Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Endurskoðun reglugerða um lyfjaskömmtun og meðferð lyfja á heilbrigðisstofnunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett af stað vinnu við að endurskoða reglugerð um lyfjaskömmtun og reglugerð um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Starfshópur sem skipaður var til verksins hélt fyrsta vinnufund sinn í gær.

Báðar eru þessar reglugerðir komnar til ára sinna og talin þörf á að endurskoða þær með hliðsjón af breyttum aðstæðum og kröfum sem eðlilegt þykir að gera í dag varðandi þá umsýslu með lyfjum sem reglugerðirnar taka til.

Reglugerðin um skömmtun lyfja tekur til handskömmtunar lyfja í skammtaöskjur í lyfjabúðum eða sjúkrahúsapótekum og til vélskömmtunar þar sem notuð er vél til að útbúa lyfjaskammta í viðurkenndar umbúðir. Efni reglugerðarinnar lýtur einkum að öryggi við framkvæmd lyfjaskömmtunarinnar og afgreiðslu lyfjanna, s.s. að rétt lyf séu afgreidd til sjúklings, að notkunarfyrirmæli læknis komist til skila, að rekjanleiki sé tryggður o.fl.

Reglugerðin um val, geymslu og meðferð lyfja fjallar fyrst og fremst um öryggi og gæði allrar umsýslu með lyf á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum.

Formaður starfshópsins um endurskoðun reglugerðanna er Einar Magnússon lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru:

  • Kristín Lára Helgadóttir, án tilnefningar
  • Þórbergur Egilsson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu
  • Gríma Huld Blængsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Fjóla Pétursdóttir, tilnefnd af Lyfjastofnun
  • María Fjóla Harðardóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
  • Magnús Már Steinþórsson, tilnefndur af Lyfjaveri
  • Jón Pétur Einarsson, tilnefndur af Embætti landlæknis
  • Helga Eyjólfsdóttir, tilnefnd af Landspítala
  • Kristín Hrönn Þorbjörnsdóttir, tilnefnd af Landspítala

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta