851/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Úrskurður
Hinn 4. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 851/2019 í máli ÚNU 19040002.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 2. apríl 2019, kærðu Hvalaskoðunarsamtök Íslands afgreiðslutöf Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands vegna beiðni um upplýsingar varðandi skýrslu stofnunarinnar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, frá 16. janúar 2019.Með bréfi til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. 22. janúar 2019, óskaði kærandi eftir svörum við tíu tölusettum spurningum varðandi hvalveiðiskýrsluna. Kæranda bárust svör við spurningunum þann 25. janúar 2019. Kærandi gerði athugasemdir við svör Hagfræðistofnunar og sendi stofnuninni, þann 28. janúar, frekari spurningar. Í kæru kemur fram að þeim spurningum hafi Hagfræðistofnun ekki svarað en í kæru óskar kærandi sérstaklega eftir því að stofnunin birti viðmælendalista skýrsluhöfundar.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands með bréfi, dags. 2. apríl 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn Hagfræðistofnunar, dags. 11. apríl 2019, segir í fyrsta lagi að Hagfræðistofnun sé þjónustustofnun en ekki stjórnvald og falli þannig ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Í öðru lagi segir að spurningum kæranda hafi þegar verið svarað. Kærandi hafi ekki fengið þau svör sem hann vildi og hafi því sent „spurningar við svörum“, sem hafi sumar fremur verið fullyrðingar en spurningar. Í þriðja lagi, varðandi viðmælendalista skýrsluhöfundar, vísar Hagfræðistofnun á nánari umfjöllun um aðferðir við gerð skýrslunnar í greinargerð sem ber heitið „Viðbrögð við athugasemdum við skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða“ sem er aðgengileg á vefsíðu stofnunarinnar. Þar komi fram að rætt hafi verið við starfsmenn sjö hvalaskoðunarfyrirtækja, þar af sex í síma.
Í umsögn Hagfræðistofnunar er einnig að finna tilvitnaðar upplýsingar frá skýrsluhöfundi þar sem teknar eru saman upplýsingar um þau sex hvalaskoðunarfyrirtæki sem höfundur ræddi við í síma, auk upplýsinga um tímalengd og efni símtalanna. Þá er greint frá öðrum samskiptum skýrsluhöfundar við starfsmenn tveggja tiltekinna hvalaskoðunarfyrirtækja og samskiptum hans við aðra aðila, við gerð skýrslunnar. Greint er frá fundi hans við nafngreindan framkvæmdastjóra fyrirtækis í sjávarútvegi, þá segir að hann hafi „átt samtal við trillusjómann, reyndan leiðsögumann, auðlindahagfræðing, starfsmann seðlabankans [svo] o.fl.“
Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. apríl 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. apríl 2019, er farið fram á að spurningum kæranda varðandi forsendur skýrslunnar sé svarað. Kærandi ítrekar kröfu sína um að fá afhentan lista yfir alla þá sem við var rætt við gerð skýrslunnar. Þessu til viðbótar fer kærandi fram á að fá upplýsingar um hvert umræðuefnið var í hverju viðtali. Þá ítrekar kærandi spurningu sína um það hvort við gerð skýrslunnar hafi fyrst og fremst ráðið sjónarmið eigenda hvalveiðifyrirtækja.
Í athugasemdunum segir kærandi engum blöðum um það að fletta að starfsemi Hagfræðistofnunar falli undir upplýsingalög. Stofnunin hafi reynt að komast undan því að svara einföldum spurningum um skýrslugerðina, nú með því að senda frá sér einhverskonar tímayfirlit yfir símtöl sem eigi að hafa átt sér stað við sex hvalaskoðunarfyrirtæki. Í ljósi þessa tímayfirlits óski kærandi eftir yfirliti frá skýrsluhöfundi um lengd símtala sem og yfirliti yfir fundi hans með nafngreindum forstjóra hvalveiðifyrirtækis sem og umræðuefni símtala þeirra og funda.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um afgreiðslutöf Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands vegna erindis kæranda, dags. 28. janúar 2019, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum varðandi gerð skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.Í umsögn Hagfræðistofnunar, dags. 11. apríl 2019, er lýst þeirri afstöðu að stofnunin sé ekki stjórnvald og upplýsingalög nái því ekki til stofnunarinnar. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka skv. 2. gr. til allrar starfsemi stjórnvalda og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera með nánar tilgreindum takmörkunum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er starfrækt af Háskóla Ísland, sbr. reglur um Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nr. 551/2010. Úrskurðarnefndin hefur í fjölmörgum úrskurðum fjallað um afgreiðslur Háskóla Íslands á upplýsingabeiðnum almennings, þ.á m. stofnana sem starfrækar eru af Háskóla Íslands t.d. úrskurð nr. A-394/2011 vegna Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands og Eddu-öndvegisseturs. Háskóli Íslands er opinber stofnun, sbr. lög um opinbera háskóla nr. 85/2008, og fellur starfsemi Hagfræðistofnunar með vísan til framangreinds undir gildissvið upplýsingalaga. Hagfræðistofnun er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
Í erindi kæranda til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. 28. janúar 2019, setur kærandi fram ýmsar spurningar til Hagfræðistofnunar, út frá fyrri svörum stofnunarinnar. Fallist er á það með stofnuninni að margar þeirra séu fyrirspurnir eða beiðnir um afstöðu stofnunarinnar í tilteknum málum en ekki beiðnir um aðgang að gögnum í skilningi 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi tekur úrskurðarnefndin fram að skv. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Það fellur því utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að krefja stjórnvöld um efnisleg svör við spurningum.
Í erindi kæranda er þó einnig að finna fyrirspurnir sem bera það með sér að vera beiðnir um aðgang að gögnum. Á það við um beiðni um upplýsingar um við hvaða opinberu og óopinberu gögn hafi verið stuðst, varðandi mat á kostnaði við hvalveiðar, en stofnunin hafði áður svarað kæranda því að mest hefði verið stuðst við „opinber gögn“ við matið. Einnig á það við um spurningu um það frá hvaða hvalaskoðunarfyrirtæki upplýsingar hafi komið þess efnis að slæmt veður sumarið 2018 hefði haft áhrif á hvalaskoðun, en stofnunin hafði áður svarað kæranda því að þær upplýsingar hefðu verið fengnar frá hvalaskoðunarfyrirtæki. Þá tekur kærandi það skýrt fram að hann óski eftir aðgangi að viðmælendalista skýrsluhöfundar Hagfræðistofnunar. Að öðru leyti verður ekki séð að kærandi óski, með erindi sínu til Hagfræðistofnunar, eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum og verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum beri þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta gagns, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að meta ólíka hagsmuni sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.
Þegar svo háttar til að beiðni nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 738/2018, 804/2019, 809/2019 og 833/2019.
Í umsögn Hagfræðistofnunar, dags. 11. apríl 2019, er yfirlit yfir nöfn þeirra fyrirtækja þar sem viðmælendur skýrsluhöfundar störfuðu. Yfirlitið ber með sér að vera ekki tæmandi en í því segir: „Símayfirlit mitt sýnir að ég hafði a.m.k. samband við…“. Þá endar upptalning í lok umsagnarinnar á því að vísa til þess að fleiri samtöl hafi í raun átt sér stað, sbr. ummæli um að skýrsluhöfundur hafi „átt samtal við trillusjómann, reyndan leiðsögumann, auðlindahagfræðing, starfsmann seðlabankans o.fl.“
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Hagfræðistofnun hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að veita kæranda aðgang að gögnum með upplýsingum um alla viðmælendur skýrsluhöfundar en stofnunin hefur ekki borið því við að ekki liggi fyrir gögn með upplýsingum um viðmælendur vegna skýrslugerðarinnar. Sama á við um beiðni kæranda um aðgang að opinberum og óopinberum gögnum sem byggt hafi verið á við gerð kostnaðarmats og hvaða hvalaskoðunarfyrirtæki hafi veitt skýrsluhöfundi tilteknar upplýsingar.
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Hagfræðistofnun að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
Það athugast að í athugasemdum kæranda, dags. 29. apríl 2019, við umsögn Hagfræðistofnunar vegna kærunnar, dags. 11. apríl 2019, fer kærandi fram á að fá upplýsingar um hvert umræðuefnið var í hverju viðtali. Þá óskar kærandi eftir yfirliti frá skýrsluhöfundi um lengd símtala sem og yfirliti yfir fundi hans með nafngreindum forstjóra hvalveiðifyrirtækis sem og umræðuefni símtala þeirra og funda. Er hér um að ræða nýjar gagnabeiðnir sem kærandi þarf að beina að stofnuninni. Afgreiðsla hennar á beiðnunum er svo eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Úrskurðarorð:
Beiðni Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, dags. 28. janúar 2019, að því er varðar lista yfir alla viðmælendur skýrsluhöfundar (sbr. spurningu nr. 1), upplýsingar um opinber og óopinber gögn sem mat á kostnaði við hvalveiðar byggist á (sbr. spurningu nr. 2) og upplýsingar um hvaða hvalaskoðunarfyrirtæki hafi veitt upplýsingar um áhrif veðurs á sókn í hvalaskoðun (sbr. spurningu nr. 10), við gerð skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, er vísað til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.Kæru er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Elín Ósk Helgadóttir
Sigríður Árnadóttir