Nr. 101/2025 Úrskurður
Hinn 13. febrúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 101/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24090170
Kæra [...]
Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 26. september 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn karlmanns að nafni [...], fd. [...], ríkisborgara Rússlands (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og vísa honum frá landinu.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir auk þess kröfu um veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. og 76. gr. laga um útlendinga.
Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 19. júlí 2024. Þar sem kærandi var með vegabréfsáritun til Ítalíu var send beiðni til þarlendra yfirvalda 23. júlí 2024 um viðtöku kæranda og umsóknar hans á grundvelli 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 24. júlí 2024, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun þar í landi. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 8. ágúst 2024, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þá var kærandi boðaður í framhaldsviðtal hjá Útlendingastofnun 15. ágúst 2024 vegna gruns um að hann væri þolandi mansals hér á landi. Útlendingastofnun ákvað 19. september 2024 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Það var mat Útlendingastofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur til endursendingarríkis. Þá taldi Útlendingastofnun að ekki væri grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. eða 76. gr. laga um útlendinga og var honum synjað um dvalarleyfi á þeim grundvelli. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 26. september 2024 og barst greinargerð kæranda 9. október 2024 ásamt fylgigagni.
Greinargerð til kærunefndar
Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og mat lagt á öll sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands með millilendingu á Ítalíu. Kærandi hafi dvalið á flugvellinum á Ítalíu í einn sólarhring og hafi því ekki stoppað þar í landi. Ástæða þess að hann hafi farið í gegnum Ítalíu sé sú að Ítalía er eina Evrópuríkið sem veiti rússneskum ríkisborgurum vegabréfsáritun en hún sé nú runnin út. Kærandi hafi haft í hyggju að koma til Íslands en millilending á Ítalíu verið eina leiðin til að komast hingað eftir að stríðið í Úkraínu braust út. Þá hafi kærandi sinnt herskyldu í heimaríki. Vísar kærandi til greinargerðar til Útlendingastofnunar hvað varðar herskylduna og aðstæðna umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu. Kærandi hafi verið kallaður í framhaldsviðtal hjá Útlendingastofnun vegna gruns um að hann væri þolandi mansals. Eftir rannsókn mansalsteymis lögreglu hafi komið í ljós að kærandi væri ekki þolandi mansals, þrátt fyrir að hafa framvísað upplýsingum um þekkta íslenska aðila sem hafi oft komist í kast við lögin og hann verið í sambandi við. Kærandi hafi ráðið sig í svarta atvinnu á Sauðárkróki þar sem hann hafi búið og starfað í fokheldu húsi, án matar, hlífðarfatnaðar og sofið á stálullarhrúgu. Kærandi vísar til þess að ítölsk stjórnvöld taki ekki við umsækjendum um alþjóðlega vernd sem stendur vegna mikils straums af flóttafólki og sú yfirlýsing stjórnvalda þar í landi hafi ekki verið dregin til baka. Kærandi hafi ekki tengsl við Ítalíu.
Kærandi vísar til 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og telur að taka beri tillit til þess að Ítalía geti ekki tekið við honum, sbr. yfirlýsing frá ítölskum stjórnvöldum frá 5. desember 2022. Kærandi óttist að verða endursendur til Ítalíu þar sem hann kunni að verða sendur til heimaríkis en hann sé á flótta þaðan vegna herskyldu.
Umsókn um alþjóðleg vernd
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er varða landamæraeftirlit og umsóknir um alþjóðlega vernd eftir því sem tilefni er til.
Ákvæði laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga sem og önnur ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem máli skipta við úrlausn umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd verða reifuð í viðeigandi köflum hér að neðan.
Aðstæður kæranda
Kærandi er karlmaður á [...]sem er staddur einsamall hér á landi. Kærandi fékk útgefna vegabréfsáritun til Ítalíu 3. júní 2024, sem var í gildi 12. júní til 11. júlí s.á. Kærandi kvaðst hafa yfirgefið heimaríki vegna ótta við að sinna herskyldu þar í landi. Kærandi hafi farið frá heimaríki með flugi til Armeníu 18. júní 2024, flogið þaðan til Ítalíu 20. júní 2024 og dvalið á Ítalíu í einn og hálfan sólarhring áður en hann kom hingað til lands 22. júní 2024. Hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 19. júlí 2024. Kærandi þekki ekki til flóttamannakerfisins fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu. Kærandi var boðaður í framhaldsviðtal hjá Útlendingastofnun vegna gruns um að hann væri hugsanlega þolandi mansals á Íslandi. Kærandi greindi frá því að hafa ráðið sig í óskráða atvinnu á Sauðárkróki þar sem hann hafi búið og starfað í fokheldu húsi, án matar, hlífðarfatnaðar og sofið á stálullarhrúgu. Kærandi hafi unnið hjá nafngreindum aðilum í tuttugu daga án þess að fá greitt en þá hafi lögreglan komið og haft afskipti af kæranda. Kærandi greindi frá því að vera við góða heilsu en að hann hafi upplifað kvíða. Þá hafi kærandi upplifað ofbeldi þegar hann sinnti herskyldu í heimaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að mansalsteymi stofnunarinnar hafi haft samband við lögregluna á Norðurlandi eystra og mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hafi upplýst Útlendingastofnun um að umrætt mál hefði verið tekið til skoðunar og ekki þætti tilefni til að rannsaka það nánar sem hugsanlegt mansalsmál. Með vísan til þess taldi Útlendingastofnun að gögn málsins bæru með sér að kærandi væri ekki undir áhrifum þeirra aðila sem hann hafi starfað hjá og ekki væri talið að sá umþóttunartími sem ákvæði 75. gr. laga um útlendinga væri ætlað að veita þolendum mansals, ætti við í tilfelli kæranda. Taldi því stofnunin að hvorki væri grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. gr. né 76. gr. laga um útlendinga.
Kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. ágúst 2024, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem hann teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvubréfi nefndarinnar 26. september 2024 um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er mál kæranda nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar kæranda geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Niðurstaða um 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:
c. heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Ítalíu á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Ítalíu. Af þeim sökum skal kærandi endursendur til Ítalíu enda bera ítölsk yfirvöld ábyrgð á umsókn hans samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.
Með lögum um breytingu á lögum um útlendinga nr. 68/2024 var þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga felld brott samkvæmt 5. gr. breytingarlaganna. Samkvæmt lagaskilum 14. gr. breytingarlaganna gildir umrædd breyting um meðferð umsókna sem bárust eftir gildistöku laganna. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum 3. júlí 2024 og tóku gildi 4. júlí 2024. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 19. júlí 2024 eða eftir gildistöku breytingarlaganna og gildir því 2. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga ekki um umsókn kæranda. Hið sama á við um 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga sem felld voru úr gildi með breytingarreglugerð nr. 1069/2024.
Í greinargerð kæranda er vísað til 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en samkvæmt ákvæðinu er aðildarríki heimilt að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar þrátt fyrir að annað ríki beri ábyrgð á henni á grundvelli þeirra viðmiða sem fram komi í reglugerðinni. Lagt hefur verið mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og aðstæður í endursendingarríki og hvort taka beri umsókn hans til efnismeðferðar á þeim grunni. Verður ekki talið að ákvæði 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eigi við í málinu og málsástæðu kæranda hvað það varðar því hafnað. Áréttað skal að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna tekin til efnismeðferðar nema aðstæður í a – d-lið ákvæðisins eigi við um umsóknina. Af því orðalagi er ljóst að stjórnvöldum beri skylda til að beita ákvæðum a – d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi þau við. Þá eru íslensk stjórnvöld jafnframt bundin af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við mat á því hvort umsókn skuli tekin til efnismeðferðar.
Landaupplýsingar
Lagt hefur verið mat á aðstæður á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- 2023 Country Reports on Human Rights Practices: Italy (United States Department of State, 22. apríl 2024);
- 2023 Trafficking in Persons Report: Italy (United States Department of State, 2023);
- Amnesty International Report 2022/2023 – Italy (Amnesty International, 27. mars 2023);
- Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2021 (European Asylum Support Office, 28. júní 2022);
- Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, 10. júlí 2024);
- Asylum Information Database. Housing out of reach. The reception of refugees and asylum seekers in Europe (European Council on Refugees and Exiles, 31. maí 2019);
- Freedom in the World 2024 – Italy (Freedom House, mars 2023);
- Italy: A new system of reception and integration (European Web Site on Integration - Migrant Integration Information and good practices, 25. janúar 2021);
- Italy: How has the reception system for asylum seekers and refugees changed (European Web Site on Integration - Migration Integration Information and good practices, 4. febrúar 2021);
- Reception conditions in Italy. Updated report on the situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees, in Italy (Swiss Refugee Council, janúar 2020);
- Report of mission to Italy on racial discrimination, with a focus on incitement to racial hatred and discimination (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, 2019);
- Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, desember 2019);
- The ELENA Index (Elena, European legal network on asylum og European Council on Refugees and Exiles, uppfært febrúar 2019);
- Upplýsingar af vefsíðu European Union Agency for Asylum (https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_23_4503);
- Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar (https://help.unhcr.org/italy/services/violence/);
- Upplýsingar af vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_23_4503);
- UNHCR Guidelines L’identificazione delle vittime di tratta tra i richiedenti protezione internazionale e procedure di referral (UNCHR, janúar 2021);
- Country profiles – Italy: Policies and progress towards investing in children: (European Commission, 11. júní 2021);
- Upplýsingar af vefsíðu Amnesty International (www.amnesty.org);
- Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati – (http:www.cir-onlus.org/en/);
- Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (www.hatecrime.osce.org/italy) og
- World Report 2024 (Human Rights Watch, 11. janúar 2024).
Ítalía er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU Ítalía er aðili að Evrópuráðinu frá og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ítalía hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, samninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og barnasáttmálann. Þá er Ítalía aðili að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Í skýrslu European Council on Refugee and Exciles (ECRE) kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti þeir lagt fram umsókn hjá lögreglunni (í. Questura) eða hjá landamæralögreglunni (í. Polizia di Frontiera) hafi þeir ekki áður lagt fram umsókn þar í landi. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sinni geti hann áfrýjað þeirri niðurstöðu. Þá eigi hann kost á því að bera synjunina undir dómstóla (í. Tribunale Civile). Jafnframt eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Þá kemur fram í skýrslum ECRE og svissneska flóttamannaráðsins að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafi endanlega synjun á umsókn sinni hjá ítölskum yfirvöldum, eigi þess kost að leggja fram viðbótarumsókn á grundvelli nýrra gagna í máli þeirra hjá lögreglunni og njóti þá sömu almennu réttinda og aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Fyrir liggur að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Í framangreindum gögnum, s.s. skýrslum ECRE og svissneska flóttamannaráðsins, kemur fram að á stærstu flugvöllum landsins, í Róm og Mílanó, séu frjáls félagasamtök til staðar sem veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd ráðgjöf og þjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð þegar þeir leggi fram umsókn um alþjóðlega vernd en frjáls félagasamtök veiti gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð í umsóknarferlinu.
Í skýrslum ECRE og svissneska flóttamannaráðsins kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sendir séu til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eigi rétt á þjónustu og gistirýmum í tilteknum móttökumiðstöðvum. Ef engin pláss eru til staðar í slíkum móttökumiðstöðvum séu til staðar gistirými í móttökumiðstöðvum sem nefnist CAS (í. Centro di accoglienza straordinaria). CAS miðstöðvarnar hafi upphaflega einungis verið ætlaðar til tímabundinnar dvalar en vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu nýtur meirihluti umsækjenda um alþjóðlega vernd eingöngu þjónustu í CAS miðstöðvunum. Gagnrýnt hefur verið að umræddar miðstöðvar séu yfirfullar, á afskekktum svæðum og að þar skorti hreinlæti. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tóku ný lög nr. 130/2020 gildi árið 2020 á Ítalíu sem kveða á um breytingar á móttökumiðstöðvum og búsetuúrræðum fyrir flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samkvæmt ákvæðum laganna hefur móttöku- og húsnæðiskerfið SIPRIOMI, sem áður var einungis ætlað þeim sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og fylgdarlausum börnum, verið endurskipulagt og fengið nýtt nafn, SAI (e. System of reception and integration). Búsetuúrræðinu hafi verið skipt í tvennt; annars vegar móttökumiðstöðvar og búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og hins vegar búsetuúrræði og þjónustu fyrir þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Ítalíu. Samkvæmt lagabreytingum sem tóku gildi í maí 2023 verður móttökukerfinu SAI breytt í undirkerfi og er einungis ætlað handhöfum alþjóðlegrar verndar.
Af framangreindum gögnum, s.s. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Af skýrslum ECRE og svissneska flóttamannaráðsins má ráða að í ítalska hæliskerfinu sé ekki skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Hins vegar geti greining á þolendum pyndinga eða alvarlegs ofbeldis átt sér stað á öllum stigum umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd. Svokallaðar svæðisnefndir (í. Commissione territoriale per il riconoscimento della protezione internazionale) taki ákvörðun á fyrsta stigi málsmeðferðar og geti þær m.a. óskað eftir því að umsækjandi fari í sérstaka læknisskoðun þar sem fram fari mat á því hvaða áhrif ofsóknir og ofbeldi hafi haft á umsækjanda. Slíkt mat sé framkvæmt í samræmi við leiðbeiningarreglur heilbrigðisráðuneytis Ítalíu um þjónustu handa flóttamönnum sem þjást af andlegum veikindum og/eða eru þolendur pyndinga, nauðgana eða annars konar andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis.
Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna, s.s. skýrslum ECRE og svissneska flóttamannaráðsins, verður ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu, bæði börn og fullorðnir, eigi sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þeir þurfi þó að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið en við slíka skráningu fái þeir útgefið tryggingarkort sem veiti þeim m.a. rétt á meðferð sérfræðilækna, s.s. val á barnalækni. Þá geri tryggingakortið umsækjendum kleift að verða sér út um tiltekið vottorð til þess að fá aðgang að leikskóla. Fyrir útgáfu tryggingarkortsins eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd þó rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Skortur á sérhæfingu í málefnum flóttamanna og tungumálakunnátta geri þó sumum umsækjendum um alþjóðlega vernd erfitt fyrir að sækja sér viðunandi heilbrigðisþjónustu, einkum einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fái aðgang að ítalska vinnumarkaðnum tveimur mánuðum eftir að þeir hafi lagt fram umsókn sína. Þó kemur fram í framangreindum gögnum að atvinnuleysi á Ítalíu hafi verið mikið á undanförnum árum og erfitt hafi reynst fyrir marga, jafnt ítalska ríkisborgara sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd, að finna atvinnu.
Af fyrrnefndum skýrslum, s.s. skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins og samtakanna Human Rights Watch, verður jafnframt ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna séu vandamál á Ítalíu. Í skýrslu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem gefin var út í kjölfar sendifarar til Ítalíu sem farið var í árið 2019 til þess að meta aukna mismunun á grundvelli kynþáttar, kemur fram að í ítalskri löggjöf sé kveðið á um vernd gegn mismunun á grundvelli kynþáttar. Þá sé í stjórnarskrá landsins kveðið á um vernd ákveðinna hópa, þ. á m. útlendinga. Ítölsk yfirvöld hafi tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum, mismunun á grundvelli kynþáttar og hatursglæpum. Á Ítalíu sé starfrækt stofnun (í. Ufficio Nazionale Antidiscriminazioni Razziali (UNAR)) sem hafi það hlutverk að berjast gegn hvers kyns mismunun. Einstaklingar sem telji sig hafa orðið fyrir mismunun þ. á m. vegna kynþáttar eða kynhneigðar og þurfa á aðstoð eða ráðgjöf að halda geti leitað til stofnunarinnar og tilkynnt hvers kyns mismunun í gegnum vefsíðu hennar. Þá reki lögreglan stofnun sem hafi það hlutverk að bæta forvarnir og aðgerðir lögreglu við hatursglæpum (í. Osservatorio per la Sicurezza Contro gli Atti Discriminatori (OSCAD)) sem vinni náið með UNAR. Stofnuninni sé m.a. ætlað að auka þjálfun lögreglufólks og stuðla að því að hatursglæpir séu tilkynntir og skráðir. Stofnunin sé með netfang þar sem unnt sé að tilkynna mismunun á grundvelli m.a. kynþáttar, ríkisfangs og trúar. Þær tilkynningar sem teljist geta falið í sér glæpsamlegt athæfi séu áframsendar lögreglu til rannsóknar en aðrar séu áframsendar til UNAR. Dómstólar landsins standi styrkum fótum sem hafi stuðlað að virkri framkvæmd hluta löggjafar um vernd gegn mismunun á grundvelli kynþáttar. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Ítalíu geti leitað sér aðstoðar ítalskra löggæsluyfirvalda vegna ofbeldisbrota og hótana. Þá kemur fram á vefsíðu Flóttamannastofnunar að stuðningsþjónustur fyrir þolendur afbrota séu veittar óháð ríkisborgararétti, stöðu, kyni, kynþætti eða trú. Frjáls félagasamtök veiti þolendum afbrota stuðning og húsaskjól. Jafnframt séu neyðarlínur opnar allan sólarhringinn fyrir þolendur ofbeldis sem þurfi aðstoð og tímabundinn dvalarstað og sérstök neyðarlína fyrir þolendur mansals.
Ítölsk stjórnvöld sendu frá sér beiðni 5. desember 2022, þar sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins voru beðin um að stöðva tímabundið endursendingar til Ítalíu vegna álags á móttökukerfið þar í landi. Í samræmi við ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett fram tíu skrefa aðgerðaráætlun, dags. 17. september 2023, vegna aðstæðna á eyjunni Lampedusa á Ítalíu. Í henni felist m.a. aukinn stuðningur frá stofnun Evrópusambandsins um alþjóðlega vernd (European Union Asylum Agency, EUAA) og evrópsku landamæra- og strandgæslunni (Frontex) til að stjórna miklum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og styðja við flutning fólks frá Lampedusa til annarra aðildarríkja, sem lýst hafi yfir vilja til að taka yfir ábyrgð umsókna. Þá vinni EUAA að undirbúningi aukins viðbúnaðar m.a. með fjölgun starfsfólks á Suður-Ítalíu og öðrum stöðum sem þörf sé á.
Niðurstaða um 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:
Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.
Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga segir að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga er rétt að líta til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun, sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá skal hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið. Í 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er að finna sambærilegt ákvæði og í 3. gr. mannréttindasáttmálans.
Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Evrópudómstólsins leiðir að þrátt fyrir að ríki hafi rétt til að stjórna hverjir dvelji á landsvæði þeirra geti flutningur einstaklings til annars ríkis falið í sér brot á banni við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þetta á við ef veruleg ástæða er til að ætla að viðkomandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð ákvæðinu.
Meðferð og aðbúnaður umsækjenda um alþjóðlega vernd í endursendingarríki þurfa að ná tilteknu alvarleikastigi til að fela í sér brot gegn banninu. Því alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda ríkisins hefur þær afleiðingar að einstaklingur, sem að öllu leyti er háður stuðningi þess, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann getur ekki mætt grundvallarþörfum sínum og grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn. Það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni verulega við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki telst ekki nægjanlegt til að teljast vanvirðandi meðferð. Þá er ríkjum ekki skylt að sjá þeim sem njóta alþjóðlegrar verndar eða dvalarleyfis fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum.
Samkvæmt dómum Evrópudómstólsins skal framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar vera í samræmi við 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Lög Evrópusambandsins eru byggð á grundvallarforsendunni um gagnkvæmt traust, þ.e. að gildi og lög sambandsins séu viðurkennd og virt í hverju aðildarríki og að réttarkerfi aðildarríkjanna veiti sambærilega og virka vernd þeirra grundvallarréttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins mælir fyrir um. Dyflinnarreglugerðin er byggð á gagnkvæmu trausti og markmið hennar er að afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd sé skilvirk til hagsbóta fyrir umsækjendur og aðildarríki samstarfsins. Samkvæmt framangreindu samrýmist meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins þeim kröfum sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmáli Evrópu gera.
Litið hefur verið til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í endursendingarríki með hliðsjón af aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi, sbr. gögn málsins og framangreindar landaupplýsingar. Ekkert bendir til að endursending kæranda til ríkisins sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Ítalíu, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði á Ítalíu og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, hefur ekki verið sýnt fram á að hann eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hans til endursendingarríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt framansögðu verður umsókn kæranda ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 75. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna sé ekki fullnægt. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að stuðla að því að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal. Veiting dvalarleyfisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram en dvalarleyfinu sé m.a. ætlað að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Efni ákvæðisins ber með sér að því sé ætlað að veita þeim einstaklingum tímabundið atvinnuleyfi sem nýlega hafa losnað undan mansali eða eru enn undir áhrifum þeirra sem stunda mansal.
Í 76. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita fórnarlambi mansals og barni viðkomandi sem statt er hér á landi endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar sérstaklega stendur á, þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt, þegar það telst nauðsynlegt ýmist vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi eða að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga kemur m.a. fram að ákvæðið sæki fyrirmynd sína til 14. gr. samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og fullnægi einnig skuldbindingum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Palermó-bókunarinnar. Í athugasemdum er vísað til greinargerðar með samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali þar sem fram komi að persónulegar aðstæður fórnarlambs mansals geti verið allt frá öryggi eða heilsufari þess til fjölskylduaðstæðna.
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið þolandi mansals og að nauðsynlegt sé að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ráðið sig í óskráða atvinnu á Sauðárkróki þar sem hann hafi búið og starfað í fokheldu húsi, án matar, hlífðarfatnaðar og sofið á stálullarhrúgu. Kærandi hafi unnið hjá nafngreindum aðilum í tuttugu daga án þess að fá greitt en þá hafi lögreglan komið og haft afskipti af kæranda. Kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn til stuðnings málsástæðu sinni um dvalarleyfi á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga.
Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi sé enn undir áhrifum þeirra aðila sem hann kveður að hafi beitt sig mansali. Verður samkvæmt framansögðu talið að sá umþóttunartími sem ákvæðinu er ætlað að gefa mögulegum þolendum mansals eigi ekki við í tilfelli kæranda. Með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins, er hvorki grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. né 76. gr. laga um útlendinga.
Frávísun
Kærandi kom hingað til lands 22. júní 2024 og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 19. júlí 2024. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hefur kærandi verið hér á landi innan við níu mánuði frá því þegar að málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi skal fluttur til Ítalíu innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur nefndin þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur nefndin tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson Valgerður María Sigurðardóttir