Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 113/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 113/2020

Þriðjudaginn 21. apríl 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Kristinn Tómasson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. mars 2020, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2020, um synjun á umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með læknisvottorði, dags. 6. febrúar 2020, sótti kærandi um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu barns. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að veikindi hennar væru ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar og hún hafi af þeim völdum verið ófær um að annast um barn sitt í fæðingarorlofinu.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2020. Með bréfi, dags. 4. mars 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 13. mars 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. mars 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi fætt barn sitt X 2019 og verið á sængurkvennadeild í nokkra daga vegna gulu. Á þeim tíma hafi hún fengið „kitl“ í hálsinn og „skrýtna“ tilfinningu í legið. Hún hafi verið skoðuð en ekkert fundist. Um fimm dögum eftir fæðingu hafi kærandi verið lögð inn í einangrun á sængurkvennadeildina með barnsfararsótt. Meðfylgjandi læknaskýrsla og greinargerð/vottorð frá heimilislækni kæranda geti útskýrt það betur en eins og hún skilji þau gögn þá sé ómögulegt að fá barnsfararsótt án þess að það sé fylgikvilli barnsfæðingar. Þegar kærandi hafi verið útskrifuð úr einangrun hafi hún farið með barn sitt heim til foreldra sinna þar sem hún hafi verið rúmliggjandi og algjörlega ófær um að sjá um barnið. Hún hafi verið mjög þreytt, veikburða, með mikinn svima og þurft aðstoð við að komast á klósettið og við allar athafnir daglegs lífs. Kærandi hafi dvalið hjá foreldrum sínum þar til barnið hafi verið um 10 vikna gamalt. Þá hafi hún getað sinnt barninu að einhverju ráði en þó enn verið veikburða og með mikinn svima, sem hafi minnkað hægt og rólega á næstu vikum/mánuðum á eftir.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem sé að finna heimildarákvæði til að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar skuli rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu. Í málinu hafi verið óskað umsagnar B sérfræðilæknis, dags. 8. mars 2020.

Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 136/2011, sem breytt hafi 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, komi síðan fram að lagt sé til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Til þess að veikindi móður veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfi þau að uppfylla skilyrði framangreindra lagaákvæða og athugasemda, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 8/2014.

Í læknisvottorði C, dags. 6. febrúar 2020, sé vísað til fylgigagna en tekið fram að kærandi hafi legið á kvennadeild frá X til 2019 og verið áfram í „kontakt“ við kvennadeild vegna viðvarandi sýkingar í brjóstum, sbr. nótu frá X 2019. Síðan segi að kærandi hafi þannig glímt við krónísk veikindi eftir fæðingu barns síns þann X 2019. Í innlagnarnótu frá X 2019 komi meðal annars fram að kærandi hafi fætt barn sitt í eðlilegri fæðingu. Spontant sótt og hröð fæðing, ekki PROM. 2°rifa. Blæddi 400 ml. Síðan sé skráð:

„Góð líðan eftir fæðinguna en daginn eftir fór hún að finna fyrir kitli í hálsinum. Smám saman kom hálsbólga og hósti. Báðir foreldrar hennar verið veikir, að sögn með lungnabólgu. Í gær fór hún að finna fyrir verkjum neðarlega í kvið og blæðing jókst, hafa komið nokkur coagel. Í gær fór hún einnig að finna fyrir bólgu, þrýstingi og slætti í skapabörmum. Vaknaði í morgun í svitakófi og mældi sig með 39,1°C hita. Kemur í skoðun.“ Síðan sé rakið hvaða skoðanir hafi farið fram á kæranda og niðurstöður þeirra en þar segi meðal annars: „Einkenni frá legi og skoðun sem bendir til endometritis. Þó einnig með öndurnarfæraeinkenni og útbrot á vulva. Ákveðið í samráði við sérfræðinga á vakt […] að byrja meðferð með Augmentin 1,2 g x 3 iv. og sjá niðurstöður úr strokum, e.t.v. verður bætt við Dalacin ef sérstakur grunur um gr. A streptokokka vaknar. Biður um parkodin og fær það. Leggst inn á 22A. Fylgjumst með lífsmörkum á a.m.k. 2 klst. fresti næstu tímana. Höldum áfram vökvainfusion.“

Í útskriftarnótu frá X 2019 segi meðal annars:

„Spontant sótt og hröð fæðing, ekki PROM. Fékk 2° rifu, blæðing 400 ml. Hálsbólga eftir fæðingu, auknir verkir í kvið, aukin úthreinsun, þroti í skapabörmum og byrjandi útbrot, hár hiti frá X. Innlögn til meðferðar á endometritis. Reyndist vera jákvæð í kynfærastroki fyrir hemolytiskum streptokokkum, gr. A. Blóðræktanir neikvæðar 18/6. Þvagræktun neikvæð. Nefstrok jákvætt fyrir parainfluensu týpu 3. Fékk meðferð með vökvagjöf, Augmentin 1200mgx3 og Dalacin 900mgx3 iv í 3 sólarhringa. Vel batnandi klínískt og í blóðprufum á meðferð. Útskrifast ásamt barni við góða líðan, lífsmörk eðlileg, hitalaus eðlileg kvenskoðun við útskrift. Útskrifast á meðferð með Augmentin 1gx3 í 7 daga po eftir útskrift. Fær meðferð með Fragmin 7500 ein 1x á dag í 7 daga eftir útskrift. Tekur panodil, Ibufen við verkjum. Á tíma í endurmat á göngudeild mæðraverndar 22B X nk.“

Í göngudeildarnótu frá X 2019 séu loks rakin vandamál sem hafi komið upp hjá kæranda vegna sýkingar í hægra brjósti.

Í umsögn B sérfræðilæknis, dags. 8. mars 2020, segi meðal annars:

„Undirritaður kom að yfirferð læknisvottorðs C læknis og fylgigagna með því vottorði sem eru dagsett 6.2.2020. Af þeim gögnum verður ekki séð að um alvarleg veikindi móður hafi verið að ræða og hún hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikinda í fæðingarorlofi sínu.“

Síðan segi orðrétt í umsögn B:

„Móðirin fæddi barn sitt X 2019. Um var að ræða hraða en eðlilega fæðingu. Líðan móður eftir fæðingu var góð en þann X 2019 er hún komin með hálsbólgu og hósta. Hún er síðan útskrifuð heim. Þann X 2019 fer móðirin að finna fyrir verkjum neðarlega í kvið og blæðing jókst. Þann dag finnur hún fyrir bólgu, þrýstingi og slætti í skapabörmum. Þann X 2019 er hún með 39,1°C og kemur í skoðun á Landspítalann. Samkvæmt útskriftarnótu frá meðgöngu- og sængurlegudeild (Hb-22A) þann X 2019 var móðirin meðhöndluð með sýklalyfjum vegna endometritis og lá inni í 3 daga. Útskrifaðist ásamt barni við góða líðan, eðlileg kvenskoðun við útskrift. Fær sýklalyf í 7 daga eftir útskrift.“

Þá segir í umsögn B: „Þannig kemur ekkert fram um það í læknisvottorði eða fylgigögnum að móðirin hafi verið ófær um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu jafnvel þótt veikindi hennar í þrjá daga sem hún var á sjúkrahúsi megi e.t.v. rekja til fæðingarinnar.“

Í niðurlagi umsagnar B segi loks:

„Eftir að heim kemur þann X 2019 eru engin fyrirliggjandi gögn um að móðirin hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikinda sem verða rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Gögn varðandi brjóstavandamál frá X 2019 eru þessu máli óviðkomandi enda verður það vandamál ekki rakið til fæðingarinnar sjálfrar. Þá kemur ekkert fram í þeim heilsufarsgögnum sem fylgdu kæru kæranda um að hún hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikinda í fæðingarorlofi sínu.“

Þannig liggi fyrir samkvæmt gögnum málsins að kærandi hafi fætt barn sitt í eðlilegri fæðingu X 2019 og líðan hafi verið góð eftir fæðingu. Daginn eftir hafi kærandi hins vegar farið að finna fyrir hálsbólgu og hita og hafi verið komin með háan hita X. Hún hafi verið lögð inn á sjúkrahús X þar sem hún hafi legið inni í þrjá daga eða til X og verið meðhöndluð vegna endometritis. Þau veikindi verði að öllum líkindum rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Kærandi hafi síðan útskrifast á þriðja degi við góða líðan, lífsmörk hafi verið eðlileg, hún verið hitalaus og kvenskoðun verið eðlileg. Þá sé þess hvergi getið að kærandi hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Eftir útskriftina X 2019 liggi ekki fyrir önnur læknisfræðileg gögn fyrr en X 2019 þegar kærandi hafi verið meðhöndluð vegna vandamála frá hægra brjósti sem verði ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar og veiti þar með ekki rétt til framlengingar á fæðingarorlofi samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Eftir X 2019 liggi ekki fyrir önnur læknisfræðileg gögn fyrr en tæplega sjö mánuðum síðar, sbr. læknisvottorð C, dags. X 2020, en í því komi einfaldlega fram að kærandi hafi verið skoðuð X 2019 og um lýsingu á sjúkdómi móður vísist til gagna frá X 2019 sem rakin hafa verið hér að framan.

Í kæru kæranda komi fram að eftir útskrift hafi hún farið með barn sitt heim til foreldra sinna þar sem hún segist hafa verið rúmliggjandi og algjörlega ófær að annast um barn sitt. Hún hafi verið mjög þreytt, veikburða og með mikinn svima. Þá segist hún hafa þurft aðstoð við að komast á klósettið og við allar athafnir daglegs lífs. Hún og barn hennar hafi verið hjá foreldrum hennar þangað til barnið hafi verið um 10 vikna. Þá hafi hún getað sinnt barninu að einhverju ráði þó að hún hafi enn verið veikburða og með mikinn svima sem hafi minnkað hægt og rólega á næstu vikum/mánuðum á eftir.

Eins og áður segi geri 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 þann áskilnað um heimild til framlengingar á fæðingarorlofi að um hafi verið að ræða alvarleg veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar sjálfrar og móðir hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Jafnvel þótt veikindi kæranda X til X 2019 megi að öllum líkindum rekja til fæðingarinnar sjálfrar verði ekki séð að þau uppfylli það skilyrði 3. mgr. 17. gr. laganna að hafa verið alvarleg veikindi sem leitt hafi til þess að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær að annast um barn sitt að mati sérfræðilæknis. Þannig liggi hvorki fyrir mat sérfræðilæknis um að kærandi hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast um barn sitt vegna alvarlegra veikinda sem rekja megi til fæðingarinnar sjálfrar né virðist kærandi hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna slíkra veikinda nema þegar hún hafi verið innlögð og meðhöndluð X til 2019 og síðan útskrifuð hitalaus við góða líðan, eðlileg lífsmörk og eðlilega kvenskoðun.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um framlengingu á fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 17. febrúar 2020.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá kemur einnig fram að styðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. með vottorði læknis en það sé lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Enn fremur segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 var ákvæði 17. gr. laga nr. 95/2000 breytt og kveðið á með skýrari hætti að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 136/2011 segir að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Barn kæranda fæddist X 2019. Í læknisvottorði C, dags. 6. febrúar 2020, er vísað til fylgigagna en tekið fram að kærandi hafi legið á kvennadeild á tímabilinu X til X 2019 og verið áfram í kontakt við kvennadeild vegna viðvarandi sýkingar í brjóstum. Kærandi hafi þannig glímt við krónísk veikindi eftir fæðingu barns síns þann X 2019. Í innlagnarnótu frá X 2019 kemur meðal annars fram að kærandi hafi fætt barn sitt í eðlilegri fæðingu. Síðan segir:

„Góð líðan eftir fæðinguna en daginn eftir fór hún að finna fyrir kitli í hálsinum. Smám saman kom hálsbólga og hósti. Báðir foreldrar hennar verið veikir, að sögn með lungnabólgu. Í gær fór hún að finna fyrir verkjum neðarlega í kvið og blæðing jókst, hafa komið nokkur coagel. Í gær fór hún einnig að finna fyrir bólgu, þrýstingi og slætti í skapabörmum. Vaknaði í morgun í svitakófi og mældi sig með 39,1°C hita. Kemur í skoðun.“

Síðan er rakið hvaða skoðanir fóru fram á kæranda og niðurstöður þeirra en þar segir meðal annars:

„Einkenni frá legi og skoðun sem bendir til endometritis. Þó einnig með öndurnarfæraeinkenni og útbrot á vulva. Ákveðið í samráði við sérfræðinga á vakt […] að byrja meðferð með Augmentin 1,2 g x 3 iv. og sjá niðurstöður úr strokum, e.t.v. verður bætt við Dalacin ef sérstakur grunur um gr. A streptokokka vaknar. Biður um parkodin og fær það. Leggst inn á 22A. Fylgjumst með lífsmörkum á a.m.k. 2 klst. fresti næstu tímana. Höldum áfram vökvainfusion.“

Í útskriftarnótu frá X 2019 kemur meðal annars fram að kærandi hafi útskrifast hitalaus ásamt barni við góða líðan og hafi lífsmörk og kvenskoðun við útskrift verið eðlileg. Í umsögn B sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. mars 2020, kemur fram að hann hafi farið yfir framangreint vottorð og fylgigögn. Í þeim gögnum komi ekkert fram um að kærandi hafi verið ófær um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu jafnvel þótt veikindi hennar í þá daga sem hún hafi verið á sjúkrahúsi megi ef til vill rekja til fæðingarinnar.

Úrskurðarnefndin tekur undir það álit sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs að gögn málsins veiti engar upplýsingar um hvort kærandi hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna þeirra veikinda sem hún var að kljást við í kjölfar fæðingarinnar. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Fæðingarorlofssjóði að kanna það nánar og gefa kæranda kost á því að leggja fram frekari gögn því til stuðnings. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægjanlega, sbr. 10.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2020, um synjun á umsókn A, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sjóðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

                                                                    

                                                                    

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta