Ráðherra og Jafnréttisráð boða til jafnréttisþings 7. - 8. mars
Jafnréttisþing félags- og jafnréttismálaráðherra og Jafnréttisráðs verður haldið miðvikudaginn og fimmtudaginn 7. – 8. mars 2018 undir yfirskriftinni Útvíkkun jafnréttisstarfs - #metoo og margbreytileiki
Hlutverk Jafnréttisþings er að efna til umræðna um jafnréttismál milli stjórnvalda og almennings og gefa áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnumótun málaflokksins.
Félags- og jafnréttismálaráðherra mun opna þingið með framlagningu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2015–2017 og forsætisráðherra slíta þinginu með ávarpi en auk þeirra munu fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra einnig ávarpa þingið.
Þingið er að þessu sinni haldið í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.
Þema þingsins er um jafna meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi með hliðsjón af margbreytileika í íslensku samfélagi og boðaðri löggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Markmið og tilgangur löggjafar um jafna meðferð er að vinna gegn mismunun og stuðla að og viðhalda jöfnum tækifærum einstaklinga óháð ofangreindum þáttum þar sem kyn er þverlægur þáttur.
Aðalfyrirlesari verður Dr. Faisal Bhabha, dósent í lögum við Osgoode Hall Law School í Tóróntó, Kanada. Hann mun í erindi sínu fjalla um hvernig byggja megi samfélag án mismununar út frá kanadísku sjónarhorni (e. Building a society free from discrimination: the Canadian perspective).
Á jafnréttisþingi verður jafnframt fjallað um stöðu kvenna og karla á opinberum vettvangi og vinnumarkaði, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun, kynbundna hatursorðræðu og hótanir sem og áhrif #metoo-byltingarinnar á möguleika kvenna til jafnra valda og áhrifa í íslensku samfélagi. Kynntar verða niðurstöður nýrra rannsókna, annars vegar um hlut kvenna og karla í íslenskum fjölmiðlum og hins vegar um launamun karla og kvenna.
Umræðan á þinginu fer fram í eftirfarandi málstofum:
- Equal Treatment in Law and Practice
- Mismununarhugtakið í íslenskri löggjöf og stjórnsýslu
- #metoo – áhrif á stöðu og þróun jafnréttismála
- Konur, karlar, fjölmiðlar og lýðræði
- Jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði
- Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs
- Kynjuð fjárlagagerð og samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun - hvert erum við komin?
Þingið verður haldið á Hilton Reykjavik Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík
Skráning og afhending ráðstefnugagna fer fram miðvikudaginn 7. mars milli kl. 08:45–09:15
- Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu er að finna á vefslóðinni: stjornarradid.is/jafnrettisthing2018
- Skráning þátttöku
- Dagskrá (PDF)