Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 14/2013

Hinn 31. janúar 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 14/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 270/2011

 

Snorri Hjaltason

gegn

Ólafi Eggert Ólafssyni og Hörpu Lúthersdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 10. júní 2013 óskuðu Harpa Snjólaug Lúthersdóttir og Ólafur Eggert Ólafsson eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 270/2011 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. febrúar 2012. Með bréfi dags. 13. september 2013 sendi Heiðar Örn Stefánsson hrl., fyrir hönd Snorra Hjaltasonar, skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila gagnvart endurupptökubeiðni. Endurupptökubeiðendur komu á framfæri svari við þeirri greinargerð með bréfi dags. 22. október 2013. Gagnaðila voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Týrus hf. höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur endurupptökubeiðendum til greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um fasteign. Þau kröfðust sýknu og höfðuðu jafnframt mál á hendur félaginu til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna galla á hinu selda og stefndu einnig Snorra Hjaltasyni sem verið hafði byggingarstjóri við húsbygginguna. Málin voru sameinuð. Kröfugerð endurupptökubeiðenda var reist á niðurstöðu matsgerðar og varðaði 18 verkliði. Með dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 4. febrúar 2011 voru endurupptökubeiðendur sýknuð af kröfu Týrusar hf. og félaginu gert að gefa út afsal fyrir fasteigninni auk þess að greiða stefndu 3.270.158 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum til greiðsludags. Af þessari fjárhæð var Snorri Hjaltason dæmdur til að greiða óskipt með félaginu 3.103.462 krónur með sömu vöxtum. Týrus hf. undi héraðsdómi en Snorri Hjaltason skaut málinu til Hæstaréttar. Snorri reisti kröfu sína um sýknu á því að skaðabótaábyrgð hans sem byggingarstjóra umrædds verks næði ekki til þeirra verkliða sem bótakrafa endurupptökubeiðenda laut að eða að þau hefðu ekki sannað tjón sitt. Átti það síðarnefnda einkum við um verklið er varðaði frágang á þaki hússins.

Aðalkrafa endurupptökubeiðenda laut að kostnaði við að færa þak til samræmis við teikningar. Í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 2. febrúar 2012 segir eftirfarandi um þann kröfulið:

Er ljóst að áfrýjandi sinnti ekki þeirri skyldu sinni sem byggingarstjóri að sjá til þess að frágangur þaksins væri í samræmi við teikningar. Á hinn bóginn hafa stefndu samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að þau hafi beðið tjón vegna þessarar ólögmætu og saknæmu háttsemi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefndu um skaðabætur vegna þessa galla á þaki hússins.

Áfrýjandi var í héraðsdómi talinn bótaskyldur um 3.311.776 krónur vegna þessa kröfuliðar er varðar galla á þaki hússins, en hluti kröfu þeirra á hendur áfrýjanda og Týrusi hf. féll niður fyrir greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu félagsins á hendur stefndu um eftirstöðvar kaupverðs. Er fjárhæð samkvæmt þessum kröfulið sem nú hefur verið hafnað hærri en nemur þeirri kröfu sem stendur eftir á hendur áfrýjanda hér fyrir dómi. Verður krafa áfrýjanda um sýknu þegar af þeirri ástæðu tekin til greina og verður því ekki að fjallað frekar um aðra kröfuliði.

Samkvæmt dómsorði Hæstaréttar var Snorri Hjaltason sýkn af kröfu endurupptökubeiðenda og var hvorum aðila gert að bera sinn hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðendur telja að öll skilyrði 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um endurupptöku séu uppfyllt.

