Mál nr. 10/2002: Úrskurður frá 13. nóvember 2002
Ár 2002, miðvikudaginn 13. nóvember, var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2002.
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vegna
Félags íslenskra skipstjórnarmanna vegna
stýrimanna í þjónustu Landhelgisgæslu Íslands
gegn
Landhelgisgæslu Íslands.
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. október sl.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Kristján Torfason.
Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, kt. 520169-3509, Borgartúni 18, Reykjavík, vegna Félags íslenskra skipstjórnarmanna, s.st., kt. 580800-3510, vegna stýrimanna í þjónustu Landhelgisgæslu Íslands.
Stefndi er Landhelgisgæsla Íslands, kt. 710169-5869, Seljavegi 32, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Að stefnda, Landhelgisgæsla Íslands, verði dæmd til að ljúka gerð kjarasamnings frá 17. mars 2001 með því að undirrita stofnanaþátt hans í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu Landhelgisgæslu Íslands og skipstjórnarmanna í störfum hjá stofnuninni frá 16. mars 2001.
Krafist er málskostnaðar og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun hans.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.
Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Vegna aðal- og varakröfu er gerð krafa um að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Hinn 28. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um framkomna frávísunarkröfu stefnda og er einungis sú krafa til úrlausnar hér. Kröfur stefnda í þessum þætti málsins eru þær að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Kröfur stefnanda eru þær að frávísunarkröfu verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins.
Málavextir, málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hinn 17. mars 2001 hafi verið undirritaður kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands f.h. Félags íslenskra skipstjórnarmanna og Félags matreiðslumanna vegna starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands. Með kjarasamningi þessum hafi verið gerðar breytingar á samningi sömu aðila frá 27. október 1997, en þar var að finna kafla sem nefndist Stofnanaþáttur kjarasamnings. Sé það 14. kafli samningsins.
Sams konar kafli, þ.e. stofnanaþáttur, skyldi vera í hinum nýja kjarasamningi en ekki hafi verið gengið frá þessum þætti samningsins við undirritun kjarasamnings, heldur skyldi fjalla nánar um hann í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu stefnda og skipstjórnarmanna í störfum hjá stofnuninni frá 16. mars 2001. Í þessari yfirlýsingu var tiltekið hvaða breytingar skyldu gerðar á þar tilteknum greinum stofnanaþáttarins auk þess sem nokkur ný atriði skyldu koma inn í þáttinn.
Alls hafi þessi yfirlýsing verið í 8 töluliðum og hafi 5 fyrstu atriðin verið breyting á stofnanaþættinum frá fyrri samningi en 3 atriði nýjungar. Stefndi hafi ekki fengist til að ganga frá þessum atriðum og undirrita stofnanaþátt kjarasamnings í þá veru sem yfirlýsingin segir til um og sé kröfugerðin í samræmi við það. Í raun standi styrinn einungis um þrjú af þessum atriðum, þ.e. töluliði 2, 7 og 8, en þeir snerti stýrimenn hjá stefnda. Í 2. tölulið sé kveðið á um að "refsiákvæði v/frídaga ráðstöfun ef yfirvinnuskyldu ekki náð fellur út." Í 7. tölulið séu ákvæði þess efnis að "á hverri 7 daga bakvaktarviku stýrimanns, sem gegnir starfi á þyrlu, er dagvinnuskylda 30 stundir" og í 8. tölulið segi að "fyrir hverja 7 daga bakvakt á þyrlu ávinnst einn frídagur sem takist út í samráði við yfirmann." Stefnendur þessa máls hafi lagt hart að stefnda að ganga frá stofnanaþættinum á þennan veg, sem klárlega sé skylt samkvæmt yfirlýsingunni, og hafi verið haldnir 8 fundir um málið frá 7. september 2001 til 5. júní 2002 en þar jafnan strandað á því að stefndi vilji ekki fallast á að fella skuli niður úr stofnanasamningi setninguna "uppgjörstímabil skulu vera á 6 mánaða fresti m.v. almanaksárið" og setningarbrotið "en vinnuskylda skal jafnast út á 6 mánaða tímabili m.v. almanaksárið," en framangreind setning og setningarbrot sé nánari skýring á uppgjöri vinnuskyldu gagnvart ráðstöfun frídaga þegar vinnuskyldu sé ekki náð. Telur stefnandi að þar sem samþykkt hafi verið með yfirlýsingunni frá 16. mars 2001, að fella út "refsiákvæði v/frídaga ráðstöfunar ef vinnuskyldu ekki náð", sé ekki lengur um að ræða neina jöfnun á vinnuskyldu á 6 mánaða fresti, enda telur stefnandi skýrt, að stýrimenn skuli uppfylla þá skyldu að skila 80 tíma yfirvinnu á mánuði (nema í orlofi og fríum) komi fram ósk um það frá yfirmönnum en einskis í missa af launum þótt yfirvinnan sé ekki unnin eða í boði. Einnig sé skýrt kveðið á um í stofnanasamningnum hvernig skuli fara með þá yfirvinnu sem unnin sé umfram 80 tíma í mánuði, en samkvæmt samningnum skuli hún gerð upp á 3 mánaða fresti og tengist því á engan hátt fyrra ákvæði um frídagaráðstöfun til jöfnunar vinnuskyldu sem samþykkt hafi verið að fella út.
Stefndi hafi einnig viljað ganga fram hjá yfirlýsingunni og færa 7. tölulið hennar inn í sérstaka yfirlýsingu og að 8. töluliður verði hluti af sigmannssamningi þótt ekki sé á það minnst í yfirlýsingunni.
Stefnandi telur að með þessari afstöðu sinni sé stefndi að ganga á svig við það sem fram komi í yfirlýsingunni frá 16. mars 2001 og krefjist þess að stefndi verði dæmdur til að ganga frá stofnanaþætti kjarasamnings í samræmi við undirritaða yfirlýsingu aðilanna, sem hljóti að vera þáttur í kjarasamningi þeirra í milli. Tekið er fram að ágreiningur sé einungis um þann hluta stofnunarþáttar sem snúi að stýrimönnum og hafi stefnandi tekið að sér, að kröfu þeirra, að annast málssókn þessa, en viðkomandi séu allir félagsmenn Félags íslenskra skipstjórnarmanna, sem er aðildarfélag stefnanda Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þar sem hér sé um stofnanaþátt kjarasamnings að ræða, sé Landhelgisgæslu Íslands stefnt sem stofnun en ekki ríkissjóði.
Stefnandi telur ótvírætt að mál þetta heyri undir Félagsdóm, sbr. 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 m.s.b., en vísar að öðru leyti til almennra samningsréttarsjónarmiða og sjónarmiða vinnuréttar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988 en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt skaðleysissjónarmiðum, enda njóti stefnandi ekki frádráttar vegna kostnaðar við skattinn.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi byggir á því að dómkrafa stefnanda sé algerlega ódómtæk eins og hún sé úr garði gerð í stefnu. Með henni sé stefnandi að fara þess á leit við dóminn að hann geri kjarasamning. Málið sé að mati stefnda vanreifað og kröfugerð óskýr. Ekki sé gerð grein fyrir grundvallaratriðum varðandi dómkröfuna. Stefndi heldur því fram að dómkrafan falli utan valdsviðs Félagsdóms eins og hún sé fram sett í stefnu, en lögsögu Félagsdóms beri að túlka þröngt. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að leggja málið fyrir dóminn með eðlilegum hætti, t.d. sem viðurkenningarkröfu um tiltekið ágreiningsefni. Þá er á því byggt að dómkrafan sé svo knöpp að hún geti ekki talist endurspegla sakarefnið. Innihald kröfunnar verði því óljóst og fullnægi ekki því meginsjónarmiði réttarfars að dómkrafa endurspegli þann ágreining sem uppi sé og telur stefndi að nái krafan fram að ganga myndi hún tæplega leiða réttarágreininginn til lykta. Á því er byggt að stefna fullnægi ekki skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991, sérstaklega d- og e- liðum greinarinnar. Þá er einnig vísað til 2. mgr. 25. gr. sömu laga og til meginreglna réttarfars. Tilvísun í lög nr. 91/1991 sé gerð með hliðsjón af ákvæði 69. gr. laga nr. 80/1938.
Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína einnig á því að málið heyri ekki undir Félagsdóm, sbr. 2. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Orðið "vinnusamningur" merkir kjarasamningur. Á því er byggt að framlögð yfirlýsing frá 16. mars 2001 teljist ekki kjarasamningur í skilningi laga nr. 80/1938. Þá er á því byggt að yfirlýsingin standist ekki þær formkröfur sem gerðar séu til kjarasamninga, sbr. 6. gr. laga nr. 80/1938. Þá sé óljóst hvort yfirlýsingin hafi verið borin undir alla þá sem henni sé ætlað að taka til í leynilegri atkvæðagreiðslu, sbr. 7. gr. í kjarasamningi aðila frá 27. október 1997, en um það hafi stefnandi sönnunarbyrði.
Þá er á því byggt að stefnandi hefði þurft að stefna fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs vegna Landhelgisgæslu Íslands þar sem umboð stofnunarinnar að því er varðar stofnanaþátt kjarasamnings sé frá ráðherra komið.
Rök stefnanda gegn frávísunarkröfu
Stefnandi telur að ekki hafi þurft að stefna fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs vegna Landhelgisgæslu Íslands í máli þessu þar sem um sé að ræða nýja skipan, stofnanaþátt, og það sé stofnunin sjálf sem ákveði hvað þar falli undir. Kröfugerð og málsástæður séu skýrar og málið eigi undir Félagsdóm.
Niðurstaða
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda Landhelgisgæsla Íslands verði dæmd til að ljúka gerð kjarasamnings frá 17. mars 2001 með því að undirrita stofnanaþátt hans í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu stofnunarinnar og skipstjórnarmanna í störfum hjá henni frá 16. sama mánaðar. Krafan felur í sér að Landhelgisgæslan verði skylduð til samningsgerðar. Af hálfu stefndu er krafist frávísunar málsins frá Félagsdómi, m.a. vegna þess að dómkrafan falli utan valdsviðs Félagsdóms. Fallast verður á það með stefndu að slík krafa falli utan verkefna Félagsdóms eins og þeim er lýst í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Ber því að vísa málinu frá dómi.
Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda 80.000 krónur í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnandi, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vegna Félags íslenskra skipstjórnarmanna vegna stýrimanna í þjónustu Landhelgisgæslu Íslands, greiði stefnda, Landhelgisgæslu Íslands, 80.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gunnar Sæmundsson
Kristján Torfason