Afgreiðsla lokunarstyrkja gengur vel - ánægja með úrræði stjórnvalda
Um 170 umsóknir um lokunarstyrki hafa borist frá því opnað var fyrir umsóknir 12. júní. Af þeim hafa 75% verið afgreiddar og styrkfjárhæð að upphæð 137 m.kr. greidd út. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið má búast við færri umsóknum en upphaflegt mat gerði ráð fyrir.
Nokkuð ber á að aðilar sem ekki falla undir skilyrði úrræðisins sæki um, en einungis þeir, sem gert var að loka samkvæmt 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eru styrkhæfir.
Aðsókn fer rólega af stað, en alls var talið að um 2000 fyrirtæki geti fallið undir úrræðið vegna lokunar og eru þetta því innan við 10% um mögulegra umsókna.
Í könnun sem Gallup gerði fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í apríl og maí kom fram að af heildarfjölda fyrirtækja töldu einungis um 3,4% að þau myndu nýta sér lokunarstyrki. Þetta er mun lægra hlutfall fyrirtækja en upphaflegt mat gerði ráð fyrir, en í viðskiptahagkerfinu eru um 14000 fyrirtæki en samkvæmt þessum svörum mætti gera ráð fyrir um 500 umsóknum um lokunarstyrki.
Meirihluti fyrirtækja ánægður með úrræðin
Í könnun Gallup um viðhorf fyrirtækja til mótvægisaðgerða stjórnvalda kemur fram að rúmlega 64% fyrirtækja eru ánægð með aðgerðirnar og aðeins um 10% óánægð. Eftir því sem fyrirtæki hafa betur kynnt sér úrræðin, því ánægðari eru þau.
Um helmingur fyrirtækja sem þátt tók í könnuninni telur sig vel í stakk búinn til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum, en innan við fjórðungur stendur illa.
Ekki er munur á fyrirtækjum eftir því hvar á landinu þau starfa en fyrirtæki með hærri ársveltu standa betur. Eins og við var búist er staða ferðaþjónustufyrirtækja einna verst. Aðeins 20% fyrirtækja í þeirri grein telja sig vel undir það búin að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum, en aðrar greinar standa ágætlega samkvæmt niðurstöðunum.
Tæplega helmingur fyrirtækja nýtir sér úrræði stjórnvalda
Hlutabótaleiðin er það úrræði sem flest fyrirtæki sögðust ætla að nýta, eða um 36%. Frestun opinberra gjalda og tryggingargjalds er það úrræði sem næstmestur áhugi var á, en um 27% fyrirtækja hugðust gera það. Í heildina kvaðst tæplega helmingur fyrirtækja ætla að nýta sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar
Úrræði sem fyrirtæki reiða sig mest á komin til framkvæmda
Flest þau úrræði sem fyrirtæki reiða sig mest á vegna heimsfaraldursins eru komin til framkvæmda, svo sem viðbótarlán (brúarlán), jöfnun tekjuskatts, frestun skattgreiðslna og hlutabætur. Úrræði vegna launakostnaðar á uppsagnarfresti verður virkt í júlí. Undirbúningur vegna stuðningslána, sem ætluð eru minni fyrirtækjum í lausafjárvanda, er á lokastigi. Fjármála- og efnahagsráðuneytið lauk í maí sínum hluta þess verkefnis með samningi við Seðlabankann um umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánunum og hefur Seðlabankinn í framhaldinu gengið frá samningum við Arion banka og Íslandsbanka um veitingu lánanna, en undirritun samnings við Landsbankann er ólokið.
Mesta ánægjan með hlutabótaleiðina
Af einstökum úrræðum er langmest ánægja með hlutabótaleiðina, en um 60% fyrirtækja nefndu hana þegar þau voru spurð hvað þau væru ánægðust með en auk þess nefndu tæp 11% greiðslur launakostnaðar á uppsagnarfresti.
Könnunin var gerð í apríl og maí og var tekið úrtak fyrirtækja með fjóra starfsmenn eða fleiri sem handahófsvalin voru úr fyrirtækjaskrá og viðhorfahópi Gallup meðal forsvarsmanna fyrirtækja. Gagna var aflað þar til um 400 svör höfðu borist.