Um 180 milljónir króna til verkefna á sviði félagsmála
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði nýlega styrkjum til félagasamtaka af safnliðum fjárlaga. Styrki hlutu 35 félög, samtals 179 m.kr. til fjölbreyttra verkefna í þágu velferðar.
Styrkir sem þessir af safnliðum fjárlaga hafa verið veittir árlega um nokkurra ára skeið. Verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni lúta flest að málefnum barna, fátækt, félagslegri virkni, geðheilsu og tengdum röskunum, málefnum aldraðra og fatlaðra. „Þetta eru verkefni sem eiga það sameiginlegt að stuðla að aukinni velferð í samfélaginu“ sagði ráðherra meðal annars við athöfn í Hannesarholti þegar styrkirnir voru veittir.
Í stuttri ræðu gerði ráðherra að umtalsefni verðmæti frjálsra félagasamtaka í samfélaginu og þeirra mikilvægu störf: „Við eigum öll að muna eftir því og meta það starf að verðleikum. Styrkirnir sem veittir eru hér í dag eru í senn viðurkenning á mikilvægu starfi og fjárframlag til að styðja við starfsemina."
Þá voru kynnt þrjú verkefni sem hlutu styrk sem miða öll að því að styrkja eða koma á notendasamráði. Notendasamráð byggir á valdeflingu og þátttöku notenda og stuðlar þannig að því að raddir þeirra sem standa oft ekki jafnfætis öðrum í samfélaginu heyrast og tekið sé tillit til þeirra óska og þarfa þegar kemur að stefnumótun í tilteknum málaflokkum. Verkefnin sem um ræðir eru Öldungaráð á vegum Landssambands eldri borgara, Ungmennaráð Landssamtakanna Þroskahjálpar og Ungmennaráð Barnaheilla.