Hvað a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála áhrærir er á því byggt að þegar málið var flutt í Hæstarétti hafi endurupptökubeiðendur ekki vitað að nágrannar þeirra, sem voru í sambærilegum málaferlum, hafi þegar fengið greitt samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í þeirra máli. Eigendur fjögurra húsa sem eins stóð á um hefðu höfðað dómsmál gegn gagnaðila þessa máls og Týrusi hf. og hafi þrjú þeirra húsa verið sambærileg hvað varðar galla á þaki. Sami lögmaður hafi verið með málin fyrir húseigendur sem flutt voru fyrir dómi á sama tíma og fyrir sömu dómurum. Af þessum þremur málum hafi skuldastaða eigenda eins hússins gagnvart byggingarfélaginu orðið til þess að máli þeirra hafi ekki verið áfrýjað. Í því máli hafi byggingarfélagið átt háa kröfu á hendur húseigendunum vegna eftirstöðva kaupverðs og gekk sú fjárhæð upp í dæmdar skaðabætur til húseigenda. Gagnaðili endurupptökumáls þessa hafi því verið sýknaður í því máli vegna skuldajöfnuðar. Hann hafi því ekki áfrýjað málinu til Hæstaréttar þótt hann teldist í dómi héraðsdóms vera bótaábyrgur vegna galla á þaki. Þar sem málin og gallarnir voru eins telja endurupptökubeiðendur hér um mismunun að ræða sem sé brot á 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Þá telja endurupptökubeiðendur að lögmaður þeirra hafi vanrækt skyldu sína til að gæta réttar þeirra með því að nefna ekki í greinargerð sinni til Hæstaréttar að viðkomandi tryggingafélag væri búið að viðurkenna bótaskyldu með uppgjöri framangreinds máls. Telja þau að niðurstaðan í þeirra máli hefði orðið önnur ef þær upplýsingar hefðu komið fram.

Hvað varðar b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er á því byggt að tölvubréf frá Vátryggingafélagi Íslands hf., dags. 20. febrúar 2012, sem gætti hagsmuna gagnaðila fyrir dómi, sýni fram á að mismunun hafi átt sér stað við uppgjör tryggingafélagsins við endurupptökubeiðendur og í sambærilegu máli nágranna þeirra þar sem málsatvik voru með svipuðum hætti. Jafnframt telja endurupptökubeiðendur að mat dómkvadds matsmanns á þaki húss þeirra hafi falið í sér í þversögn, til dæmis hafi verið talið að þakið væri ódýrara og ekki í samræmi við teikningar, en á sama tíma að þau hafi ekki orðið fyrir skaða vegna þess. Endurupptökubeiðendur eru nokkuð viss um að ef nýr matsmaður yrði fenginn til að meta þakið fengist ekki sama niðurstaða. Óski endurupptökunefnd eftir nýju mati muni endurupptökubeiðendur útvega slíkt.

Hvað c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála varðar er byggt á því að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir endurupptökubeiðendur. Hefðu þau fengið greitt eins og nágrannar þeirra hefðu þau átt að fá nálægt 6.000.000 krónur með vöxtum. Þessi upphæð eða bara málskostnaðurinn endurgreiddur myndi breyta miklu fyrir fjölskylduna.

Þá byggja endurupptökubeiðendur á því að mistök dómara hafi átt sér stað. Hafi þau í raun unnið alla liði málsins. Þeim hafi hins vegar ekki verið dæmdar bætur fyrir einn lið þrátt fyrir að sá liður sé viðurkenndur sem brot gegn þeim. Samkvæmt neytendalögum hafi þau átt að fá mismuninn endurgreiddan.

Jafnframt telja endurupptökubeiðendur að með vísan til XXI. kafla laga um meðferð einkamála hafi dómara verið óheimilt að dæma þau til greiðslu málskostnaðar. Vísa þau þar til 131. gr. laganna og þeirrar staðreyndar að í forsendum dóms Hæstaréttar sé kveðið á um að byggingarstjóri hafi brotið á þeim með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Jafnframt að dómurinn hafi ekki tekið tillit til þess að umfjöllun um þann lið málsins er varðar þakið hafi verið örlítið brot af allri lögfræðivinnunni og vinnunni við matsgerðina. Í raun hafi þau unnið 95 prósent málsins og ættu í það minnsta að fá greiddan málskostnaðinn sem héraðsdómur dæmdi.

IV.      Viðhorf gagnaðila

Með bréfi dags. 13. september 2013 var sjónarmiðum gagnaðila komið á framfæri. Fyrir hönd gagnaðila var lagst gegn endurupptöku.

Í fyrsta lagi sé því alfarið hafnað að jafnræðisreglur 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið brotnar. Samhliða máli endurupptökubeiðanda hafi verið rekin tvö önnur sambærileg mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness, mál nr. E-2253/2009 og nr. E-2254/2009. Gagnaðili hafi verið sýknaður í máli nr. E-2253/2009 af kröfum bótakrefjenda en dæmdur til greiðslu bóta í málum nr. E-2254/2009 og nr. E-2255/2009 (máli endurupptökubeiðenda) með Týrusi hf. Í máli nr. E-2253/2009 hafi sú staða verið uppi að allt það tjón sem gagnaðili var talinn bera ábyrgð á í héraðsdómi var greitt með skuldajöfnuði milli Týrusar hf. og húseigenda. Því hafi ekki komið til greiðslu úr hendi gagnaðila. Hvorki hann né tryggingafélag hans höfðu forræði á þessum skuldajöfnuði.

Á því er byggt af hálfu gagnaðila að einkaaðilum sé frjálst að taka ákvarðanir um áfrýjun mála byggða á mati á þeim hagsmunum sem í húfi eru. Það sé sjaldséð að einkaaðilar áfrýi sýknudómum og vart unnt að skylda þá til slíks. Jafnræðisregla sé ekki brotin nema sambærileg mál fái mismunandi meðhöndlun. Í þessu tilviki hafi málin einfaldlega ekki verið sambærileg. Gagnaðili hafi verið sýknaður í einu málana og því ekki ástæða til að áfrýja því máli til Hæstaréttar þótt niðurstaða héraðsdóms hafi verið röng hvað skaðabótaskyldu hans vegna þakfrágangs varðaði.

Að lokum er bent á að öll atvik varðandi niðurstöðu málanna fyrir héraðsdómi og hvaða málum var áfrýjað hafi legið fyrir er Hæstiréttur kvað upp dóm sinn.

Í öðru lagi telur gagnaðili að tölvubréf Vátryggingafélags Íslands hf. feli ekki í sér viðurkenningu að niðurstaðan sé röng og leiði ekki sterkar líkur að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Hafi endurupptökubeiðendur verið ósátt við niðurstöðu matsmanns á sínum tíma var þeim í lófa lagið að afla nýs mats. Fyrst þau gerðu það ekki verði þau að bera hallann af því. Niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar virðist að miklu leyti byggð á mati á því sem lá fyrir í málinu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 44. laga um meðferð einkamála metur dómari hverju sinni hvort sýnt hafi verið fram á að atvik hafi gerst eða að atriði sé með tilteknum hætti, á grundvelli fyrirliggjandi gagna og vitneskju um viðkomandi efni. Verði ekki séð að endurupptökunefnd hafi heimild til þess að endurskoða mat Hæstaréttar á því hvort sannað hafi verið að tjón í skilningi skaðabótaréttar hafi hlotist af þakfrágangi hússins. Þar fyrir utan sé ekkert komið fram í málinu sem leitt hefur sterkar líkur að því að ný gögn, jafnvel þótt þeirra yrði aflað nú, myndu breyta einhverju.

Í þriðja lagi þá telur gagnaðili að ákvörðun um málskostnað sé reist á frjálsu mati Hæstaréttar. Ekki verði séð að endurupptökunefnd hafi heimild til að endurmeta þá ákvörðun eða telja að réttara hafi verið að líta til annarra sjónarmiða. Auk þess verði ekki annað séð en að ákvörðunin hafi verið í fullu samræmi við dómaframkvæmd og ákvæði laga um meðferð einkamála.

V.        Frekari athugasemdir aðila

Að framkomnum viðhorfum gagnaðila bárust endurupptökunefnd frekari athugasemdir af hálfu endurupptökubeiðenda. Árétta þau þar fyrri sjónarmið til stuðnings endurupptöku.

Endurupptökubeiðendur árétta að ástæða sýknu í máli nr. E-2253/2009 hafi einfaldlega verið vegna skuldajöfnuðar. Niðurstaða héraðsdóms í því máli hafi verið nákvæmlega eins og í þeirra máli varðandi þakið og hefði því átt að vera áfrýjað samhliða þeirra máli þar sem annað feli í sér mismunun. Jafnframt telja endurupptökubeiðendur sjónarmið í greinargerð gagnaðila til endurupptökunefndar staðfesta að um mismunun hafi verið að ræða þar sem þar sé tekið fram að dómur héraðsdóms hafi verið rangur en samt hafi honum ekki við áfrýjað í tilfelli nágranna þeirra. Óska þau því eftir að greinargerð gagnaðila verði talin til nýrra sönnunargagna sem sterkar líkur séu á að verði til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Þá taka þau fram að þeir húseigendur, sem fengu greitt eftir héraðsdóm, séu tryggð hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. á meðan þau og eigendur þriðja hússins séu tryggð hjá Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Vátryggingafélag Íslands hafi því haft meiri ástæðu til að áfrýja ekki máli tryggingartaka sinna  þar sem tryggingafélagið hefði hvort sem er þurft að greiða þeim málsvarnartrygginguna.

Að lokum mótmæla endurupptökubeiðendur því að upplýsingar um uppgjör við nágranna þeirra hafi legið fyrir þegar Hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Þau hafi haft samband við lögmann sinn strax eftir niðurstöðu Hæstaréttar og spurt hvort dómarar hafi ekki vitað af málinu sem fékkst greitt. Lögmaður þeirra hafi sagt svo ekki vera enda hefði hann ekki talið það skipta máli. Endurupptökubeiðendur hafi verið viðstödd málflutninginn í Hæstarétti og geti staðfest að það hafi heldur ekki komið fram í ræðu lögmannsins.

VI.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Endurupptökubeiðendur telja eins og framan greinir að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna sé uppfyllt á þeim forsendum að þegar málið var flutt fyrir Hæstarétti hafi þau ekki vitað að nágrannar þeirra, sem voru í sambærilegum málaferlum, hafi þegar fengið greitt samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-2253/2009, sem ekki var áfrýjað til Hæstaréttar. Telja endurupptökubeiðendur að með því hafi mun hagstæðari niðurstaða fengist í því máli heldur en þeim málum sem áfrýjað var.  Endurupptökubeiðendur telja hér um mismunun að ræða sem sé brot á 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í máli endurupptökubeiðenda fyrir Hæstarétti var deilt um hvort fasteign þeirra væri haldin slíkum annmörkum að þau ættu rétt á skaðabótum úr hendi gagnaðila á grundvelli ábyrgðar hans sem byggingarstjóra, umfram þá fjárhæð sem þau höfðu nýtt til skuldajafnaðar við kröfu Týrusar hf. um greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði ekki sinnt sinni skyldu sem byggingarstjóri að sjá til þess að frágangur þaks væri í samræmi við teikningar. Aftur á móti komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að þau hefðu beðið tjón vegna þessarar ólögmætu og saknæmu háttsemi gagnaðila.

Í fyrrgreindu máli nr. E-2253/2009, sem rekið var samhliða máli endurupptökubeiðenda, var gagnaðili sýknaður þar sem það tjón sem hann var talinn bera ábyrgð á var greitt með skuldajöfnuði milli Týrusar hf. og húseigenda. Gagnaðili kaus að áfrýja því máli ekki. Þau málalok fela ekki í sér líkur á að málsatvik í máli endurupptökubeiðenda hafi ekki verið leidd réttilega í ljós á meðan mál þeirra var til meðferðar, sbr. ákvæði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Auk þess verður ekki annað séð en að endurupptökubeiðendur hafi haft tækifæri til að koma upplýsingum um lyktir máls nr. E-2253/2009 á framfæri við Hæstarétt ef þau töldu þá dómsniðurstöðu geta haft áhrif á niðurstöðu máls þeirra. Sami héraðsdómslögmaður annaðist um rekstur beggja málanna fyrir héraðsdómi, og síðar var sami hæstaréttarlögmaður með þau mál sem áfrýjað var til Hæstaréttar. Meðal annars á þeim grunni mátti endurupptökubeiðanda vera ljóst að máli nr. E-2253/2009 hefði ekki verið áfrýjað.

Að framansögðu er ljóst að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a – c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt og gerist því ekki þörf á að fjalla frekar um aðra liði.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Hörpu Snjólaugar Lúthersdóttur og Ólafs Eggerts Ólafssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 270/2011 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. febrúar 2012 er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta