Nr. 56/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 14. ágúst 2019
í máli nr. 56/2019
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða honum 450.000 kr. vegna skemmda sem urðu á heitum potti á leigutíma.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Með rafrænni kæru, móttekinni 10. júní 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 11. júní 2019, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 24. júní 2019, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 24. júní 2019, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, mótteknu 1. júlí 2019, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 10. júlí 2019, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. september 2018 til 31. maí 2019, um leigu varnaraðila á húsi sóknaraðila að C. Ágreiningur er um skemmdir á heitum potti.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að hinu leigða hafi fylgt heitur pottur. Við úttekt, sem aðilar hafi gert saman í september 2018, hafi hann verið í fullkomnu lagi. Varnaraðili hafi haft samband við sóknaraðila 29. apríl 2019 og upplýst að sprunga hafi komið í pottinn. Í kjölfarið hafi sóknaraðili sent myndir af sprungunni á fyrirtæki sem sérhæfi sig í heitum pottum. Samkvæmt yfirlýsingu þess sé ekki um að ræða galla í pottinum heldur hafi eitthvað þungt dottið ofan í hann eða eitthvað mikið gengið á. Sprungan væri það gleið að ekki væri um hitabreytingu að ræða.
Sóknaraðili hafi beðið varnaraðila um að fá matsmann til að meta hvernig sprungan hefði getað komið til en hann hafi ekki gert það.
Í bréfi lögmanns varnaraðila séu nokkrar staðhæfingar sem eigi sér enga stoð. Þar segi að sóknaraðili hafi komið og verið að vinna í pottinum. Það sé alls ekki rétt heldur hafi hann aðeins kíkt á lok pottsins sem hafi verið rifið. Hann hafi tekið með sér eigendur fyrirtækis sem sérhæfi sig í lokum á heitum pottum. Lokið hafi verið skoðað til þess að sjá hversu mikið það væri rifið og hvort unnt væri að laga það. Þannig hafi ekkert verið unnið í pottinum.
Varnaraðili hafi hringt í sóknaraðila 25. apríl 2019 og upplýst að lokið væri rifið. Sóknaraðili hafi litið á það næsta dag en þá hafi verið mikið af sandi og laufi í pottinum. Í kjölfarið hafi sóknaraðili haft samband við varnaraðila og farið fram á að ekki yrði sett vatn í pottinn þar sem það þyrfti að þrífa hann áður en það yrði gert. Sóknaraðili hafi haft samband við tiltekið fyrirtæki næsta dag sem hafi mætt á staðinn til að sjá hversu mikið lokið væri rifið og hvort hægt yrði að laga það. Sóknaraðili hafi komið með garðslöngu til að þrífa pottinn 29. apríl 2019 og einn íbúi hússins verið viðstaddur. Sama dag hafi sóknaraðila verið tilkynnt um sprunguna með smáskilaboðum. Þetta hafi verið rúmri viku eftir páska.
Varnaraðili hafi alfarið hafnað því að einhver hafi verið í húsinu um páskana. Það sé ekki rétt þar sem yfirlit sýni að öryggiskerfi hússins hafi verið notað þá og samkvæmt upplýsingum frá nágrönnum hafi verið haldið pottapartý í kringum páskana sem nokkurt ónæði stafaði af. Í samtali aðila hafi varnaraðili sagt að tiltekið nemendafélag gæti tekið þátt í kostnaði vegna pottsins og þannig megi gera ráð fyrir því að félagið hafi verið í pottapartýi um þetta leyti.
Sóknaraðili hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á að hvorki væri um að ræða galla né sprungu vegna hitabreytinga. Aftur á móti hafi varnaraðili ekkert gert til að sanna það að ábyrgðin væri ekki hans.
Sóknaraðili hafi þegar keypt annan pott að fjárhæð 400.000 kr., auk þess sem flutningur á honum hafi kostað 49.600 kr. og ýmis kostnaður við að setja hann niður hafi verið 23.657 kr. Samtals hafi kostnaðurinn því numið 470.257 kr.
III. Sjónarmið varnaraðila
Varnaraðili segir að hann hafni því að bera ábyrgð á skemmdum á pottinum. Án þess að hann geti, frekar en sóknaraðili, fullyrt nokkuð um það af hverju þær hafi komið til séu nokkrar staðreyndir sem skipti máli við mat á orsökum þeirra.
Fyrir það fyrsta hafi aðili á vegum sóknaraðila unnið að framkvæmdum á pottinum sumarið 2018 þar sem honum hafi verið breytt úr rafmagnspotti í hitaveitupott. Eftir því sem varnaraðili best viti sé sá sem hafi unnið verkið ekki pípulagningameistari. Á meðal þess sem hafi þurft að gera hafi verið að bora göt víðsvegar í pottinn til að koma fyrir pípulögnum og stútum. Ein af þeim sprungum sem hafi komið fram sé beint út frá einu af þeim götum og standi því líkur til þess að samhengi sé þarna á milli.
Sá sem hafi séð um framkvæmdirnar hafi jafnframt tekið lokið af pottinum í apríl 2019 og skilið hann þannig eftir í einhverja daga. Þetta hafi gerst þegar íbúar hússins hafi verið í burtu í páskafríi og algjörlega án þeirra vitneskju. Þessa daga hafi verið miklar sveiflur í hita, næturfrost og sólskin, sem hafi óneitanlega haft áhrif á pottinn. Samkvæmt upplýsingum, sem varnaraðili hafi aflað sér, séu miklar hitabreytingar og hitasveiflur mjög slæmar fyrir heita potta og því mikilvægt að lokið sé haft á þegar hann sé ekki í notkun. Varnaraðili verði vart talinn bera ábyrgð á þessu, enda hafi hvorki hann né aðrir íbúar hússins verið heima þessa daga.
Hvernig sem á það sé litið hafi ekkert komið fram í málinu sem sýni fram á að varnaraðili eða nokkur á hans vegum beri ábyrgð á því að sprungur hafi komið fram á plasti heita pottsins. Þvert á móti beri aðgerðir aðila á vegum sóknaraðila það með sér að hafa í öllu falli aukið verulega líkurnar á því að plast heita pottsins hafi skemmst.
Varnaraðili mótmæli sérstaklega öllum fullyrðingum þess efnis að eitthvað þungt hafi dottið ofan í pottinn. Sérstaklega sé vísað til ljósmynda sem fylgi samantekt varnaraðila en sú sprunga sem fyrst hafi komið fram og sé tilgreind sem „sprunga sem kom fyrst“ sé þannig staðsett að fráleitt sé að ætla að eitthvað þungt hafi dottið þar. Þá sé það æði langsótt að ganga út frá því að í tvígang hafi eitthvað þungt dottið ofan í pottinn með þeim afleiðingum að sprungur hafi tekið að myndast. Þá sé því alfarið hafnað að óljósir tölvupóstar frá söluaðila heitra potta hér á landi hafi nokkurt gildi sem sönnun á því hvers vegna sprungur hafi tekið að myndast. Þeir sem hafi metið stöðuna virðast hafa gert það með því einu að skoða ljósmyndir og byggja álit sitt á frásögn sóknaraðila.
Raunar sé það sérstakt að sóknaraðili hafi engar upplýsingar lagt fram um aldur pottsins eða annað og hafi ekki séð ástæðu til að minnast á þær framkvæmdir sem hann sjálfur hafi staðið fyrir eða þeirri staðreynd að hann hafi sjálfur tekið lokið af pottinum. Þá verði heldur ekki séð að sóknaraðili hafi leitað leiða til að takmarka tjón sitt eða kanna með neinum hætti svo að séð verði hvort hægt væri að laga skemmdirnar eða draga úr tjóninu með öðrum hætti sem honum sé skylt að gera í samræmi við almennar meginreglur skaðabótaréttar.
Þá hafi sú fjárhæð sem hann hafi krafið um endurgreiðslu á ekki verið rökstudd, enda ekki til þess vitað að nokkur hafi komið á staðinn og metið pottinn til verðs. Sóknaraðila hafi þannig hvorki tekist að sanna að skemmdirnar væru af völdum varnaraðila eða annarra á hans vegum né heldur hafi hann sýnt fram á það með óyggjandi hætti hvert tjón hans sé. Málið sé því vart tækt til úrskurðar eins og það liggi nú fyrir.
IV. Athugasemdir sóknaraðila
Í athugasemdum sóknaraðila segir að hann hafni því að hafa tekið lokið af pottinum. Um sé að ræða orð á móti orði.
Pípulagningameistari hafi framkvæmt breytingar á pottinum fyrir um ári síðan. Ljóst sé af myndum að sprungan hafi ekki myndast út frá stút.
Sóknaraðili hafi ekki haldið því fram að eitthvað hafi fallið ofan í pottinn í tvö skipti. Síðari skemmdir hafi orðið til vegna þess að upphaflega sprungan sé það djúp að vatn hafi komist inn í hana og bólgur myndast í skelina. Þær hafi myndast nokkrum dögum eftir að upphaflega sprungan hafi komið í ljós og séu á engan hátt í líkingu við upphaflegu sprunguna.
Fagaðilar hafi metið pottinn ónýtan og verðmetið hann að fjárhæð 450.000 kr. Ekki verði séð hvernig hægt hefði verið með öðru móti að sýna fram á tjónið. Tryggingafélagið hafi neitað að meta tjónið þar sem heitur pottur sé ekki tryggður nema það kvikni í honum. Enginn fagaðili sé í bæjarfélaginu sem selji heita potta. Þannig hafi verið eðlilegt að senda myndir og láta meta hann. Sóknaraðili hafni því að hafa haft áhrif á matið.
V. Athugasemdir varnaraðila
Í athugasemdum varnaraðila segir að það eina sem vitað sé sé að tjónið hafi átt sér stað einhvern tímann á tímabilinu 13.-29. apríl 2019. Hafnað sé öllum ásökunum um að varnaraðili hafi viðhaft einhverja þá háttsemi sem lýst sé í greinargerð sóknaraðila sem gæti hafa valdið einhverju tjóni á umræddum heitum potti.
Sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á hvað hafi valdið tjóninu nema með því að vitna í samtöl sem hann hafi átt við aðila sem telji að eitthvað þungt hafi fallið ofan í heita pottinn, hvað þá sannað með óyggjandi hætti að varnaraðili hafi viðhaft einhverja þá háttsemi sem gæti hafa valdið því. Það sé ein af meginkröfum íslensks skaðabótaréttar að orsakatengsl þurfi að vera á milli þeirrar háttsemi sem aðili sé sakaður um og þess tjóns sem hafi hlotist vegna hennar. Eðli málsins samkvæmt þurfi því fyrst að sanna háttsemina og svo orsakatengslin. Hvorugt hafi verið gert í þessu máli.
Ekki hafi verið gerð úttekt í samræmi við 71. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, og raunar hafi engin formleg skoðun farið fram á pottinum og því ekki á neinu að byggja varðandi orsök og afleiðingar þess að skemmdir hafi komið fram á honum.
Staðan sé því einfaldlega sú að það eina sem liggi fyrir sé að sprungur hafi komið fram í pottinum. Ekkert liggi fyrir um það af hvaða ástæðum það sé eða hvort það megi á einhvern hátt rekja til varnaraðila. Því fari fjarri að bótaábyrgð verði felld á varnaraðila á grundvelli hlutlægra sjónarmiða, enda verði að miða við að meginreglur skaðabótaréttarins gildi um þá aðstöðu sem sé uppi. Með því sé átt við að eigi kærunefndin að geta komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili beri ábyrgð á tjóninu, verði að liggja fyrir að hann, eða einstaklingar á hans vegum, hafi valdið tjóninu. Þá verði umfang tjónsins enn fremur að liggja fyrir og það eftir atvikum að liggja fyrir að ekki sé unnt að bæta úr tjóninu með öðrum hætti en að skipta pottinum út.
Ljóst sé að enginn hafi verið í húsinu í nokkra daga í kringum páskana, þ.e. á sama tíma og tjónið hafi orðið. Húsið standi nærri miðbænum og verði að gera ráð fyrir því að nokkur umferð sé um götuna á öllum tímum sólarhringsins af fólki sem eigi erindi í miðbæinn. Ekki sé því hægt að útiloka að orsök tjónsins megi rekja til annarra en varnaraðila.
VI. Niðurstaða
Fjallað er um tjón á fylgifé hins leigða í 2. mgr. 18. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, en þar segir að verði hið leigða húsnæði eða fylgifé þess fyrir tjóni af völdum leigjanda, heimilismanna eða annarra manna sem hann hefur leyft afnot af húsnæðinu eða umgang um það, skuli leigjandi gera ráðstafanir til að bæta úr tjóninu svo fljótt sem verði megi. Vanræki leigjandi þessar skyldur sínar sé leigusala heimilt að láta fara fram viðgerð á kostnað leigjanda. Áður skuli þó leigusali gera leigjanda skriflega grein fyrir aðfinnslum sínum og segja til um hverra úrbóta sé krafist og veita leigjanda frest í fjórar vikur frá því að honum bárust athugasemdir leigusala til þess að ljúka viðgerðinni. Áður en leigusali láti framkvæma viðgerðina skuli hann leita álits úttektaraðila, sbr. XIV. kafla húsaleigulaga, og samþykkis hans fyrir kostnaðinum að verki loknu.
Með rafrænum skilaboðum 29. apríl 2019 upplýsti varnaraðili sóknaraðila að fundist hefði lítil sprunga í skelinni á pottinum og spurði hvort það væri ekki hægt að kítta í það en sama dag hafði sóknaraðili þrifið pottinn með garðslöngu. Sóknaraðili tók mynd af sprungunni og sendi á fyrirtæki sem sérhæfir sig í heitum pottum. Svar frá fyrirtækinu var að eitthvað þungt hefði dottið ofan í pottinn með þeim afleiðingum að sprungan hafi myndast og var sérstaklega tekið fram að ekki væri um að ræða galla í pottinum eða sprungu vegna hitabreytinga.
Varnaraðili kveðst ekki bera ábyrgð á sprungunni og vísar til þess að sumarið 2018 hafi pottinum verið breytt úr rafmagnspotti í hitaveitupott þar sem boruð hafi verið göt í hann til þess að koma fyrir pípulögnum og stútum. Sprungan sé út frá einu af þeim götum sem boruð hafi verið. Þá vísar hann til þess að lokið á pottinum hafi verið rifið í nokkurn tíma og einstaklingur á vegum sóknaraðila tekið það af í apríl 2019 þannig að potturinn hafi staðið opinn í nokkurn tíma. Á þeim tíma hafi verið miklar sveiflur í hita, næturfrost og sólskin, sem hafi haft áhrif á pottinn. Sóknaraðili hefur neitað þessu.
Önnur sprunga kom fram síðar í pottinum. Í athugasemdum sóknaraðila segir að seinni sprungan hafi myndast vegna fyrri sprungunnar, þ.e. vatn hafi komist inn í fyrri sprunguna með þessum afleiðingum.
Ekki liggur fyrir álit hlutlauss sérfróðs aðila um orsakir þess að sprungur komu fram í pottinum. Sóknaraðili hefur þannig ekki sýnt fram á að tjónið sé af völdum leigjanda eða annarra sem hann hefur leyft afnot af húsnæðinu. Ber því að hafna kröfu hans.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu sóknaraðila er hafnað.
Reykjavík, 14. ágúst 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson