Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 71/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 71/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. maí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 15. maí 2013, tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Ástæðan var sú að kærandi hafði stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar til 30. apríl 2013 að fjárhæð 806.712 kr. sem henni bæri að endurgreiða en innifalið í fjárhæðinni er 15% álag skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að leggja 15% álag á fjárhæðina og kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 11. júlí 2013. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. janúar 2013.

 

Kæranda var með bréfi, dags. 26. mars 2013, tilkynnt að við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi komið í ljós að kærandi var skráð í nám á vorönn 2013, samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, en án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Tekið var fram að slíkt gengi í berhögg við 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 


 

 

Kærandi tjáði Vinnumálastofnun 2. apríl 2013 að hún væri í 24 ECTS-einingum við Endurmenntun Háskóla Íslands og því teldist námið ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Mál kæranda var tekið fyrir hjá Vinnumálastofnun og var hin kærða ákvörðun tekin 15. maí 2013.

 

Kærandi óskaði í tvígang eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun á grundvelli þess að hún væri að bíða eftir endanlegri niðurstöðu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Var það mat Vinnumálstofnunar að hver sem niðurstaða Lánasjóðsins yrði þá myndi það engu breyta varðandi ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda þar sem fyrir lægi að hún stundaði 24 ECTS-eininga nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og færi það í bága við 1. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda tilkynnt um synjanirnar í bréfum, dags. 12. júní og 9. júlí 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að ástæða þess að hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hafi verið sú að hún hafi ekki fengið námslán þar sem námið var í Endurmenntun Háskóla Íslands. Kærandi kveðst hafa farið með mál sitt til stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna en fengið synjun um námslán og því hafi hún talið sig eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi kveðst vera sátt við að greiða til baka þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið en kærir ákvörðun um að leggja 15% álag á fjárhæðina á þeim forsendum að um mistök en ekki svindl hafi verið að ræða.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. ágúst 2013, greinir stofnunin frá því að lög um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði gildi þegar þeir verði atvinnulausir. Stofnunin áréttar að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „námi“ sem samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Vinnumálastofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er mælt fyrir um réttindi námsmanna. Þar segir að hver sá sem stundi nám skv. c-lið 3. gr. sömu laga teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili, sé námið ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar.

 

Vinnumálastofnun vísar til þess að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins að það sé meginregla laganna að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að óumdeilt sé að kærandi hafi stundað 24 ECTS-eininga nám við Endurmenntun Háskóla Íslands. Kærandi geri engar kröfu um niðurfellingu á skuld sinni nema að því er varði 15% álag sem lagt hafi verið á ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Stofnunin vísar til ákvæðis 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar kemur meðal annars fram að fella skuli niður umrætt álag ef atvinnuleitandi færir fyrir því rök að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi aldrei upplýst um að hún hafi hafið nám við Endurmenntun Háskóla Íslands. Ef kærandi hefði haft samband við stofnunina hefði henni verið tjáð að skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri henni óheimilt að stunda svo mikið nám samhliða töku atvinnuleysisbóta. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun heimilt í undantekningartilfellum að gera námssamning við atvinnuleitanda vegna allt að 20 ECTS-eininga náms en kærandi hafi lagt stund á 24 ECTS-eininga nám og hafi nám hennar því farið umfram leyfilegt hámark samkvæmt undanþágureglu ákvæðisins. Það hafi ekki verið fyrr en við samkeyrslu gagnagrunns stofnunarinnar við Endurmenntun Háskóla Íslands að í ljós hafi komið að kærandi hefði stundað nám við skólann frá upphafi vorannar 2013.

 


 

Það sé því mat Vinnumálastofnunar að ekki sé tilefni til að fella niður 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur kæranda enda sé ekkert sem bendi til þess að um mistök stofnunarinnar sé að ræða. Í kæru segi kærandi að hún samþykki að greiða ofgreiddar bætur en krefst niðurfellingar á 15% álagi þar sem um misskilning sé að ræða af hennar hálfu. Vinnumálastofnun bendir á að vanþekking á lögum geti ekki leyst kæranda undan þeirri skyldu að fara eftir þeim. Kærandi hafi ekki haft samband við Vinnumálastofnun að fyrra bragði og tilkynnt um nám sitt. Af þeim sökum telur Vinnumálastofnun að skilyrði 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu 15% álags ekki vera uppfyllt.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. ágúst 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

Kærandi stundaði nám við Endurmenntun Háskóla Íslands samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2013. Alls þáði kærandi 701.489 kr. á tímabilinu í atvinnuleysisbætur. Með ákvörðun Vinnumálstofnunar frá 15. maí 2013 var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni þá fjárhæð auk 15% álags skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem nam 105.223 kr. Samtals nemur endurkrafa Vinnumálastofnunar 806.713 kr. Kærandi hefur fallist á að endurgreiða Vinnumálastofnun þá fjárhæð sem hún fékk greidda en mótmælir að við þá fjárhæð verði bætt 15% álagi. Ágreiningur málsins lýtur því að þeim hluta hinnar kærðu ákvörðunar er laut að skyldu kæranda að greiða Vinnumálastofnun 15% álag eða fjárhæð að höfuðstólsverðmæti 105.223 kr.


 

 

Við úrlausn þessa ágreinings verður að líta til svohljóðandi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu ákvæði er þeim sem hefur þegið atvinnuleysisbætur án þess að hafa uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skylt að endurgreiða Vinnumálastofnun þá fjárhæð auk 15% álags. Hinn tryggði þarf ekki að greiða hið 15% álag færi hann rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að um sé að ræða misskilning af hennar hálfu en hún hafi talið sig eiga rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún átti ekki rétt á námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum þar sem víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafði ekki frumkvæði að því að upplýsa Vinnumálastofnun um nám sitt hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Með vísan til þess verður ekki fallist á að kærandi hafi sett fram rök sem fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá hluti ákvörðunar Vinnumálastofnunar, að bæta við 15% álagi á endurgreiðslukröfu sína, er staðfestur.


 

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. maí 2013 að gera A að endurgreiða 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur 105.223 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta