Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 108/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 108/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110030

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. nóvember 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], ríkisborgari Pakistan ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, um að synja umsókn hans um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hans um dvalarrétt á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 4. september 2016. Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2017, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 414/2017, dags. 11. júlí 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða auk þess sem kæranda var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mansals eða gruns þar um. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun með úrskurði nr. 534/2018, dags. 6. desember 2018, og lagði jafnframt fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan 30 daga. Hinn 14. desember 2018 óskaði kærandi hvort tveggja eftir endurupptöku málsins ásamt frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Með úrskurði kærunefndar nr. 45/2019, dags. 31. janúar 2019, var endurupptökubeiðni kæranda hafnað. Með úrskurði kærunefndar nr. 24/2019, dags. 1. febrúar 2019, var beiðni um frestun réttaráhrifa hafnað.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt bráðabirgðaleyfi hér á landi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga 26. júní 2017, á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd væri til meðferðar hjá stjórnvöldum. Bráðabirgðaleyfi kæranda var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 16. mars 2019. Hinn 8. júlí 2019 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Umsókninni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2019. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið 20. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var umsókninni synjað. Með úrskurði nr. 62/2021, dags. 17. febrúar 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar.

Hinn 8. júní 2022 óskaði kærandi enn á ný eftir endurupptöku úrskurðar kærunefndar nr. 534/2018, frá 6. desember 2018. Með úrskurði nr. 267/2022, dags. 14. júlí 2022, hafnaði kærunefnd beiðni kæranda. Kærandi stefndi íslenska ríkinu og Útlendingastofnun fyrir héraðsdómi 21. september 2022 og krafðist þess aðallega að síðastnefndur úrskurður kærunefndar yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4270/2020, dags. 16. febrúar 2023, voru stefndu sýknuð af kröfum kæranda og stóð úrskurður kærunefndar nr. 267/2022 því óhaggaður.

Hinn 19. júlí 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr., sbr. 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga, á grundvelli þess að meintur stjúpfaðir hans væri ítalskur ríkisborgari. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að ekki hefði verið færð fullnægjandi staðfesting á þeim fjölskyldutengslum sem kærandi byggði umsókn sína á, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Auk þess lagði Útlendingastofnun til grundvallar að framfærslugögn sem kærandi lagði fram væru ótrúverðug, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds nyti kærandi ekki dvalarréttar á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga. Hin kærða ákvörðun var birt kæranda 19. október 2023. Hinn 2. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar. Með tölvubréfum, dags. 2., 3., og 6. nóvember 2023, lagði kærandi fram greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins.

Við meðferð málsins, móttók kærunefnd skjalarannsóknarskýrslu lögreglu, dags. 31. janúar 2024. Í skýrslunni kemur m.a. fram að rökstuddur grunur sé um að núgildandi vegabréf kæranda hafi verið gefið út á grundvelli ófullnægjandi eða falskra upplýsinga. Fæðingarskráningarvottorð og fjölskylduskráningarvottorð væru ótraustvekjandi, bæði er varðar skjölin og innihald þeirra, pakistanskt vottorð um fæðingardag kæranda væri líklega falsað, ítalskt fjölskyldustöðuvottorð væri ófalsað, og ítölsk ákvörðun um leyfi til fjölskyldusameiningar væri að forminu til ótraust en enga fölsun væri að sjá. Skýrslan var borin undir kæranda og honum veittur frestur til 5. febrúar 2024 til þess að koma á framfæri andmælum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 5. febrúar 2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til umsóknar sinnar og hinnar kærðu ákvörðunar. Vísað er til þess að Útlendingastofnun hafi óskað eftir frekari gögnum við meðferð umsóknarinnar, þ.m.t. vegabréfi kæranda, fæðingarvottorði, gögnum um fjölskyldutengsl og gögnum sem sýndu fram á að kærandi nyti framfærslu stjúpföður síns. Kærandi kveðst hafa brugðist við þessu og telur ákvörðun Útlendingastofnunar ósanngjarna. Þá bendir kærandi á að misræmi í fyrri umsóknum hans væru ekki einstök og kveður marga einstaklinga á Íslandi hafa lagt fram rangar upplýsingar til stjórnvalda í mismunandi Evrópuríkjum vegna ýmissa ástæðna. Kærandi kveðst hafa verið [...]ára gamall þegar hann sótti um alþjóðlega vernd í Svíþjóð árið 2013, vegna blekkinga þriðja manns. Við umsókn hans um vernd á Íslandi hafi kærandi lagt fram frumrit vegabréfs síns hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli.

Hvað framfærslugögn af hálfu stjúpföður varðar hafnar kærandi því að hafa reynt að umbreyta gögnunum til þess að leyna auðkenni eiganda reikninganna. Þvert á móti hafi kærandi ætlað að vekja athygli á tilteknum atriðum í gögnunum, og því merkt í þau. Bendir kærandi á að það sé Útlendingastofnun í lófa lagið að kanna áreiðanleika gagnanna hjá [...]. Kærandi kveður ítarlega endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar munu leiða í ljós lögmæti umsóknar hans um dvalarrétt sem aðstandandi EES-borgara. Þá bendir kærandi á fyrri úrlausnir íslenskra stjórnvalda og dómstóla þar sem lögð hafi verið fram fölsuð gögn sem hafi þrátt fyrir það leitt til veitingar mannúðarleyfis. Krefst kærandi jafnrar meðferðar í sínu máli og óskar eftir því að kærunefnd rannsaki umræddar úrlausnir, sem lúti að fölsuðum eða ónákvæmum auðkennaupplýsingum.

Loks bendir kærandi á tilvísun Útlendingastofnunar til fjölskylduupplýsinga kæranda, sem lagðar voru fram samhliða verndarumsókn hans í Svíþjóð. Í fyrsta lagi kveðst kærandi hafa verið blekktur af þriðja manni og í öðru lagi hafi hann ekki verið í samskiptum við stjúpföður sinn á þeim tíma. Hann hafi verið í samskiptum við ömmu sína og afa á þeim tíma, og hafi því tilgreint þau sem fylgdaraðila. Í ljósi þess vill kærandi leggja áherslu á að skýringum hans hafi ekki verið ætlað að valda misskilningi.

Í viðbótargreinargerð, sem móttekin var af kærunefnd 6. nóvember 2023, vildi kærandi koma því á framfæri að það væru rangfærslur í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi fjölskyldutengsl sín. Kærandi bendir á það að aldursmunur á honum og fjölskyldumeðlimum hans skipti engu máli enda séu þau stjúpforeldrar hans, en ekki kynforeldrar. Stjúpfaðir kæranda hafi gengið í hjúskap með kynmóður kæranda þegar hann hafi verið um fjögurra ára gamall og hafi kærandi orðið hluti af fjölskyldu stjúpföður síns.

Í andmælum kæranda vegna skjalarannsóknarskýrslu lögreglu vísar kærandi einkum til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Í því samhengi bendir kærandi á að lögregla framkvæmi ekki skjalarannsóknir vegna umsókna allra pakistanskra ríkisborgara um dvalarleyfi. Hann telji rannsókn lögreglu háða huglægu mati og ekki tekið nægt tillit til annarra gagna sem liggja fyrir í máli hans, svo sem gagna frá Svíþjóð, Pakistan, og Ítalíu. Þá hafi fulltrúum Útlendingastofnunar og lögreglunnar verið í lófa lagið að afla staðfestinga frá pakistönskum yfirvöldum á borð við sendiráð ríkisins á hinum Norðurlöndunum. Þá spyr kærandi sérstaklega hvers vegna gögn frá menntastofnunum í Svíþjóð hafi ekki verið sérstaklega rannsökuð. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 30/2020, varðandi auðkenni pakistansks ríkisborgara, og tilgreinir nokkur mál fyrir Útlendingastofnun þar sem rannsókn var framkvæmd til þess að meta aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá telji kærandi tilvísun skjalarannsóknarsérfræðings til spillingar í Pakistan ekki einsdæmi en spilling þrífist um allan heim og nefnir í dæmaskyni birtingu svonefndra Panamaskjala og afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra árið 2016 auk annarra mála. Vísar kærandi til yfirlýsinga nokkurra frjálsra félagasamtaka og einstaklinga um hæfi formanns kærunefndar útlendingamála og telur kærandi sjálfstæði nefndarinnar stefnt í voða. Loks vísar kærandi til nokkurra fyrri úrskurða kærunefndar um auðkenni pakistanskra ríkisborgara og leggur fram afrit af eigin kennivottorðum, þ. á m. bráðabirgðadvalarleyfi með atvinnuleyfi og ökuskírteini.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru gögn um framfærslu kæranda, þar með talið bankayfirlit og einstakar millifærslukvittanir, gögn úr þjóðskrá Ítalíu um fjölskyldu kæranda, afrit af úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 30/2020, dags. 23. janúar 2020 og afrit af dómi Landsréttar nr. 427/2020, dags. 5. nóvember 2021.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla laganna hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 82. gr. falla niðjar viðkomandi borgara, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem er yngri en 21 árs eða á framfæri borgarans undir hugtakið aðstandandi. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 82. gr. falla ættingjar viðkomandi borgara, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem eru á framfæri borgarans einnig undir aðstandendahugtakið.

Í 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir EES- eða EFTA-borgara. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. hefur EES- eða EFTA-borgari rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af skilyrðum a-d liðar ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. geta útlendingar sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara notið dvalarréttar á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir. Útgáfa dvalarskírteina til handa útlendingum sem falla undir 86. gr. laga um útlendinga grundvallast á 90. gr. laga um útlendinga en í a-d-lið 2. mgr. 90. gr. er kveðið á um fylgigögn sem leggja skuli fram samhliða umsókn um dvalarskírteini, nánar tiltekið gilt vegabréf, gögn sem staðfesta fjölskyldutengsl sem grundvöll dvalarréttar, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem fjölskyldusameining grundvallast á, svo og staðfesting á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hins.

Í máli kæranda reynir einkum á b- og d-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga er varðar fylgigögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar auk staðfestingar á framfærslu. Kærandi hefur vísað til sömu meintu fjölskyldutengsla við meðferð umsókna sinna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómstólum frá árinu 2016. Hafa framangreindir handhafar ríkisvalds fjallað um meint fjölskyldutengsl í fyrri úrlausnum sínum, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4270/2020, og áðurnefnda úrskurði kærunefndar nr. 534/2018, 45/2019, 62/2021, og 267/2022. Í fyrrgreindum úrlausnum hafa íslensk stjórnvöld og dómstólar lagt til grundvallar að fjölskyldutengsl kæranda við meintan stjúpföður, [...], og eftir atvikum aðra meinta fjölskyldumeðlimi séu ótrúverðug einkum í ljósi þess að framburður kæranda og meintra fjölskyldumeðlima hans var talinn ótrúverðugur og þess misræmis sem var á uppgefnum fæðingardögum og fjölskyldutengslum sem byggt var á hjá íslenskum og erlendum stjórnvöldum.

Í fyrirliggjandi máli bætist sú málsástæða við að meintur stjúpfaðir kæranda hafi öðlast ítalskt ríkisfang, og geti því lagt grundvöll að dvöl sinni og kæranda hér á landi á ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Kærunefnd hefur áður haft gögn ítalskra stjórnvalda í málum kæranda til umfjöllunar, m.a. gögn sem lúta að fjölskyldusameiningu hans á Ítalíu, ásamt vegabréfsáritun, útgefinni 21. ágúst 2013. Þrátt fyrir afstöðu ítalskra stjórnvalda hafa íslensk stjórnvöld lagt til grundvallar að fjölskyldutengsl kæranda við meintan stjúpföður séu ótrúverðug. Telur kærunefnd nýtt ríkisfang meints stjúpföður kæranda og afrit skráningar í þjóðskrá Ítalíu ekki hrinda framangreindu mati. Verður því enn lagt til grundvallar að meint fjölskyldutengsl kæranda séu ótrúverðug og verður dvalarréttur á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga ekki reistur á umræddum tengslum, sbr. einkum b-lið 1. mgr. 90. gr. og 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið skjalarannsóknarskýrslu lögreglu vegna skjala sem lögð hafa verið fram af hálfu kæranda. Í skýrslunni kemur m.a. fram að rökstuddur grunur sé um að núgildandi vegabréf kæranda hafi verið gefið út á grundvelli ófullnægjandi eða falskra upplýsinga. Þá kemur fram að fæðingarskráningarvottorð og fjölskylduskráningarvottorð væru ótraustvekjandi, bæði er varðar skjölin og innihald þeirra, pakistanskt vottorð um fæðingardag kæranda væri líklega falsað, ítalskt fjölskyldustöðuvottorð væri ófalsað, og ítölsk ákvörðun um leyfi til fjölskyldusameiningar væri að forminu til ótraust en enga fölsun væri að sjá. Að mati kærunefndar rennir skýrslan frekari stoðum undir það mat nefndarinnar að framburður kæranda um meinta fjölskyldu sína sé ótrúverðugur.

Af málatilbúnaði kæranda má ráða að hann telji rannsókn málsins ábótavant af hálfu Útlendingastofnunar, svo sem að stofnunin hafi ekki aflað staðfestingar útgáfuaðila á framlögðum skjölum. Bendir nefndin á að umsóknir um dvalarleyfi eða önnur réttindi á grundvelli laga um útlendinga hefjast að jafnaði að frumkvæði málsaðila sjálfra. Þeir bera ábyrgð á því að leggja sönnur á að skilyrði fyrir útgáfu umbeðinna réttinda með framlagningu haldbærra gagna þar um, sbr. einkum 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 90. gr. sömu laga, og til hliðsjónar 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga. Bera stjórnvöld ekki frumkvæðisskyldu til þess að afla vottana eða staðfestinga annarra stjórnvalda, og eftir atvikum annarra ríkja, líkt og málatilbúnaður kæranda bendir til, en stjórnvöldum er heimilt að framsenda gögn til annarra stjórnvalda til staðfestingar, telji þau þörf á, sbr. 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga. Telur kærunefnd ekki ástæðu til þess að finna að þeirri ráðstöfun Útlendingastofnunar að óska eftir rannsókn lögreglu á tilteknum fylgiskjölum kæranda. Hafa framfærslugögn sem lögð hafa verið fram við meðferð málsins ekki þýðingu við úrlausn málsins. Enn fremur telur nefndin málsástæðu kæranda um falsaðar eða ónákvæmar auðkennaupplýsingar í öðrum úrlausnum stjórnvalda og dómstóla haldlausa og ekki til þess fallna að styrkja málatilbúnað hans. Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærandi nýtur ekki réttar til dvalar hér á landi eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Kærandi er með dvalarleyfi á Ítalíu í gildi sem heimilar honum að koma til landsins án vegabréfsáritunar, sbr. 10. tölul. viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022. Gilda því ákvæði V. kafla laga um útlendinga um dvöl hans, sbr. einkum 1. mgr. 49. gr. laganna, sem veitir kæranda heimild til þess að dveljast hér á landi í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Dvöl umfram lögbundið hámark getur þó leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. og 101. gr. laga um útlendinga.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir.

Í umsókn kæranda, dags. 17. júlí 2023, kemur fram að umsóknin hafi verið undirrituð á Íslandi og verður því lagt til grundvallar að kærandi hafi verið hér á landi, eigi síðar en við það tímamark. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi nyti ekki dvalarréttar eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga og batt ákvörðun stofnunarinnar því enda á heimila dvöl kæranda hér á landi. Hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Kæranda er veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta