Hönnunarstefna 2019-2027 – drög lögð fram til umsagnar
„Hönnunarstefna 2019-2027 - Hönnun í öllum geirum“ hefur verið lögð fram til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda og er öllum frjálst að senda inn athugasemdir til 31. ágúst.
Hönnunarstefnan er afrakstur viðamikils samtals helstu hagsmunaaðila þvert á stjórnvöld, atvinnulíf, skóla og hönnunarsamfélag og samanstendur hún af tveimur meginmarkmiðum; um BETRA SAMFÉLAG og AUKNA VERÐMÆTASKÖPUN. Meginmarkmiðin eru studd af stefnumarkandi áherslum sem eru settar fram í þremur flokkum: 1) Vitundarvakning, 2) Starfs- og stuðningsumhverfi, 3) Menntun og þekking.
Hluti af vinnunni við nýju stefnuna var að kortleggja hvernig eldri stefnan hefði reynst í framkvæmd og innleiðingu og því samhliða að greina styrkleika og veikleika í núverandi fyrirkomulagi.
Nýja stefnan er ólík þeirri eldri að því leyti að í henni er ekki mælt fyrir um einstakar aðgerðir. Skýrist það af því að stefnunni er ætlað að vera grundvallarskjal hvað varðar stefnumörkun en um einstakar aðgerðir verður mælt fyrir um í fjármálaáætlun hvers árs.