Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 620/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 620/2020

Þriðjudaginn 16. febrúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir dóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2020 á umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 20. ágúst 2020 sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. ágúst 2020, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 8. september 2020. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun með bréfi, dags. 2. desember 2020, þar sem ákveðið var að meta örorku kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 3. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. desember 2020, barst beiðni Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun málsins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2020, þar sem óskað var eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi þann 25. janúar 2020 þar sem hún gerði athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fallist verði á umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Í kæru er fjallað um sjúkdómsferil kæranda frá árinu 2016 og framgang endurhæfingar. Greint er frá því að í gegnum ferlið hafi kærandi ekki fengið leiðbeiningar frá Tryggingastofnun og að stofnunin hafi ekki fylgt stjórnsýslulögum um málsmeðferð.

Í athugasemdum kæranda, dags. 25. janúar 2021, segir að þó svo að örorkumat hafi verið samþykkt sé margt athugavert við meðferð málsins hjá Tryggingastofnun. Frumkvæði þaðan að leiðbeiningum og gagnlegri upplýsingagjöf hafi til dæmis ekki verið neitt. Sem dæmi hafi kærandi sótt um greiðslur tvö ár aftur í tímann, en hafi einungis fengið samþykkt frá 1. september 2020. Kærandi hafi vissulega verið með endurhæfingarlífeyri frá mars 2019 til og með ágúst 2020, en hvorki hafi útskýringar verið gefnar á því hvers vegna fyrrnefnd dagsetning hafi verið ákvörðuð varðandi örorkumatið né upplýsingar um hvort mögulegt væri að áfrýja þeirri ákvörðun.

Þar sem örorkumat hafi loks verið samþykkt eftir að kærandi hafi sjálf óskað eftir endurupptöku og áliti frá matslækni á vegum Tryggingastofnunar, sé spurning hvort úrskurðarnefndin gegni því hlutverki að fara ofan í saumana á því hvort málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi í heildina verið lögum samkvæmt. Að því leyti myndi kærandi styðja áframhaldandi skoðun nefndarinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því að stofnunin hafi ákveðið að taka málið til meðferðar að nýju og hafi boðað kæranda í skoðun vegna örorkumats. Þar sem málið hafi verið tekið fyrir að nýju sé farið fram á að það verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Upphafleg kæra í máli þessu varðaði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2020 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Undir rekstri málsins var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 2. desember 2020, að hún yrði boðuð í skoðun vegna örorkumats. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu kæranda til nýrrar ákvörðunar stofnunarinnar. Í svörum kæranda greinir hún frá því að þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi samþykkt umsókn hennar sé margt athugavert við málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi byggir meðal annars á því að Tryggingastofnun hafi ekki leiðbeint sér nægjanlega. Fyrir liggur jafnframt ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 16. desember 2020, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var samþykkt og gildistími matsins ákvarðaður frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2023.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum, kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Hið sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um tiltekin ágreiningsefni samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Tryggingastofnun hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá því tímamarki er greiðslu endurhæfingarlífeyris lauk. Af málatilbúnaði kæranda má ráða að hún sé sátt við þá niðurstöðu en ósátt við málsmeðferð stofnunarinnar. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki sé til staðar ágreiningur á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins um nein af þeim ágreiningsefnum sem tilgreind eru í 13. gr. laga um almannatryggingar. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við málsmeðferð Tryggingastofnunar getur hún kvartað til umboðsmanns Alþingis, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta