Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 11/2012

Samtök meðlagsgreiðenda

fyrir hönd A

gegn

Þjóðskrá Íslands.

 

Almannaskráning. Mismunun.

Kærandi óskaði eftir úrskurði kærunefndar jafnréttismála um hvort synjun Þjóðskrár Íslands um að skrá hann í þjóðskrá sem umgengnisforeldri bryti í bága við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar sem það er ekki á valdsviði kærunefndar jafnréttismála að endurskoða ákvarðanir Þjóðskrár Íslands sem starfrækt er á grundvelli laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, var málinu vísað frá.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 4. janúar 2013 er tekið fyrir mál nr. 11/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Samtök meðlagsgreiðenda fyrir hönd A lögðu fram kæru til kærunefndar jafnréttismála, dagsetta 19. september 2012, sem móttekin var þann 8. október 2012. Í kærunni er óskað eftir úrskurði nefndarinnar um hvort ákvörðun kærða um að synja því að skrá kæranda sem umgengnisforeldri bryti í bága við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Beiðnin ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 16. október 2012. Umsögn og upplýsingar frá kærða bárust með bréfi, dagsettu 25. október 2012, sem var sent kæranda til kynningar. Kærandi gerði ekki athugasemdir við umsögn kærða.
  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  5. Kærandi fór þess á leit við kærða þann 25. september 2012 að hann yrði skráður sem umgengnisforeldri í þjóðskrá með tilteknu fjölskyldunúmeri eða með öðrum hætti svo að hann yrði sýnilegur og auðkenndur sem foreldri. Kæranda barst svar frá kærða þann 5. október 2012 þar sem beiðni hans var synjað með vísun til þess að ekki standi lagaskylda til þess að taka við eða skrá upplýsingar um umgengnisforeldra eins og gildi um upplýsingar um forsjá og foreldra samkvæmt ákvæðum barnalaga. Einungis grunnupplýsingum sé miðlað úr þjóðskrá. Upplýsingar um foreldra, vensl, forsjá o.fl. séu ekki færðar í tölvukerfi kærða en þær séu til staðar í gögnum stofnunarinnar.
  6. Kærandi kærði synjun kærða á skráningu til kærunefndar jafnréttismála þann 19. september 2012, með vísun til þess að synjunin bryti í bága við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  7. Kærandi bendir á að með því að umgengnisforeldrar séu ekki skráðir í þjóðskrá séu þeir ósýnilegir og órannsakanlegir gagnvart stofnunum eins og háskólunum, Creditinfo, velferðarvaktinni, Hagstofu Íslands og fjármálafyrirtækjunum. Þetta valdi því að þeir séu undanskildir allri hagskýrslugerð og öllum þeim könnunum og úttektum sem hafa komið frá ofangreindum stofnunum og fyrirtækjum. Með því að undanskilja 14.000 manna þjóðfélagshóp megi segja að niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafi verið um stöðu ólíkra þjóðfélagshópa hafi verið rangar.
  8. Kærandi rekur að ósýnileikinn komi við fleiri aðila en umgengnisforeldra og hafi fræðasamfélagið lýst yfir miklum áhuga á að knýja á um skráningu umgengnisforeldra í þjóðskrá. Vandinn komi líka við fjármálastofnanir, því þær séu með 14.000 viðskiptavini sem þær geti með engu móti vitað hvað hafi í framfærslutekjur. Fjármálastofnanir og Samtök fjármálafyrirtækja hafi því lýst yfir miklum stuðningi við að ráðist verði í það verkefni að skrá umgengnisforeldra sem foreldra í þjóðskrá. Slík skráning sé líka forsenda þess að hægt verði að leiðrétta aðgengi umgengnisforeldra að bótakerfinu, einkum til barnabóta og fyrirhugaðra húsnæðisbóta.
  9. Að mati kæranda séu það þjóðhagslegir hagsmunir að ráðist verði í skráningu þessa. Séu þá ótalin þau lagalegu sjónamið sem lúti að lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nánar tiltekið 1. mgr. 24. gr.
  10. Kærandi telur að vandi meðlagsgreiðenda og annarra foreldra sem hafi umgengni við börn sín sé kynbundinn. Langflestir foreldrar sem hafi börn sín á lögheimili sínu séu konur en næstum allir foreldrar sem hafi umgengni við börn sín án þess að eiga sama lögheimili séu karlar. Í ljósi þessa sé óhætt að segja að konur séu rétthærri en karlar þegar kemur að skráningu lögheimilis barna foreldra sem ekki búi saman. Fjölskyldunúmer fylgi lögheimili barns eftir skilnað, og teljist sú fjölskylda barnafjölskylda. Heimili foreldris sem hefur umgengni við börn sín án þess að eiga sama lögheimili sé hins vegar ekki skráð sem heimili barnafjölskyldu nema að því marki sem önnur börn kunni að búa þar og eigi þar lögheimili. Kærandi sjái því ekki annað en að hið opinbera mismuni foreldrum á grundvelli kynferðis, með því að skrá ekki foreldra sem ekki eigi skráð lögheimili með börnum sínum sem foreldra í þjóðskrá.
  11. Að mati kæranda valdi slík mismunun margs konar örðugleikum en þó mest fyrir þessa foreldra og börn þeirra, því þeir verði fyrir vikið ósýnilegir. Það komi svo í veg fyrir að hægt sé að taka tillit til þeirra í bótakerfinu, einkum varðandi barnabætur og húsnæðisbætur.
  12. Að mati kæranda valdi sú kynbundna mismunun sem eigi sér stað í skráningarferli þjóðskrár örbirgð 14.000 heimila á Íslandi og leiði til þess að þjóðfélagshópurinn sé ekki rannsakaður eins og aðrir þjóðfélagshópar. Til samanburðar megi nefna að Hagstofa Íslands leiki sér að því á hverju ári að telja fjölda hænsna, svína, nauta og annarra búgripa, en telji sér það ofviða að telja foreldra.
  13. Kærandi telur að synjun kærða á beiðni hans um skráningu brjóti í bága við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008. Hann fer fram á að hafist verði handa við umrædda skráningu hið fyrsta.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  14. Kærði greinir frá því að með erindi, dagsettu 25. september 2012, hafi kærandi farið þess á leit við Þjóðskrá Íslands að hann yrði skráður sem umgengnisforeldri í þjóðskrá með tilteknu fjölskyldunúmeri eða með öðrum hætti svo hann yrði sýnilegur og auðkenndur sem foreldri, líkt og foreldrar barnafjölskyldna. Með bréfi, dagsettu 5. október 2012, hafi kærði synjað beiðni kæranda um umbeðna skráningu.
  15. Kærði bendir á að svokallað fjölskyldunúmer sé notað til að halda utan um skráningu einstaklinga sem búa á sama lögheimili. Kennitala elsta einstaklings á lögheimili sé notað sem fjölskyldunúmer þeirra einstaklinga sem búa á sama lögheimili. Um leið og einstaklingur nái 18 ára aldri slitni öll tengsl hans við fyrra fjölskyldunúmer og kennitala viðkomandi verður fjölskyldunúmer hans.
  16. Ljóst sé að kærandi misskilji tilgang fjölskyldunúmers í þjóðskrá. Kærði fjallar um fullyrðingar kæranda um vinnslu upplýsinga sem fari fram upp úr tölvukerfi þjóðskrár hjá til dæmis Hagstofu, háskólunum og fleiri aðilum, og tekur fram að fjölskyldunúmerið sé einungis til þess gert að halda utan um þá einstaklinga sem skráðir séu á sama lögheimili og veiti í raun engar aðrar upplýsingar. Fjölskyldunúmerið hafi ekkert með forsjá, vensl eða fjölskyldustærð að gera. Þess konar upplýsingar liggi fyrir í gögnum hjá kærða en þær komi ekki fram í tölvukerfi kærða.
  17. Kærði kveður synjun skráningar í þjóðskrá á foreldri sem ekki eigi lögheimili með börnum sínum byggjast á þeim lagaskyldum sem hvíli á kærða til skráningar upplýsinga og telur kærði sér hvorki skylt samkvæmt lögum né sé það mögulegt vegna tæknilegra takmarkana að verða við beiðni kæranda.

    NIÐURSTAÐA
  18. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  19. Samkvæmt lögum nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu en skráningin byggist á gögnum sem tiltekin eru í 4. gr. laganna. Með bréfi, dagsettu 5. október sl., synjaði kærði kæranda um skráningu í þjóðskrá sem umgengnisforeldri en með því mun vera átt við foreldri sem ekki á lögheimili með börnum sínum. Kærði upplýsti kæranda um að ákvörðunin væri kæranleg til innanríkisráðuneytisins samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um meðferð slíks kærumáls fer samkvæmt VII. kafla laganna. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi nýtt sér kæruleið þessa heldur óskað úrlausnar kærunefndar jafnréttismála.
  20. Samkvæmt framansögðu sæta ákvarðanir kærða endurskoðun ráðherra sem æðra stjórnvalds. Sá sem ekki vill una úrskurði æðra stjórnvalds getur leitað fulltingis dómstóla til að fá þeim úrskurði hnekkt. Kærunefnd jafnréttismála er ekki til þess bær að lögum að endurskoða ákvarðanir kærða eða ráðherra í þessum efnum. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta