Önnur skýrsla starfshóps um úrræði vegna heimsfaraldurs
Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hefur skilað annarri skýrslu sinni. Hópurinn skilaði fyrstu skýrslu sinni í nóvember sl. og var þar fjallað um nýtingu heimila og fyrirtækja á úrræðum vegna Covid-19.
Í annarri skýrslu starfshópsins er horft til aðgerða stjórnvalda sem lúta beint að atvinnuástandinu, fólki í viðkvæmri stöðu og stuðningi við sveitarfélög. Varðandi fyrsta þáttinn er litið sérstaklega til fjárfestingarátaks ríkissjóðs og fyrirtækja í ríkiseigu.
Úrræðin sem fjallað er um í skýrslunni, sem og í fyrri skýrslu, hafa þegar komið til framkvæmda og voru fjárheimildir samþykktar í fjáraukalögum fyrir árið 2020. Til viðbótar hefur Alþingi samþykkt tekjufalls- og viðspyrnustyrki og enn frekari aðgerðir voru samþykktar í fjárlögum 2020 í desember sl. Fjallað verður um nýtingu þeirra þegar gögn liggja fyrir.
Beinar aðgerðir ríkisfjármála virðast meiri á Íslandi en á Norðurlöndunum
Hagstjórnaraðgerðir hafa miðað að því að milda áhrif faraldursins á hagkerfið. Umfang beinna mótvægisaðgerða í ríkisfjármálum vegna COVID-19 eru samtals ríflega 200 ma.kr á árunum 2020 og 2021 sem samsvarar 7% af VLF ársins 2019. Þessu til viðbótar eru ýmsar aðgerðir sem hafa óbein áhrif á ríkissjóð en styðja þó við hagkerfið. Þar má helst nefna ríkistryggð lán, greiðslufresti á skattgreiðslum og greiðsluskjól. Enn fremur er sjálfvirkt viðbragð ríkisfjármálanna sterkt hér á landi þar sem tekju- og útgjaldastofnar ríkissjóðs, aðallega skattkerfið og atvinnuleysistryggingar, fylgja hagsveiflunni hratt og vel.
Beinar aðgerðir opinberra fjármála virðast verða meiri en á öðrum Norðurlöndum fyrir árin 2020 og 2021 eins og sést á meðfylgjandi grafi. Í þeim ríkjum þar sem beinar aðgerðir eru umfangsmeiri en hér á landi, þar er sjálfvirkt viðbragð opinberra fjármála, svokallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar, ekki jafnsterkt.
103 milljarðar í mótvægisaðgerðir á árinu 2020
Áætlað er að umfang mótvægisaðgerða fyrir árið 2020 verði 103 ma.kr. eða um 3,6% af VLF. Auk sérstakra mótvægisaðgerða hafa sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna afgerandi áhrif á afkomu ríkissjóðs en þar er einkum um að ræða lægri innheimtu tekjuskatta og tryggingagjalds auk hækkunar útgjalda vegna atvinnuleysis. Áhrifin af sjálfvirku sveiflujöfnurunum fela í sér afkomulækkun sem nemur um 117 ma.kr. á árinu 2020. Þessu til viðbótar hefur kostnaðarauki vegna Covid-19 árið 2020 verið 10,6 ma.kr. sem stjórnvöld hafa ákveðið að fjármagna að fullu, og rennur til heilbrigðismála og almannavarna. Einnig hefur ríkissjóður sett inn 4,2 ma.kr. hlutafjáraukningu á árinu til að styðja við fjárfestingarátak ríkisfyrirtækja.
Stefnt er að því að fyrri skýrsla starfshópsins sem birt var í nóvember um nýtingu heimila og fyrirtækja á almennum efnahagsúrræðum verði uppfærð eftir því sem gögn liggja fyrir um nýtingu úrræða sem samþykkt voru á haustþingi. Auk þess heldur fjármála- og efnahagsráðuneytisins úti upplýsingasíðu um nýtingu þeirra úrræða.
Nánar um einstakar aðgerðir:
Aðgerðir vegna atvinnuástands
Aðgerðum vegna atvinnuástandsins má í megindráttum skipta í þrennt: Beinar aðgerðir til að viðhalda störfum, ráðningarsambandi og viðnámsþrótti starfandi fyrirtækja, bein útgjöld vegna þeirra sem eru atvinnulausir að hluta eða heild og atvinnuskapandi aðgerðir stjórnvalda, m.a. undir fjárfestingarátaki ríkissjóðs.
Hæstu einstöku fjárhæðirnar sem greiddar hafa verið vegna áhrifa faraldursins hafa verið vegna aukins atvinnuleysis.
Beinar greiðslur ríkissjóðs vegna atvinnuástands |
Áætluð heildarútgjöld 2020 (m.kr.) |
Almennt atvinnuleysi |
56.000 |
Hlutabætur |
24.000 |
Lenging tekjutengda tímabils atvinnuleysisbóta |
2.100 |
Námsúrræði í framhalds- og háskólum |
1.850 |
Sumarstörf fyrir námsmenn hjá ríki og sveitarfélögum |
1.400 |
Desemberuppbót atvinnuleitenda |
1.350 |
Stuðningur v. tekjufalls íþrótta- og æskulýðsfélaga |
350 |
Aukafjárveiting til reksturs VMST |
340 |
Fjölgun listamannalauna |
250 |
Aðgerðir vegna einstaklinga í viðkvæmri stöðu
Aðgerðum vegna einstaklinga í viðkvæmri stöðu má í megindráttum skipta í tvennt: Annars vegar fjárframlög til að styðja við afkomu fólks á borð við eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Hins vegar beinar fjárveitingar til félagslegra verkefna og málaflokka til þess að geta tekist á við afleiðingar faraldursins og tryggt þjónustu og stuðning til viðkvæmra hópa.
Í heild eru útgjöld til heilbrigðis- og félagsmála 55% af útgjöldum ríkissjóðs árið 2020.
Aðgerðir vegna hópa í viðkvæmri stöðu |
Framlög 2020 (m.kr.) |
Stuðningur við börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu |
675 |
Geðrækt og andlegt heilbrigði |
580 |
Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar – eingreiðsla |
480 |
Aðgerðir gegn ofbeldi |
215 |
Fatlað fólk/börn og fjölskyldur þeirra |
210 |
Fjárstyrkir til félagasamtaka |
135 |
Heimilislausir - neyðarhúsnæði og stuðningur |
100 |
Innflytjendur og flóttafólk |
88 |
Málefni aldraðra |
80 |
Alls |
2.563 |
Stuðningur við sveitarfélög og byggðalög
Staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn. Mörg hafa haft svigrúm til þess að bregðast við áhrifum faraldursins og tímabundnum þrengingum á meðan önnur hafa átt erfiðara um vik. Starfshópur um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna skilaði skýrslu í ágúst sl. og voru í kjölfarið gerðar tillögur um aukinn stuðning við sveitarfélögin. Markmið þessara aðgerða var fyrst og fremst að veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og verja lögbundna grunnþjónustu.
Beinn fjárstuðningur ríkissjóðs við sveitarfélögin |
Framlög 2020 (m.kr.) |
|
Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga |
720 |
|
Málefni fatlaðs fólks – jöfnunarsjóðurinn |
670 |
|
Sveitarfélög sem standa höllum fæti |
500 |
|
Suðurnes. Efling þjónustu ríkisins |
250 |
|
Stefnumörkun um sjálfbærni sveitarfélaga |
250 |
|
Styrkur til sveitarf. sem hafa komið illa út úr COVID kreppunni |
150 |
|
Efling starfrænnar tækni og þjónustu sveitarfélaga |
100 |
|
Byggðaáætlun - stuðningur við félagsleg úrræði |
30 |
|
Alls |
2.670 |
|