Hoppa yfir valmynd
7. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 487/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 487/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21070048, KNU21070049, KNU21080038 og KNU21080039

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í málum

[...], [...] og barna þeirra

 

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumálum nr. KNU21030077 og KNU21030078, dags. 8. júlí 2021, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, frá 8. mars 2021, um að taka umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgari Kína (hér eftir K), einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir M), og barna þeirra, um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kærendum þann 12. júlí 2021 og þann 19. júlí 2021 barst beiðni kærenda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 26. júlí 2021 barst kærunefnd greinargerð kærenda og fylgigögn.

Kærendur krefjast þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan þau fari með mál sín fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá byggir endurupptökubeiðni kærenda á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur vísa til fyrirliggjandi gagna málsins er varðar málsatvik auk þeirra gagna og upplýsinga sem fylgja greinargerð þeirra. Kærendur byggja á því að við meðferð máls þeirra hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga verið brotnar, mat stjórnvalda hafi verið byggt á ófullnægjandi og röngum upplýsingum og að nú liggi fyrir frekari upplýsingar og gögn sem lögð hafi verið fram með beiðni þeirra, sem kærunefnd sé skylt að taka tillit til við heildarmat sitt. Að mati kærenda brjóti niðurstaða stjórnvalda jafnframt gegn hagsmunum þeirra sem einstaklinga sem njóti verndar samkvæmt 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, ákvæðum laga um útlendinga og málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Kærendur byggja á því að kærunefnd hafi hvorki framkvæmt fullnægjandi mat á aðstæðum þeirra né byggt á réttum upplýsingum þegar hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að endursenda þau til Svíþjóðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). M hafi greint frá því að hann sé ríkisfangslaus, af palestínskum uppruna en hafi fengið útgefið palestínskt ferðaskilríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar sé byggt á því að hann sé palestínskur ríkisborgari og ekkert fjallað um málsástæðu hans er varðar ríkisfangsleysi. Kærendur telji þetta atriði fela í sér brot gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda. Kærendur vísa í þessu samhengi til útdrátta úr alþjóðlegum skýrslum sem þau hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. M sé ríkisfangslaus einstaklingur sem veita skuli alþjóðlega vernd í samræmi við IV. kafla laga um útlendinga. Það að stjórnvöld hafi ekki komist að því og raunar ekki rannsakað þá málsástæðu hans telji kærendur fela í sér brot gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem að réttarvernd hans hafi ekki verið tryggð samkvæmt öðrum ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.m.t. 11. og 13. gr. þeirra. Að mati kærenda hafi verið fullt tilefni til að kærunefnd gerði athugasemdir við þá málsmeðferð sem umsókn M hafi fengið hjá Útlendingastofnun. Hvergi komi fram að frásögn M um ríkisfangsleysi sé ótrúverðug en stjórnvöldum hafi borið skylda til að leggja sérstakt mat á fullyrðinguna, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi þessa byggi kærendur á því að málsmeðferðin sem umsókn M hafi fengið hafi ekki verið í samræmi við kröfur stjórnsýsluréttar um góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Kærendur byggja einnig á því að við meðferð umsóknar þeirra hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hafi ekki verið með fullnægjandi hætti leyst úr málsástæðum þeirra um að fjölskyldan muni aðskiljast verði þau endursend til Svíþjóðar. Kærendur byggja á því að mat stjórnvalda er þetta varði hafi verið ófullnægjandi og brot á reglunni um óheimilar endursendingar sem og skyldum til að stuðla að einingu fjölskyldunnar samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu samhengi vísa kærendur til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011 og máli M.A. gegn Danmörku (nr. 6697/18) frá 9. júlí 2021. Kærendur byggi á því að með því að leggja hvorki mat á fullyrðingar þeirra um ómöguleika M til aðgangs að Kína né kalla eftir upplýsingum frá sænskum stjórnvöldum um að þau hafi metið öruggt að hann geti komist til Kína með fjölskyldu sinni hafi stjórnvöld brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga sem og réttinum til fjölskyldulífs.

Þá hafi kærunefnd ekki tekið tillit til viðkvæmrar stöðu fjölskyldunnar með tilliti til Covid-19 faraldursins en íslensk stjórnvöld hafi mælt gegn ferðalögum óbólusettra einstaklinga. Kærendur vísa þessu til stuðnings til ummæla sóttvarnarlæknis og yfirlæknis á sóttvarnarsviði Embættis landlæknis auk 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 24. gr. laga um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013.

Kærendur byggja beiðni sína um frestun réttaráhrifa á því að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið haldin verulegum annmörkum sem varði ógildingu ákvörðunarinnar sem ekki hafi verið bætt úr við meðferð mála þeirra hjá kærunefnd útlendingamála. Þá byggja aðilar á því að þau hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð hjá íslenskum stjórnvöldum í skilningi 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Kærendur vísa einnig til þess að endursending þeirra til Svíþjóðar geti haft í för með sér að fjölskyldan sundrist sem feli í sér brot gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vísi kærendur til stöðunnar sem sé uppi vegna Covid-19 faraldursins og að tímamark ákvörðunar um endursendingu til Svíþjóðar samræmist ekki skyldu stjórnvalda til að tryggja heilbrigði þeirra.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

I. Krafa um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 8 júlí 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lögðu kærendur fram tiltekin gögn, s.s. útdrætti úr alþjóðlegum skýrslum. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar, ásamt framangreindum fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Við meðferð mála kærenda lá þegar fyrir að þau hefðu fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og hvaða málsmeðferð þau hafi fengið hjá yfirvöldum þar í landi og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð í framangreindum úrskurði kærunefndar í málum kærenda. Þar komi m.a. fram að einstaklingar sem hafi fengið lokasynjun á máli sínu í Svíþjóð geti lagt fram viðbótarumsókn og að engin takmörk séu á því hversu oft umsækjandi geti lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Einnig komi fram að kærendur hafi raunhæf úrræði í Svíþjóð, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að því er varðar málsástæður kærenda um ríkisfangsleysi og að fjölskyldan eigi á hættu að verða aðskilin verði hún endursend til Svíþjóðar benti kærunefnd sérstaklega á í úrskurðinum að Svíþjóð beri ábyrgð á að meðferð umsókna kærenda og að hugsanleg endursending þeirra samræmist 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé Svíþjóð bundið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kærenda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Þá er það mat kærunefndar að í greinargerð kærenda sé að öðru leyti byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og þau byggðu á og báru fyrir sig í kærumálum sínum til kærunefndar, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 8. júlí 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurupptöku málsins því hafnað.

ii. Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Af beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa má ráða þá afstöðu þeirra að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að þau skuli yfirgefa landið takmarki möguleika þeirra til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að vera kærenda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem þau höfða til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hafa kærendur möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt þau séu ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna kærenda að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli kærenda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði þeirra fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem þeim eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2434/2017 og E-6830/2020.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kærenda varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsóknum þeirra um efnismeðferð. Fyrir liggur að stjórnvöld í viðtökuríkinu hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kærendum og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í málum kærenda að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kærenda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að þeim sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar bera stjórnvöld viðtökuríkis ábyrgð á umsókn kærenda um alþjóðlega vernd og er skylt að tryggja að þau verði ekki endursend í slíkar aðstæður annars staðar. Kærunefnd telur að gögn sem kærendur lögðu fram með beiðni um frestun réttaráhrifa séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að þau breyti niðurstöðu nefndarinnar varðandi þetta mat. Í samræmi við framangreint er það mat kærunefndar að kærendur eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi þau aftur til viðtökuríkis.

Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kærenda. Ekkert í gögnum málsins, þ.m.t. þeim gögnum sem fylgdu beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa, bendir til þess að aðstæður kærenda eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á kærendum til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau gögn sem fylgdu beiðni um frestun réttaráhrifa. Eftir skoðun á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmörkum sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Í úrskurði kærunefndar í máli kærenda var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barna kærenda. Í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til viðtökuríkis samrýmdist hagsmunum barnanna þegar litið væri m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá var það einnig mat kærunefndar að gögn málsins bentu ekki til þess að hætta væri á að fjölskyldan yrði aðskilin við meðferð máls þeirra í viðtökuríki.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli þeirra.

Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi, m.a. í ljósi Covid-19 faraldursins. Kærendum er leiðbeint um að berist þeim boð um flutning til viðtökuríkis er þeim heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.

Athygli kærenda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra ástæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kærenda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa er hafnað.

 

The appellants request to re-examine the case is denied.

The appellants request for suspension of legal effects is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta