sé að fullu og öllu leyti sjálfstæður samningsaðili. Launanefnd sveitarfélaga sé samstarfsvettvangur sveitarfélaga við gerð kjarasamninga en nefndin sem slík beri ekki kjarasamningslegar skyldur gagnvart viðsemjendum, þ.e. framkvæmd og túlkun kjarasamninga sé alfarið á ábyrgð einstakra sveitarfélaga og hafi þau ekki framselt slíkt vald til Launanefndar sveitarfélaga.  Um málarekstur þennan gildi ákvæði laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Af ákvæðum nefndra laga verði ekki ráðið annað en að sérhver vinnuveitandi fari sjálfur með fyrirsvar í málefnum sínum og beri því að haga aðild máls þessa á annan hátt en greinir í stefnu.  Með vísan til framanritaðs sé fyrirsvar í máli þessu ranglega tilgreint og sé þess krafist að dómsmáli þessu verði vísað frá dómi.

Til viðbótar framangreindu byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að þetta úrlausnarefni falli utan dómssviðs Félagsdóms, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Í því sambandi bendir stefndi á að dómkrafa stefnanda varði hagsmuni fjárhagslegs eðlis svo og túlkun ákvæða almanna- tryggingalaga.  Samkvæmt íslenskum rétti gildi sú meginregla að aðili dómsmáls eigi rétt á að fá úr ágreiningsefni skorið fyrir tveimur dómstigum, þ.e. héraðsdómi og Hæstarétti.  Undantekningar frá þessari grundvallarreglu beri að skýra þrengjandi lögskýringu.  Af hálfu stefnda er á því byggt að túlka beri dómssvið Félagsdóms svo að dómurinn fjalli almennt ekki um kröfur fjárhagslegs eðlis og/eða kröfur sem almennir dómstólar eigi beinlínis úrlausnarefni um.  Í því sambandi beri m.a. að líta til þess að úrlausn Félagsdóms um dómkröfu, eins og hún sé lögð fram, verði á engan hátt endanleg og/eða aðfararhæf sem slík enda kunni enn fremur að vera ágreiningur um fjárhæð hennar.  Af hálfu stefnda sé á því byggt að bæði almennt og við slíkar kringumstæður, þ.e. þegar úrlausn Félagsdóms muni eftir atvikum ekki leiða til endanlegrar niðurstöðu máls, beri að leggja dómsmál fyrir almenna dómstóla til úrlausnar enda varði ágreiningsefni annars vegar tilvik sem almennir dómstólar hafi ekki síður en Félagsdómur haldgóða þekkingu á og hins vegar varði ágreiningsefni ekki tilvik þar sem reyni á sérþekkingu og sérhæfingu Félagsdóms sem sérdómstóls.  Í því sambandi beri enn fremur að líta til meginreglna réttarfars um að reka skuli og leysa úr málum í einu lagi, sé þess nokkur kostur.  Almennir dómstólar geti samkvæmt því leitt ágreiningsmál til lykta en óvíst sé um fullnustu kröfu fari svo að Félagsdómur fjalli um hana.  Fari svo að krafa stefnanda verði tekin til greina fyrir Félagsdómi kunni svo að fara að stefnandi þurfi engu að síður að leita atbeina almennra dómstóla varðandi fullnustu niðurstöðu þess dóms.  Beri almennum dómstólum samkvæmt því að fjalla um ágreiningsefni í heild sinni, þ.m.t. efni og skilning forsendna dómkröfu. Önnur tilhögun brjóti enn fremur gegn fyrrnefndri grundvallarreglu íslensks réttar um heimildir aðila til að leita úrlausnar ágreiningsmála fyrir tveimur dómstigum og sé auk þess sýnilega þarflaus. Í því sambandi beri enn fremur að hafa í huga að í máli þessu liggi fyrir reikningur lögmanns varðandi fjárhæð kröfu, sem stefnandi hafi væntanlega þegar greitt, og verði því ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm með þeim hætti sem um ræði í stefnu.  Samkvæmt framangreindu beri að vísa kröfu þessari frá dómi.

Að öðru leyti byggir stefndi á að málshöfðun brjóti gegn ákvæðum einkamálalaga og vísar stefndi til ákvæða IV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 27. gr. þeirra.  Beri með vísan til framangreindra ákvæða enn fremur að vísa máli frá dómi.

Þá beri enn fremur að líta til þess að eins og dómkrafa stefnanda sé grundvölluð megi álykta að krafa hans sé fremur byggð á skaðleysissjónarmiðum skaðabótaréttar og úrlausnarefni varði því öðrum þræði túlkun meginreglna skaðabótaréttar, ákvæða skaðabótalaga og almannatryggingalaga, þó með hliðsjón af ákvæði kjarasamnings. Málsgrundvöllur stefnanda byggist því í reynd fremur á túlkunum ákvæða 1aga, til fyllingar ákvæðum kjarasamnings og falli því utan dómssviðs Félagsdóms.  Beri því að vísa máli frá dómi.

 

Röksemdir stefnanda gegn frávísunarkröfu

Af hálfu stefnanda er á það bent að aðildarskortur leiði til sýknu en ekki frávísunar.  Því sé ekki komið að því að fjalla um þá málsástæðu stefnda.  

Eins og fram komi í 4. gr. í samþykktum fyrir Launanefnd sveitarfélaga geti aðilar falið launanefnd að annast fyrir sína hönd undirbúning og gerð kjarasamninga.  Launanefnd sveitarfélaga sé aðili að kjarasamningi við Kennarasamband Íslands fyrir grunnskóla.  Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 leysi Félagsdómur úr ágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.  Ágreiningur sé í máli þessu um túlkun á ákvæði 7.4 í kjarasamningi aðila málsins.    

Stefnandi andmælir því að Félagsdómur fjalli ekki um fjárkröfur og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 25. mars 1999 í máli nr. 129/1999.

Samkvæmt framansögðu beri því að hafna frávísunarkröfu stefnda.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. samþykkta fyrir Launanefnd sveitarfélaga starfar nefndin á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Samkvæmt 4. gr. samþykktanna geta aðilar falið launanefnd að annast fyrir sína hönd undirbúning og gerð kjarasamninga. Óumdeilt er að Seltjarnarneskaupstaður hafi veitt launanefndinni slíkt umboð. Launanefnd sveitarfélaga er aðili að kjarasamningi við Kennarasamband Íslands fyrir grunnskóla.  Samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/1986 dæmir Félagsdómur í málum sem rísa á milli samningsaðila um  þau atriði sem þar eru nánar tilgreind í töluliðum 1-5.  Frávísun máls verður ekki byggð á því að fyrirsvar málsins varnarmegin sé ranglega tilgreint.

Stefnandi byggir á því að málið heyri undir Félagsdóm á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 vegna ágreinings um skilning á gr. 7.4 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga.  Er krafist viðurkenningar á því að lögmannsþóknun vegna innheimtu á greiðslu úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu falli undir útgjöld, sem bæta beri samkvæmt téðri grein kjarasamningsins.  Er hér um að ræða fjárkröfu nafngreinds einstaklings samkvæmt reikningi, sem hann hefur þegar greitt lögmanni sínum, en telur að stefnda beri að endurgreiða sér.  Telja verður að úrlausn um þá kröfu eigi undir almenna dómstóla en ekki Félagsdóm, en Félagsdómur er sérdómstóll og ber að túlka ákvæði laga um valdsvið hans þröngt.  Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, ber að vísa máli þessu frá Félagsdómi.

Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda 60.000 krónur í málskostnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Kennarasamband Íslands f.,h. Félags grunnskóla­kennara vegna

Þórunnar Halldóru Matthíasdóttur, greiði stefnda, Launanefnd sveitarfélaga f.h. Seltjarnarneskaupstaðar,  60.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gísli Gíslason

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta