Hoppa yfir valmynd
26. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 13/2015 úrskurður 23. mars 2015

Mál nr. 13/2015                     Eiginnafn:      Aðalvíkingur

 

 

Hinn 23. mars 2015 kveður mannanafnanefnd upp úrskurð í máli nr. 13/2015 en  erindið barst nefndinni 4. febrúar síðastliðinn.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði (2) hér að ofan. Við mat á hvort téð skilyrði sé uppfyllt ber til þess að líta að í úrskurði mannanafnanefndar frá 16. maí 2012 í máli nr. 22/2012 var beiðni um eiginnafnið Aðalvíkingur hafnað á grundvelli þess að það væri þríliðað og bryti því í bág við íslenskt málkerfi. Jafnframt var á það bent að ekki væri í samræmi við málhefð af mynda eiginnöfn af staðarheitum, þ.e. í umræddu tilviki af staðarheitinu Aðalvík.

Fram kemur í athugasemdum í frumvarpi til gildandi mannanafnalaga að skilyrðið að nafn brjóti ekki í bág við íslenskt málkerfi sé til að koma í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Almenna reglan er því sú að þríliðuð nöfn brjóti í bága við íslenska nafnkerfið og á það sérstaklega við ef liðirnir eru allir nafnliðir. Skýrt dæmi um slíkt eru nöfn eins og Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Ef einn eða fleiri af liðunum eru hins vegar forliður eða viðskeyti (sbr. Gunnþórunn) falla slík þríliðuð nöfn miklu betur að nafnakerfinu.

Jafnframt ber að líta til þess að samkvæmt gögnum Þjóðskrár Íslands ber einn karl nafnið Aðalvíkingur og er hann fæddur 1954. Nafnið er því til og í þeim skilningi ekki nýtt. Þá má einnig benda á að á mannanafnaskrá eru nöfnin Aðalsteinunn og Gunnþórunn sem eru mynduð á sambærilegan hátt og nafnið Aðalvíkingur.

Einnig er óhjákvæmilegt í þessu sambandi að hafa í huga óáfrýjaðan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2013 í máli nr. E–1917/2013 en þar var komist að þeirri niðurstöðu að eiginnafnið Reykdal bryti ekki í bág við íslenskt málkerfi, m.a. með vísan til samræmis- og jafnræðissjónarmiða, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að breyttum breytanda eiga sambærileg sjónarmið við í þessu máli. 

Í máli 13/2015 segja umsækjendur að nafnið Aðalvíkingur sé sett saman af Aðalsteinn og Víkingur og benda jafnframt á að ekki sé lengur talað um Aðalvíkinga þar sem Aðalvík lagðist í eyði fyrir um 65 árum.

Með vísan til alls framanritaðs verður fallist á að eiginnafnið Aðalvíkingur (kk.) taki íslenskri beygingu í eignarfalli, Aðalvíkings, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Aðalvíkingur (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta