Hoppa yfir valmynd
5. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 184/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 184/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð 852.011 kr., fyrir tímabilið 16. maí til 19. nóvember 2011, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. desember 2011. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 16. maí 2011. Samkvæmt upplýsingum úr samskiptaskrá Vinnumálastofnunar kom kærandi á skrifstofu stofnunarinnar og var að velta fyrir sér hvernig hann ætti að bera sig að ef hann myndi selja einhver af þeim málverkum sem voru þá óseld. Í samskiptasögunni er skráð 22. nóvember 2011 að kærandi hafi selt málverk  á 100.000 kr. 15. nóvember 2011 og það hafi verið fært undir tilfallandi tekjur. Er það eftir að mál þetta kom upp en fyrir þann tíma eru ekki upplýsingar um sölu málverka í samskiptaskránni.

 

Í október 2011 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hafi verið að vinna samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Við athugun á facebook-síðu kæranda og á vefsíðunni B kom í ljós að kærandi var að selja málverk og gaf það Vinnumálastofnun tilefni til að athuga mál kæranda frekar.

 

Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið, með bréfi dags. 18. október 2011, eftir því að kærandi gerði skriflega grein fyrir því hvers vegna umrædd starfsemi hafi ekki verið tilkynnt til Vinnumálastofnunar. Kæranda var gerð grein fyrir því að brot gegn 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 gæti leitt til viðurlaga skv. 59. eða 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi sendi skýringar í tölvubréfi, dags. 21. nóvember 2011. Þar kemur fram hvaða tekjur hann hafði af sölu á listaverkum á þeim tíma er hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta.

 

Í kæru, dags. 22. desember 2011, greinir kærandi meðal annars frá því að það sé ekki rétt að hann hafi verið í fastri vinnu sem myndlistamaður. Kærandi kveðst vera myndlistamaður en það að mála hafi bara verið til að halda honum uppteknum og virkum á meðan atvinnuleit stæði. Kærandi telur að það að einhver starfi sem myndlistamaður þýði að sá geti lifað á því en það eigi ekki við um hann. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun 20. nóvember 2011 þar sem fram hafi komið að stofnunin hefði undir höndum gögn sem sýndu fram á að hann væri myndlistamaður og beðið um upplýsingar um sölu. Kærandi undrar sig á því að stofnunin hafi ekki gert grein fyrir því hvaðan þessar upplýsingar komu. Kærandi kveðst hafa í kjölfarið sent inn skýringarbréf og beðið um leiðréttingu. Hann hafi jafnframt gefið ástæður fyrir sölum og upphæðum. Allar upphæðirnar hafi verið undir frítekjumarkinu sem sé 59.047 kr. á mánuði fyrir utan síðustu söluna 15. nóvember 2011 sem hann hafi tilkynnt. Kærandi greinir frá því að í ákvörðun Vinnumálastofnunar komi fram að greiðslur til hans hafi verið stöðvaðar 19. nóvember 2011 en það sé sama dag og bréfið hafi verið sent. Kærandi undrar sig á því þar sem mál hans hafi þá ekki verið kannað áður og telur að það sé eins og búið hafi verið að ákveða það að rökstuðningur hans myndi ekki skipta máli.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. mars 2012, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vísað er til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og jafnframt til laga nr. 134/2009 um breytingar á atvinnuleysistryggingum, en með þeim lögum hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna.

 

Vinnumálastofnun bendir á að verknaðarlýsing ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Einnig sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum markaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt, samkvæmt 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Segi ennfremur í greinargerð með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé „mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verða að tilkynna fyrirfram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum.“

 

Jafnframt áréttar Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú skylda sé lögð á þá sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er sá tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur, eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafði til sölu málverk á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Samkvæmt upplýsingum af netsíðum kæranda auglýsti hann til sölu listaverk á facebook síðu sinni og á heimasíðunni B. Þá hafi kærandi sjálfur veitt upplýsingar um heildarsöluandvirði á árinu 2011 og í kjölfar þess að óskað hafi verið eftir upplýsingum um hagi hans hafi hann tilkynnt 22. nóvember um sölu á málverki að andvirði 100.000 kr. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi ekki mótmælt því að hann hafi staðið að sölu á umræddum verkum. Þá hafi hann heldur ekki haldið fram við meðferð máls að hann hafi tilkynnt um framangreind atriði til stofnunarinnar. Í bréfi kæranda til stofnunarinnar frá 21. nóvember 2011 komi fram að ástæða þess að hann hafi ekki tilkynnt um tekjur verði að teljast hans mistök.

 

Vinnumálstofnun telur óumdeilt að kærandi hafði listaverk til sölu á sama tíma og hann var skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun og að ekki hafi borist tilkynning um tilfallandi tekjur eða hlutastarf vegna þessa. Vinnumálastofnun telur að málið snúist um það hvort kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 231/2010 sé bent á að „störf á innlendum vinnumarkaði“ í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að skýra með hliðsjón af a- og b- liðum 3. gr. laganna. Í b-lið 3. gr. segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

 

Vinnumálastofnun bendir ennfremur á að starfsemi kæranda sé skattskyld og honum beri að reikna sér endurgjald, sbr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 60. gr. þeirra laga er þeim sem hafa mjög breytilegar tekjur milli ára af framleiðslu og sölu eigin verka, svo sem listaverka, heimilt að telja þær tekjur til skattskyldra tekna á fleiri en einu ári. Jafnvel þó starfsemi kæranda sé eins smá í sniðum og hann hafi lýst sé ljóst að kærandi teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þá hafði kærandi ekki tilkynnt um þessa starfsemi sína til stofnunarinnar þegar hún óskaði eftir upplýsingum frá kæranda. Vinnumálstofnun telur í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga nr. 54/2006, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysisbætur.

 

Vinnumálastofnun bendir á að skv. 60. gr. laga um atvinnuleysisbætur skuli sá sem sætir viðurlögum á grundvelli ákvæðisins jafnframt vera gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna og beri kæranda að endurgreiða atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 16. maí – 19. nóvember 2011, ásamt 15% álagi að upphæð samtals 852.011 kr.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. mars 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009, en hún var svohljóðandi til 4. september 2011:

 

„Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki litið svo á að hann hafi verið að vinna samhliða atvinnuleysisbótum þar sem hann hafi ekki getað lifað eingöngu af tekjum af sölu listaverkanna. Þá hafi listaverkin sem hann seldi ávalt verið undir frítekjumarki laga um atvinnuleysistryggingar. Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að kærandi auglýsti og seldi listaverk eftir sig á facebook síðu sinni, auk þess sem hann hélt úti heimasíðunni B og facebook síðu á tímabilinu frá 16. maí til 19. nóvember 2011 en á því tímabili þáði kærandi atvinnuleysisbætur.

 

Í þessu máli verður ekki fallist á að kærandi hafi verið að sinna tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar en telja verður tilfallandi vinnu þá atvinnustarfsemi sem fellur til með óreglubundnum hætti og standi að jafnaði stutt yfir hverju sinni en ekki yfir nokkra mánaða samfellt skeið eins og á við í þessu máli. Af þessum sökum kemur eingöngu til greina að beita 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt.

 

Þegar 60. gr. laganna er beitt í þessu tiltekna máli þarf að horfa til skilgreiningar á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b–lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Telja verður að starfsemi kærandi hafi verið það umfangsmikil að hann hafi uppfyllt skilyrði þess að teljast sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ákvæðisins á umræddu tímabili þar sem hann stundaði þá iðju (1) að mála, (2) halda málverkasýningar, (3) auglýsa starfsemina á opinberum vettvangi og (4) selja fáein málverk. Þetta gerði hann allt án þess að upplýsa Vinnumálastofnun fyrir fram um starfsemina.

 

Af framansögðu er ljóst að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Hann upplýsti Vinnumálastofnun ekki um að atvinnuleit hans hafi verið hætt. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að með framangreindri háttsemi hafi kærandi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að staðfesta þennan þátt hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Á tímabilinu 16. maí til 19. nóvember 2011 fékk kærandi greiddar 740.879  kr. í atvinnuleysisbætur og er krafa Vinnumálastofnunar í heild sinni 852.011  kr. Fallast verður á að kæranda beri að endurgreiða fjárhæðina.

 

Vinnumálastofnun var heimilt að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda tímabundið, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 18. nóvember 2011 og 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun var tekin eftir að kærandi fékk ráðrúm til að tjá sig um efni hennar, sbr. bréf Vinnumálastofnunar til kæranda dags. 12. desember 2012 þar sem ákvörðunin var tilkynnt honum. Eftir að annað skýringarbréf kæranda barst 14. desember 2011 hafnaði Vinnumálastofnun að taka málið upp aftur, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda dags. 22. desember 2011. Með vísan til framangreinds var réttilega staðið að hinni kærðu ákvörðun með tilliti til málsmeðferðareglna stjórnsýsluréttar, sbr. viðeigandi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sjá sérstaklega 10. og 13. gr. laganna.

 

Með vísan til framangreinds, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var á fundi stofnunarinnar 5. desember 2011, í máli A, þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 852.011 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta