Hoppa yfir valmynd
21. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 140/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 140/2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2023 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. desember 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 10. nóvember 2022, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. janúar 2023, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsmóður hans frá 1. desember 2021. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir framangreindri ákvörðun 24. janúar 2023 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. janúar 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. mars 2023. Með bréfi, dags. 13. mars 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 24. mars 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að aðalkrafa kæranda sé sú, með vísun til 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009, að óheimilt sé að krefja kæranda um greiðslu meðlags 12 mánuði aftur í tímann frá umsókn barnsmóður um greiðslu meðlags. Varakrafan sé sú að kæranda beri ekki að greiða meðlag fyrir umrætt tímabil þar sem hann hafi greitt meðlag fyrir það, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Engar athugasemdir séu gerðar við skyldu til greiðslu meðlags frá og með umsóknarmánuði barnsmóður.

Af bréfi Tryggingastofnunar megi ráða að niðurstaðan sé fyrst og fremst byggð á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017. Það sé mat kæranda að sá úrskurður sé rangur og að ekki sé heimilt að byggja á honum.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé meginreglan um greiðslu meðlags sú að hver sá sem fái úrskurð um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags. Sama eigi við ef lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur. Meginreglan sé því sú að meðlagsbeiðandi geti fengið meðlagsgreiðslur frá og með þeim tíma sem beiðni sé sett fram. Undantekningu frá þessari reglu sé að finna í 4. mgr. sömu lagagreinar þar sem fram komi að heimilt sé að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði.

Í úrskurði í máli nr. 312/2017 sé réttilega tilgreint að í 63. gr. laganna sé ekki að finna nánari skilyrði eða viðmið um það hvenær Tryggingastofnun beri að beita heimild 4. mgr. 63. gr. laganna. Af því tilefni hafi nefndin tekið til skoðunar lögskýringargögn og hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau bendi til þess að túlka skuli heimildina á þann hátt að Tryggingastofnun beri almennt að greiða aftur í tímann að því marki sem þörf sé á til að tryggja framfærslu barns ef meðlagsákvörðun kveði á um það.

Kærandi sé ósammála þessari niðurstöðu af að minnsta kosti þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi ber við greiningu lagatexta að beita hefðbundnum lögskýringum áður en gripið sé til lögskýringargagna sem séu fyrst og fremst lagatexta til fyllingar gangi önnur lögskýringarsjónarmið ekki í aðra átt.

Í öðru lagi telji kærandi að ályktanir nefndarinnar af lögskýringargögnum vera rangar.

Í þriðja lagi hafi nefndin tekið fram að þessi heimild til greiðslu aftur í tímann sé til að tryggja framfærslu barns.

Staða kæranda sé sú að samkomulag hafi verið um framfærslu barnsins og hafi kærandi tekið jafnan þátt í henni til móts við barnsmóður. Ekki hafi því verið vanhöld á framfærslu barnsins sem réttlæti þá ákvörðun stofnunarinnar að greiða meðlag 12 mánuði aftur í tímann.

Varðandi fyrstu ástæðuna þá sé 4. mgr. undantekning frá meginreglunni, það sé almenn lögskýringarregla að undantekningar skuli skýra þröngt með hliðsjón af meginreglum laga. Að auki sé túlkun Tryggingastofnunar verulega íþyngjandi ákvörðun en það sé einnig almenn lögskýringarregla að íþyngjandi ákvæði skuli túlka þröngt. Það megi vissulega halda því fram að ákvörðun Tryggingastofnunar sé ívilnandi gagnvart barnsmóður (eða barnsföður eftir atvikum, sbr. til dæmis úrskurður nefndarinnar í máli nr. 76/2021) en á það beri að líta að sá sem fari fram á meðlag hafi að öllu jöfnu haft færi á að gera það fyrr í tilvikum sem þessum. Það væri því eðlilegt að það væri þess aðila að rökstyðja hvers vegna réttlætanlegt ætti að vera að ákvarða meðlag afturvirkt.

Nefndin hafi réttilega bent á að í lögunum sé reglugerðarheimild til handa ráðherra, sett hafi verið reglugerð nr. 945/2009 þar sem settar hafi verið nánari reglur um hvernig skuli beita undantekningarreglunni. Meðal annars sú regla að almennt skuli ekki ákvarða meðlag aftur í tímann ef meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða. Þar sem þetta sé undantekningarregla, sem sé heimildarregla, hafi ráðherra opnað á þann möguleika að upp geti komið ástæður sem réttlæti frávik og ef unnt sé að rökstyðja slíkar ástæður þá sé heimildin til staðar.

Í þessu samhengi sé rétt að benda á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 312/2017. Ráðherra hafi ekki enn brugðist við þessari niðurstöðu með því að fella umrætt ákvæði úr reglugerðinni eða breyta því eins og honum bæri að gera væri ákvæðið andstætt lögum. Staðan sé sú að stjórnsýslunefnd, sem sé sjálfstæð í störfum sínum, en sem engu að síður heyri stjórnskipulega undir ráðuneytið, hafi úrskurðað að reglugerð sem ráðherra hafi sett sé andstæð lögum. Þegar ráðherra hafi sett reglugerð og hún hafi verið birt lögum samkvæmt sé hún bindandi bæði fyrir borgarana og ráðherrann sjálfann (og undirstofnanir hans). Reglugerð teljist bindandi réttarheimild að íslenskum rétti þar til henni sé breytt eða hún dæmd ólögmæt af dómstólum. Um nánara samspil ráðuneytis og úrskurðarnefndar velferðarmála þegar kemur að meintum meinbugum á lög og/eða reglugerðum og yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum megi vísa til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9790/2018.

Varðandi lögskýringar nefndarinnar á lögum nr. 67/1971 þá hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að þar verði ákvæðið túlkað á þá leið að almennt hafi átt að greiða í sex mánuði. Nefndin hafi komist að þessari niðurstöðu í raun án rökstuðnings þar sem að hún hafi tekið sérstaklega fram að í athugasemdum við frumvarp laganna sé ekki að finna athugasemdir eða skýringar á ákvæðinu. Orðalag um að tilgangur ákvæðisins hafi augljóslega verið sá að tryggja framfærslu barns í samræmi við yfirvaldsúrskurð breyti engu þar um. Megi vísa til þess að meðlagsbeiðandi hafi í hendi sér hvenær hann leggi sína beiðni fram. Það megi ætla að í flestum tilvikum, þegar ekki hafi verið óskað eftir meðlagi frá Tryggingastofnun, sé samkomulag um framfærslu barns og því ekki þörf á inngripi af hálfu opinberra aðila. Ef sú þörf sé fyrir hendi sé hægt að rökstyðja hana. Að auki sé augljóst að ef löggjafinn hefði ætlast til að almenna reglan væri sú að meðlagsbeiðandi ætti að fá meðlag 12 mánuði aftur í tímann, eða 6 mánuði eins og hafi verið fyrst, hefði einfaldlega átt að segja það berum orðum, til dæmis með orðinu „skal“. Þess vegna gangi þessi rökstuðningur nefndarinnar ekki upp. Varðandi tilvísun í lög nr. 40/1963 sé nærtækast að skýra þau eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laganna geti mæður sem hafi fengið úrskurð um meðlag með óskilgetnum börnum sínum snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið meðlagið greitt þaðan. Þar sem ekkert sé kveðið á um greiðslu aftur í tímann sé nærtækasti skýringarkosturinn að þetta gildi frá og með þeim tíma sem úrskurði sé framvísað.

Í þessu samhengi sé vert að skoða nánar umrædda grein laga nr. 40/1963 og hafa í huga tilvísun í bók Ármanns Snævarr, Almenn lögfræði, 1988, bls. 430, um að skyld lög verði að skýra með hliðsjón hvert af öðru. Eigi þetta ekki síst við þar sem athugasemdir löggjafans með þeim ákvæðum sem hér séu til skoðunar séu fátæklegar eins og nefndin hafi bent á. Samanburðarskýring á öðrum lagaákvæðum skipti því miklu máli til að fá fram raunverulegan vilja löggjafans en ekki órökstuddar ágiskanir úrskurðarnefndarinnar.

Í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 40/1963 segi að þegar Tryggingastofnun greiði meðlag samkvæmt 1. mgr. þá eigi hún endurkröfurétt á hendur barnsföður. Í 4. mgr. sömu greinar komi fram að verði vanskil af hálfu meðlagsskylds aðila skuli innheimta kröfuna hjá framfærslusveit hans og teljist þá fjárhæðin framfærslustyrkur veittur honum. Tryggingastofnun eignist kröfuna á hendur framfærslusveit föður. Í 5. mgr. greinarinnar komi fram að ef framfærslusveit vanræki að sinna kröfunni þá geti Tryggingastofnun krafið ríkissjóð um greiðslu. Í lokamálsgrein greinarinnar sé tiltekið að ákvæði hennar skuli gilda eftir því sem við geti átt um greiðslu meðlags sem fráskildar konur fái úrskurðað með börnum sínum.

Í framangreindu regluverki sé staðan raunverulega sú að ef barnsfaðir sé ekki borgunarmaður fyrir meðlagi þá sé gert ráð fyrir að á endanum sé það ríkissjóður sem beri kostnaðinn. Þarna sé ekki verið að ræða um greiðslur aftur í tímann heldur eingöngu frá og með þeim tíma sem úrskurður hafi verið lagður fram. Það skipti máli að hafa þetta í huga þegar lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga frá 1970 séu skoðuð.

Eins og úrskurðarnefndin hafi bent á þá sé ekki að finna athugasemdir eða skýringar á 2. mgr. 72. gr. laga nr. 67/1971. Í skýringum við greinina sé þó bent á að hún sé samhljóða frumvarpi sem liggi fyrir Alþingi og fylgi frumvarpi um Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna meðlaga.

Í athugasemdum við frumvarp sem hafi orðið að lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga sé í inngangi gerð grein fyrir því fyrirkomulagi sem lýst hafi verið í 79. gr. laga nr. 40/1963. Í framhaldinu sé því lýst að í framkvæmd sé það svo að Tryggingastofnun sendi barnsfeðrum bréflega kröfu um endurgreiðslu meðlags en aðhafist ekkert frekar gagnvart þeim. Niðurstaðan verði því sú, að ekki innheimtist nema hluti útlagðs kostnaðar vegna greiddra barnsmeðlaga, en hinn hlutinn sem ekki innheimtist lendi á sveitarsjóði.

Vakin sé athygli á tilvísun í inngangi athugasemda með frumvarpi til laga um Innheimtustofnun í fyrirkomulagið sem sé gert ráð fyrir samkvæmt 79. gr. laga nr. 40/1963. Eins og fram hafi komið sé þar ekki að finna neina heimild til að greiða meðlag afturvirkt. Í athugasemdum við frumvarpið segi meðal annars að það feli í sér gagngerðar breytingar á lagaákvæðum um meðlagsgreiðslur en engar breytingar verði á núverandi fyrirkomulagi, að því er barnsmæður snerti. Þær geti eftir sem áður snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið greidd meðlög gegn framvísun yfirvaldsúrskurðar eða skilnaðarleyfisbréfs án tillits til þess hvort meðlögin innheimtist hjá barnsfeðrum eða ekki.

Þarna verði að túlka orð löggjafans í samhengi við það sem hann hafi þegar sagt, þ.e. að hafi safnast fyrir kröfur sem nemi allháum fjárhæðum geti reynst örðugt að innheimta þær, ásamt þeim sem síðar bætast við þar sem fjárhag margra barnsfeðra sé þannig háttað að þeir séu ekki aflögu færir nema smátt og smátt af vinnutekjum sínum.

Í framangreindu ljósi sé túlkun úrskurðarnefndarinnar í úrskurði nr. 312/2017 um að ávallt skuli gera ráð fyrir að meðlagsgreiðendum verði gert að greiða meðlag afturvirkt í fullkominni andstöðu við framangreindan vilja löggjafans.

Löggjafinn hafi sjálfur tiltekið að staða barnsmæðra eigi ekki að breytast með hinum nýju lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hins vegar sé verið að bregðast við lélegum innheimtum hjá barnsfeðrum með því að breyta fyrirkomulagi innheimtunnar. Með nýju Innheimtustofnuninni hefjist innheimtan fyrr hjá barnsfeðrum og þar með sé ekki verið að koma þeim í þá stöðu að vangreidd meðlög safnist upp.

Sé greinin túlkuð eftir orðanna hljóðan, þ.e. að þetta sé heimilt en ekki skylt, sé ákvæðið rökrétt. Ef barnsmóðir, eða barnsfaðir, geti sýnt fram á að hitt foreldri hafi ekki tekið þátt í framfærslu eða það sem ekki fari fram á meðlag sé mun tekjuhærra þá sé eðlilegt að það sé skoðað að úrskurða meðlag aftur í tímann. Enda ef slík skoðun fari málefnalega fram ætti ekki að vera hætta á því að verið sé að mismuna foreldrum með einhverjum hætti eða íþyngja því greiðsluskylda svo mjög að það teljist vart aflögufært.

Það sé rétt að geta þess að lög nr. 67/1971 um almanntryggingar og lög nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi verið samþykkt sama dag. Þannig að þó það sé rétt hjá úrskurðarnefndinni að ekki sé að finna sérstakar athugasemdir eða skýringar með 72. gr. laga nr. 67/1971 þá liggi vilji löggjafans skýrt fyrir í umsögn um lög nr. 54/1971. Það hafi því verið óþarfi af hálfu úrskurðarnefndarinnar að giska út í loftið um löggjafarviljann. Það hafi ekki verið að gera neinar breytingar á því fyrirkomulagi sem gilt hafði frá 1963.

Tilvísun nefndarinnar í frumvarpið sem hafi orðið að lögum nr. 85/1980 sé skrítin. Nefndinni hafi tekist að túlka þann texta á þann hátt að hann styðji við þá framkvæmd að ávallt skuli túlka heimildarákvæðið á þann hátt að það skuli greiða meðlag aftur í tímann. Sé texti úrskurðarnefndarinnar skoðaður vel og hann borinn saman við greinargerðina sé ekki annað að sjá en að nefndin hafi misskilið textann með mjög alvarlegum afleiðingum. Nægi í því efni að vísa sérstaklega til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 76/2021.

Í greinargerð með lögum nr. 85/1980 segi að þau nýmæli felist í 2. mgr. greinarinnar að verið sé að gera Tryggingastofnun kleift að hefja greiðslu meðlags án þess að meðlagsúrskurður liggi fyrir, svo fremi sem barnsfaðernismál hafi í raun verið hafið. Sé tiltekið sérstaklega að með þessu sé verið að horfa til hagsmuna einstæðra mæðra með því að víkja til hliðar þeirri varfærnislegu afgreiðslu meðlaga sem hafi verið við líði áður í þessum tilvikum. Sé tiltekið sérstaklega að með þessu fái þær fyrirstöðulaust greiddan þann hluta sem föður sé ætlaður í framfærslu barns. Þarna sé sem sagt að meginstefnu gert ráð fyrir að í barnsfaðernismáli takist að feðra barn þannig að fyrir hendi sé framfærsluskylt foreldri til staðar, gagnstætt því sem eigi við samkvæmt 4. mgr. 14. gr. eins og hún hafi verið 1971 eftir breytingu með lögum nr. 96/1971 frá 21. desember 1971 (nú 4. mgr. 20. gr.). Síðan sé tilgreint sérstaklega að aðeins lítið brot þeirrar fjárhæðar sem til greiðslu meðlaga gangi árlega kynni ekki að fást endurgreitt þar eð ekki tækist að feðra barn og meðlagsúrskurður yrði því ekki upp kveðinn. Sé tiltekið að gera yrði ráð fyrir því að nokkur hluti þess sem þannig yrði ekki endurkræfur hefði hvort sem er að óbreyttum reglum fallið undir 4. mgr. 14. gr. um barnalífeyri með ófeðranlegum börnum.

Enn fremur segi í greinargerðinni að á þessum tíma hafi 31 mál verið í gangi sem hafi verið rekið með afskiptum og aðstoð utanríkisráðuneytisins og sendiráða Íslands erlendis. Sagt sé að það vilji oft dragast árum saman að slík mál á hendur útlendum barnsfeðrum séu til lykta leidd. Í raun sé það fyrst og fremst vandi þessara kvenna sem leystur yrði með þessari lagabreytingu.

Þarna segi löggjafinn skýrum orðum að sú efnisbreyting sem eigi sér stað með þessari lagabreytingu snúi að þessum vanda kvenna sérstaklega. Framvegis verði nóg að höfða barnsfaðernismál en þurfi ekki að bíða lykta þess til að þessar konur eigi rétt á því að fá greidd meðlög frá Tryggingastofnun. Fari svo í einstökum tilvikum að ekki takist að feðra barn lendi það einfaldlega á ríkinu skv. 4. mgr. 14. gr. laganna.

Rétt sé að gera grein fyrir þeirri breytingu sem hafi verið gerð á lögum nr. 67/1971 með lögum nr. 96/1971. Þá hafi verið bætt inn í 14. gr. laganna nýrri 4. mgr. sem sé svohljóðandi:

„Ef ekki reynist gerlegt að feðra barn, er heimilt að greiða með því barnalífeyri. Með umsókn um lífeyri fyrir ófeðrað barn skulu fylgja málsskjöl varðandi faðernismálið, og skal tryggingarráð meta, hvort þau skjöl eru fullnægjandi til þess að greiðsla sé heimil“.

Það sé 4. mgr. 14. gr. laga um almannatryggingar sem vísað sé til í greinargerð með lögum nr. 85/1980. Þessi grein sé að ákveðnu leyti sérstök. Eins og henni hafi verið beitt, sbr. umsögn í greinargerð með lögum nr. 85/1980, þá hafi það verið tryggingarráð sem hafi metið það hvort málsskjöl varðandi faðernismál með umsókn um lífeyri fyrir ófeðruð börn teldust fullnægjandi til að greiðsla væri heimil. Þarna hafi það verið lagt í hendur tryggingarráðs að leggja á það sitt mat áður en niðurstaða fengist í barnsfaðernismálinu sjálfu. Eins og segi í greinargerðinni hafi legið fyrir að ekki tekist að feðra nokkur börn hafi, en tryggingarráð hefði samt ekki heimilað beitingu 4. mgr. 14. gr. Með breytingunni í 2. mgr. greinarinnar fælist að nægilegt væri að höfða barnsfaðernismál til að réttur til greiðslu meðlags stofnaðist. Þar með þurftu mæður í þessari stöðu ekki lengur að vera komnar upp á mat tryggingarráðs í þessum tilvikum til að eiga rétt til greiðslna frá Tryggingastofnun.

Rétt sé að gefa orðum löggjafans í greinargerðinni sérstakan gaum þegar fjallað sé um þau börn sem ekki takist að feðra. Eins og fram hafi komið hafi mæður ekki lengur þurft að bíða eftir niðurstöðu eða mati tryggingarráðs til að eiga rétt á greiðslum. Löggjafinn hafi hins vegar bent á í greinargerðinni að þessar breyttu reglur feli þó það í sér að nokkur börn hafi ekki tekist að feðra og tryggingarráð hafi samt ekki af einhverjum ástæðum heimilað beitingu 4. mgr. 14. gr. laganna þegar tryggingarráðið hafði lagt mat á málsskjöl. Það séu þessi börn sem löggjafinn segi berum orðum að skylt sé að greiða meðlag með 12 mánuði aftur í tímann og áfram. Löggjafinn hafi síðan bætt við að eftir lagabreytinguna 1980 þá eigi 4. mgr. 14. gr. því aðeins við að ekki sé unnt að höfða barnsfaðernismál af einhverjum ástæðum.

Framangreind tilvísun í greinargerð með lögum nr. 85/1980 skipti höfuð máli. Löggjafinn taki skýrt fram að skyldan til greiðslu meðlags aftur í tímann eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar ekki takist að feðra barn. Með einfaldri gagnályktun liggi fyrir að ekki sé skylda fyrir hendi til þess að ákveða að greiðsla meðlags skuli ávallt gilda afturvirkt þegar barn sé feðrað.

Orðalagið í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 312/2017 sýni svo ekki verður um villst að nefndin hafi misskilið greinargerðina:

Þótt orðalag í greinargerðinni eigi við um þær aðstæður þar sem ekki hafi tekist að feðra börn telur úrskurðarnefnd að löggjafinn hafi litið sömu augum á greiðslu meðlags þegar fyrir liggur meðlagsákvörðun, enda er ekki að finna efnislegan greinarmun á greiðslu meðlags samkvæmt yfirvaldsúrskurði og vottorði um höfðun barnsfaðernismáls í ákvæðinu.

Það sé rétt hjá úrskurðarnefndinni að löggjafinn hafi eftir breytinguna árið 1980 ekki gert greinarmun á ákvörðun um greiðslu meðlags hvort heldur samkvæmt 1. eða 2. mgr. 73. gr. laga nr. 85/1980. Það hafi hins vegar ekkert með ummælin að gera í greinargerðinni um þau tilvik þegar hin endanlega niðurstaða í barnsfaðernismáli verði sú að ekki takist að feðra barn. Eingöngu í þeim tilvikum segi löggjafinn að greiða skuli meðlag 12 mánuði aftur í tímann.

Framangreind regla sé fullkomlega rökrétt og eðlileg. Tryggingastofnun hafi heimild til að ákvarða meðlagsgreiðslur aftur í tímann, allt að 12 mánuðum. Í ljósi lögskýringargagna hljóti stofnunin að þurfa að leggja sjálfstætt mat á aðstæður allar. Telji Tryggingastofnun að meðlagsbeiðandi hafi einn staðið að framfærslu barns og að það foreldri sem ekki hafi séð um forsjána sé ekki svo illa statt fjárhagslega að ákvörðun um greiðslu meðlags aftur í tímann raski ekki svo fjárhagslegri stöðu þess foreldris sé eðlilegt að stofnunin nýti sér heimildina. Í þeim tilvikum þar sem ekki hafi tekist að feðra barn sé engum föður til að dreifa til að taka þátt í framfærslunni. Í þeim tilvikum hafi löggjafinn ákveðið að móðirin njóti skilyrðislaust, og án mats Tryggingastofnunar, greiðslna aftur í tímann á kostnað ríkisins.

Í þriðja lagi hafi úrskurðarnefndin tekið fram að hún telji að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann að því marki „sem þörf er á til að tryggja framfærslu barns ef meðlagsákvörðun kveður á um það.

Þarna sé lykilatriðið hagsmunir barnsins, þ.e. „sem þörf er á til að tryggja framfærslu barns.“ Þarna hljóti Tryggingastofnun að þurfa að rannsaka og upplýsa þær aðstæður sem viðkomandi barn búi við. Kanna þurfi hvort það hafi notið framfærslu af hálfu þess foreldris sem fari ekki með forsjána og þá með þátttöku í greiðslu kostnaðar við framfærsluna. Af þeim úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem skoðaðir hafi verið þá verði að segja að sú rannsókn virðist öll hafa verið í skötulíki og virðist nefndin almennt ekki taka mark á greiðslum hins foreldris nema ef um sé að ræða mánaðarlegar greiðslur sem millifærðar séu á reikning móður með skýringunni „greiðsla meðlags“.

Í tengslum við varakröfu kæranda fylgi með kæru afrit af greiðslum sem hann hafi innt af hendi til barnsmóður sinnar. Að auki hafi hann greitt um 11.000 kr. á mánuði vegna skólamáltíða. Ef Tryggingastofnun hefði fullnægt rannsóknarskyldu sinni hefði hún væntanlega getað fengið þessar upplýsingar staðfestar af barnsmóður hans. Þá um leið hefði stofnunin væntanlega fengið staðfest að kærandi og barnsmóðir hans hafi samið upphaflega á þann veg að hún myndi halda öllum barnabótum en að öðru leyti myndu þau skipta kostnaði á þann hátt að kærandi borgaði fyrir frístund, sem sé um 20.000 kr. á mánuði, og skólamáltíðir að fjárhæð um 11.000 kr. á mánuði. Að auki hafi hann greitt fyrir sumarnámskeið. 

Að lokum sé þess getið að með þessari afstöðu í úrskurði nr. 312/2017, hafi nefndin í raun gert Tryggingastofnun að einhvers konar „handrukkara“ fyrir hönd meðlagsbeiðenda. Að auki fari engin sjálfstæð skoðun fram af hálfu stofnunarinnar hvernig standi á því að meðlagsbeiðandi hafi ekki komið fyrr fram með beiðni sína þegar fyrir liggi að það hafi verið hægt, jafnvel árum saman. Það sé rétt að minna á að 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sé væntanlega sett til þess meðal annars að bregðast við þessum aðstæðum.

Í þessu samhengi megi einnig benda á ummæli umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 9790/2018 að rökin að baki því að borgararnir geti fengið ákvarðanir endurskoðaðar innan stjórnsýslunnar lúti, rétt eins og dómstólaleiðin, að auknu réttaröryggi, en að auki eigi þar almennt að vera um að ræða tiltölulega einfalda leið að því er varði form og án kostnaðar fyrir borgarana. Þá hafi umboðsmaður tekið sérstaklega fram að sá veigamikli munur á stjórnsýsluleiðinni og að fara með mál fyrir dómstóla sé að í stjórnsýslunni hvíli sú skylda á því stjórnvaldi sem fari með málið að sjái til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Að auki verði ekki annað séð en að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga sé brotin með þeirri túlkunaraðferð sem úrskurðarnefndin hafi valið að beita.

Kærandi telji að í máli hans hafi þessar reglur, þ.e. um fullnægjandi rannsókn og meðalhóf, verið brotnar. Engin sérstök rannsókn hafi átt sér stað á því hvernig tilhögun á framfærslu barns hafi verið háttað áður en barnsmóðir hans hafi ákveðið að óska eftir milligöngu um greiðslu meðlags. Afleiðingin hafi verið sú að kærandi taki enn að hluta til þátttöku í framfærslu barnsins með beinum fjárútlátum mánaðarlega auk þess að greiða mánaðarlega fullt meðlag. Að auki skuldi kærandi nú 600.000 kr. vegna greiðslu meðlags 12 mánuði aftur í tímann. Það sé fyrir tímabil þar sem hann hafi tekið fullan þátt í framfærslu barnsins. Sjálfur sé kærandi í þeirri stöðu að hafa stofnað nýja fjölskyldu og standi í því að búa þeirri fjölskyldu heimili með því að gera upp gamalt húsnæði. Því til viðbótar sé barnsmóðir hans komin í sambúð þannig að hennar aðstæður séu ágætar. Auk þess sé kærandi nýkominn úr námi og tekjur séu í samræmi við það. Árið 2021 hafi samtals tekjurnar verið undir 4 milljónum og árið 2022 hafi tekjurnar verið rúmar 6 milljónir. Kærandi geti ekki betur séð en að þessi aðstaða nú sé nákvæmlega sú sem löggjafinn árið 1971 hafi verið að bregðast við og reyna að koma í veg fyrir.

Af framangreindri umfjöllun megi glöggt sjá að með 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 hafi ekki verið að setja nein viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki einhvern lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun. Þvert á móti sé verið að bregðast við þeim aðstæðum að meðlagsbeiðandi geti ekki misnotað Tryggingastofnun. Eitt gleggsta dæmið þar um í úrskurðarsafni nefndarinnar sé áður tilvitnaður úrskurður nr. 76/2021 og að sínu leyti úrskurður nr. 306/2021 en niðurstaða þess máls orki mjög tvímælis í ljósi málavaxta þess að teknu tilliti til efnisreglu 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Aðal- og varakrafa séu hér með ítrekaðar og skorað sé á nefndina að falla frá því fordæmi sem hún hafi gefið með úrskurði nr. 312/2017. Að öðrum kosti verði kæranda nauðugur einn kostur að leita til umboðsmanns Alþingis eða til dómstóla eftir atvikum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 24. mars 2023, kemur fram að það sé rangt hjá Tryggingastofnun að ákvörðunin hafi verið byggð á faglegum sjónarmiðum, gildandi lögum og reglugerðum. Það hafi verið útskýrt í kæru af hverju svo hafi ekki verið. Það hafi engin tilraun verið gerð af hálfu stofnunarinnar að bregðast við rökstuðningi kæranda.

Í umsókn barnsmóður kæranda hafi hún merkt við að engin meðlög hafi verið greidd í búsetulandi, það sé rangt og það hafi engin tilraun verið gerð til að rannsaka það nánar af hálfu Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með dóttur þeirra frá 1. desember 2021.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 5. janúar 2023, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. desember 2021, með dóttur þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 10. nóvember 2022 um meðlagsgreiðslur frá 1. nóvember 2021 ásamt staðfestingu á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlag, dags. 14. september 2016, þar sem fram komi að kærandi skuli greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. október 2016 til 18 ára aldurs. Kærandi hafi andmælt ákvörðun Tryggingastofnunar þann 24. janúar 2023 sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 30.janúar 2023.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en séu talin upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlag, dags. 14. október 2016, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður sinnar. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður um meðlag frá og með 1. desember 2021.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina, í allt að 12 mánuði aftur í tímann.

Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu um meðlag til barnsmóður kæranda frá 1. desember 2021 eins og óskað hafi verið eftir í umsókn og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort að barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort að greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundin rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019, 59/2020 og 76/2021. Tryggingastofnun sé bundin niðurstöðum úrskurðarnefndar velferðarmála í afgreiðslu sambærilegra mála.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að afgreiðsla á máli kæranda, þ.e. að breyta ekki ákvörðun sinni vegna andmæla kæranda, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun byggðist á faglegum sjónarmiðum, gildandi lögum og reglugerðum ásamt sambærilegum fordæmum úrskurðarnefndar í velferðarmálum. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu á kærðri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. desember 2021.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þágildandi 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Í þágildandi 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett með stoð í því lagaákvæði, sbr. þágildandi 70. gr. laganna. Fjallað er um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann í 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þá segir í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra með rafrænni umsókn þann 10. nóvember 2022. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli samkomulags Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 14. september 2016. Samkvæmt samkomulaginu ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. október 2016 til 18 ára aldurs barnsins.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina, í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær lögformlega ákvörðun um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt ákvörðuninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af orðalagi þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að þágildandi ákvæði 4. mgr. 63. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017.

Í úrskurðinum leit úrskurðarnefndin til þess að í lögum nr. 40/1963 um almannatryggingar var kveðið á um það í 79. gr. að mæður, sem fái úrskurð yfirvalds um meðlag með börnum sínum, gætu snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið meðlagið greitt þar til barnið næði 16 ára aldri. Í ákvæðinu var ekki að finna umfjöllun um við hvaða tímamark Tryggingastofnun bæri að miða greiðslur. Með lögum nr. 67/1971 voru sett ný lög um almannatryggingar. Þar var í 2. mgr. 72. gr. laganna kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að greiða aftur í tímann. Í ákvæðinu sagði:

„Tryggingastofnuninni er ekki heimilt að greiða meðlög lengra aftur í tímann en 6 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar, sem yfirvaldsúrskurður er afhentur stofnuninni, nema um sérstakar ástæður sé að ræða, sem barnsmóðir verður ekki talin eiga sök á, og getur þá tryggingaráð úrskurðað meðlagsgreiðslur allt að 18 mánuði aftur í tímann.“

Í athugasemdum við frumvarp laganna er ekki að finna athugasemdir eða skýringar á ákvæðinu. Tilgangur þess var þó augljóslega sá að tryggja framfærslu barns í samræmi við yfirvaldsúrskurð. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður þágildandi ákvæði túlkað á þá leið að Tryggingastofnun hafi almennt borið að greiða meðlag allt að 6 mánuði aftur í tímann í samræmi við yfirvaldsúrskurð, talið frá byrjun þess mánaðar sem hann var afhentur stofnuninni. Stofnunin hafi þó haft heimild til þess að greiða 18 mánuði aftur í tímann þegar um sérstakar ástæður hafi verið að ræða.

Almannatryggingalögunum var því næst breytt með breytingarlögum nr. 85/1980 en tilefni lagabreytinganna var meðal annars að bæta við því nýmæli að heimilt yrði að hefja greiðslu meðlags án þess að meðlagsúrskurður lægi fyrir, svo fremi að barnsfaðernismál væri í raun hafið. Þá var heimild Tryggingastofnunar til greiðslu meðlags aftur í tímann breytt og hefur ákvæðið síðan þá verið að mestu samhljóða. Eftir breytinguna hljóðaði ákvæðið svo:

„Tryggingastofnun er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar, sem yfirvaldsúrskurður eða vottorð um höfðun barnsfaðernismáls berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 14. gr. ekki við.“

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/1980 er fjallað um að ekki hafi tekist að feðra nokkur börn „en tryggingaráð samt ekki heimilað beitingu fyrrnefndrar 4. mgr. 14. gr. laganna“, sem kvað á um að heimilt væri að greiða barnalífeyri þegar ekki reyndist gerlegt að feðra barn. Í kjölfarið segir í greinargerðinni: „Með þessum börnum yrði nú skylt að greiða meðlag 12 mánuði aftur í tímann og áfram […]“. Þótt orðalagið í greinargerðinni eigi við um þær aðstæður þar sem ekki hafi tekist að feðra börn telur úrskurðarnefnd að löggjafinn hafi litið sömu augum á greiðslu meðlags þegar fyrir liggur meðlagsákvörðun, enda er ekki að finna efnislegan greinarmun á greiðslu meðlags samkvæmt yfirvaldsúrskurði og vottorði um höfðun barnsfaðernismáls í ákvæðinu.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ráða megi af orðalagi þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga, sbr. þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, að stofnuninni beri almennt að greiða meðlag aftur í tímann ef meðlagsákvörðun kveður á um það en þó ekki lengra en í 12 mánuði. Að mati nefndarinnar styður framangreind lagaþróun og lögskýringargögn þá niðurstöðu.

Að mati nefndarinnar hafa lög ekki að geyma heimild til að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann. Þá telur úrskurðarnefndin að reglugerðarheimildin í þágildandi 70. gr., sbr. þágildandi 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, feli ekki í sér heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Kærandi telur úrskurðarnefndina ekki hafa lagaheimild til að taka afstöðu til þess hvort ákvæði reglugerðar nr. 945/2009 skorti lagastoð. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Verkefni nefndarinnar er að úrskurða um réttindi einstaklinga samkvæmt lögunum og þar ganga ákvæði laganna framar reglugerðum. Úrskurðarnefndin telur að það falli innan valdsviðs hennar að taka afstöðu til þess hvort þau ákvæði reglugerða sem á reynir í einstökum málum hafi fullnægjandi lagastoð, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4579/2005.

Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu staðfest samkomulag Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. september 2016, sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með dóttur þeirra frá 1. október 2016 til 18 ára aldurs. Í ljósi þess bar Tryggingastofnun að fallast á umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. desember 2021. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna aftur í tímann með vísan til þess að kærandi hafi greitt barnsmóður sinni fjárhæðir reglulega og greitt reikninga vegna dóttur þeirra.

Í kæru er einnig byggt á því að við meðferð málsins hafi Tryggingastofnun ekki gætt að rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 10. gr. stjórnsýslulaga segir að stjórnvald skuli sjái til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í 12. gr. stjórnsýslulaga segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með vægari móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að afgreiðsla Tryggingastofnunar í máli þessu sé í samræmi við þágildandi 1. og 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Ekkert liggur fyrir í máli þessu sem gefur til kynna að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknar-, og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, enda er til staðar skýrt lagaákvæði sem skyldar Tryggingastofnun til að samþykkja milligöngu meðlagsgreiðslna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. desember 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. desember 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta