Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2016 Utanríkisráðuneytið

EFTA ríkin vinni nánar saman

Utanríkisráðherrar Íslands og Liechtenstein ræðast við. - mynd

Samskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands voru þungamiðjan í umræðum á ráðherrafundi EFTA sem haldin var í Genf í dag. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum, en Ísland leiðir starf EFTA um þessar mundir. Ráðherrarnir ákváðu að vinna nánar saman svo hagsmunir EFTA-ríkjanna verði tryggðir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.  Ísland mun hafa frumkvæði að því að boða til fundar á næstu vikum, þar sem viðbrögð EFTA-ríkjanna við Brexit verði undirbúin enn frekar. 

,,Útganga Breta úr Evrópusambandinu er bæði söguleg og flókin í framkvæmd. Við þurfum að fylgjast mjög vandlega með þróun mála og vera viðbúin, sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu. Það er mikilvægt að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Það er líka mikilvægt að EFTA standi vörð um fríverslun í heiminum, ekki síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum nýverið. Fyrir Ísland eru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Við munum leggja okkur öll fram við að gæta hagsmuna Íslands,” segir Lilja Alfreðsdóttir.

 

Fleiri fríverslunarsamningar í farvatninu

Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu og því fagnað sérstaklega að viðræður um gerð fríverslunarsamnings við Indland væru hafnar á nýjan leik og að nýlega hefðu hafist viðræður við Ekvador. Þá var mikil ánægja á fundinum með fyrirhugaðar fríverslunarviðræður EFTA og viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela (kallað Mercosur) sem eiga að hefjast á næsta ári. 

Ráðherrarnir fóru einnig yfir stöðu viðræðna um endurskoðun og uppfærslu gildandi samninga við Mexíkó og komandi viðræður við Síle. Varðandi aðra slíka samninga ítrekuðu ráðherrarnir áhuga EFTA ríkjanna að hefja á ný viðræður við Tyrkland og að hefja viðræður við Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU). Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að áfram væri leitað leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada. Utanríkisráðherra stýrði einnig fundi EFTA ráðherranna með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu mála varðandi fríverslunarviðræður EFTA ásamt því að farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB. 

Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði. Tólf prósent af heildarútflutningi EFTA ríkja fer til þessara ríkja á meðan 7,5% innflutnings kemur frá þeim. Fundinn sátu auk Lilju; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta