Skarphéðinn Berg Steinarsson skipaður ferðamálastjóri
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, hefur skipað Skarphéðinn Berg Steinarsson í embætti ferðamálastjóra til fimm ára frá 1. janúar n.k.
Skarphéðinn Berg útskrifaðist með Cand. oecon. próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og lauk MBA námi frá University of Minnesota árið 1990.
Hann hefur víðtæka stjórnunar- og rekstrarreynslu bæði úr atvinnulífinu og úr stjórnsýslunni, m.a. sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu. Í fyrri störfum sínum hefur hann m.a. komið að fjármálastjórnun, áætlanagerð og fjárlagagerð ásamt því að hafa góða reynslu af stjórnun breytinga.
Skarphéðinn hefur jafnframt góða þekkingu á ferðaþjónustu meðal annars í gegnum störf sín sem forstjóri Iceland Express, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands og framkvæmdastjóri Íshesta.