Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2013

Þriðjudaginn 11. febrúar 2014


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. júlí 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B hdl., f.h. A, dags. 15. júlí 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. júní 2013, þar sem henni var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna andláts hins foreldris á meðgöngu.  

Með bréfi, dags. 19. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 23. júlí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. júlí 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 15. ágúst 2013.

Með úrskurði sínum í máli kæranda, dags. 7. janúar 2014, komst úrskurðarnefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna í tólf mánuði. Vegna mistaka sem úrskurðarnefnd hafa nú orðið ljós þykir nefndinni rétt að afturkalla ákvörðun sína og taka málið til meðferðar á ný, sbr. tilkynningu nefndarinnar, dags. í dag. Nefndin telur augljóslega óþarft að kalla eftir andmælum kæranda eða umsögn Fæðingarorlofssjóðs við vinnsluna þar sem um er að ræða mistök þar sem rangur lagatexti var lagður til grundvallar við úrlausn málsins.

 

I. Málsatvik.

Kærandi eignaðist barn þann Y. febrúar 2013. Faðir barnsins lést á meðgöngunni. Kærandi sótti um fæðingarstyrk námsmanna skv. 2. mgr. 19. gr. ffl. vegna andláts hins foreldris á meðgöngu. Þann 5. júní 2013 var kæranda synjað um greiðslur vegna andláts hins foreldris á meðgöngu þar sem hjúskapar- og sambúðarstaða kæranda og hins láta foreldris var með þeim hætti er hið látna foreldri lést að kærandi hefði ein farið með forsjá barnsins við fæðingu þess. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála tók þá ákvörðun í máli kæranda, með úrskurði dags. 7. janúar 2014, að kærandi ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna í tólf mánuði.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Endanlegar kröfur kæranda eru þær að úrskurðað verði að hún eigi rétt á fæðingarstyrk í tólf mánuði.

Kærandi greinir frá því að þegar barnsfaðir kæranda hafi látist hafi hann og kærandi verið kærustupar. Kærandi hafi aðeins verið 16 ára gömul og ekki tímabært að hefja sambúð. Skömmu eftir andlát hans hafi kærandi komist að því að hún gengi með barn hans sem hafi svo fæðst þann Y. febrúar 2013.

Kærandi sé námsmaður og eigi rétt til fæðingarstyrks, sbr. 19. gr. laga um fæðingar og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.). Samkvæmt 2. mgr. 19. gr., sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, skuli foreldri sem sé utan vinnumarkaðar öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tíu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðst lifandi.

Kæranda hafi verið synjað um yfirfærslu réttinda föður með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. júní 2013, og vísað til þess að þau hafi ekki verið skráð í sambúð/hjúskap við andlátið.

Þessari afstöðu sé alfarið mótmælt og byggt á því að 2. mgr. 19. gr. standi sjálfstætt og að ekki sé um að ræða yfirfærslu á réttindum föður. Því skipti hér engu máli hvort kærandi og barnsfaðir hennar hafi verið skráð í sambúð/hjúskap við andlát hans. Skilyrðin séu aðeins að eftirlifandi foreldri hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði af síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins og staðist kröfur um námsframvindu, hitt foreldrið hafi andast á meðgöngu og að barnið hafi fæðst lifandi.

Þessi skilyrði séu öll fyrir hendi í máli kæranda og því eigi hún rétt á fæðingarstyrk í tíu mánuði. Því sé alfarið mótmælt að um sé að ræða yfirfærslu á réttindum föður. Hann hafi látist rétt eftir getnað og því aldrei öðlast sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 17. desember 2012, hafi kærandi sótt um greiðslur fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði og verið afgreidd með fæðingarstyrk námsmanna í samræmi við umsóknina, sbr. greiðsluáætlun, dags. 22. febrúar 2013.

Kærandi hafi jafnframt sótt um að fá greidda þrjá mánuði til viðbótar vegna andláts hins foreldris á meðgöngu barns. Með þeirri umsókn hafi fylgt tölvupóstur lögmanns kæranda, dags. 31. maí 2013, yfirlit um framvindu skipta, dags. 1. mars 2013, og endurrit Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. E-60/2013. Enn fremur hafi legið fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands.

Þann 5. júní 2013 hafi kæranda verið synjað um greiðslur vegna andláts hins foreldrisins á meðgöngu barns.

Í 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 136/2011, 16. gr. laga nr. 74/2008 og 7. gr. laga nr. 143/2012, komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. skuli foreldri sem hefur verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.

Ákvæði um rétt eftirlifandi foreldris til lengra fæðingarorlofs, hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi, hafi fyrst komið inn í lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 með lögum nr. 74/2008. Fram að þeim tíma hafi verið ákvæði í lögunum sem hafi tekið til tilvika þegar báðir foreldrar hafi verið á lífi við fæðingu barns en annað foreldrið andaðist síðar og hafi þá réttur sem hið látna foreldri hafði á þeim tímapunkti ekki þegar nýtt sér, getað flust yfir til eftirlifandi foreldris.

Af þessu tilefni þyki rétt að rekja að nokkru tilurð ákvæðanna. Í athugasemdum með 16. gr. laga nr. 74/2008 komi fram að þær breytingar sem lagðar séu til á 19. gr. laganna svari til þeirra breytinga sem lagðar séu til á 18. gr. laganna. Í athugasemdum við 15. gr. laganna, sem hafi breytt 18. gr., komi fram að lagt sé til að gerð verði sambærileg breyting á rétti foreldra til fæðingarstyrks og lagt sé til með b-lið 5. gr. frumvarpsins að gerð verði á rétti foreldra til fæðingarorlofs í tilvikum þegar annað foreldrið andist á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Í athugasemdum við b-lið 5. gr. frumvarpsins segi svo um þetta:

 „Komið hafa upp tilvik þar sem annað foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og þar með hefur ekki stofnast til réttar þess foreldris til fæðingarorlofs samkvæmt lögunum. Yfirfærsla réttinda skv. 7. mgr. 8. gr. (nú 8. mgr. 8. gr.) laganna hefur því ekki komið til álita enda þótt tilvikin séu að öðru leyti sambærileg. Þykir ástæða til að breyta þessu til að gæta sanngirni. Í ljósi þess að ekki getur komið til yfirfærslu réttinda milli foreldra í þessum tilvikum er lagt til að þegar annað foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi öðlist eftirlifandi foreldrið rétt til fæðingarorlofs sem svarar til réttinda beggja foreldra. Þegar metinn er réttur hins eftirlifandi foreldris á grundvelli laganna er farið eftir aðstæðum þess foreldris óháð stöðu hins látna foreldris við andlátið þannig að hafi eftirlifandi foreldrið verið á vinnumarkaði getur það átt rétt til allt að níu mánaða fæðingarorlofs. Hafi eftirlifandi foreldrið hins vegar verið utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða námi getur það átt rétt til fæðingarstyrks til jafnlangs tíma, sbr. 15. og 16. gr. frumvarps þessa.“

Þannig komi fram í athugasemdunum að yfirfærsla réttinda samkvæmt þágildandi 7. mgr. 8. gr. hafi ekki getað komið til álita í tilvikum þar sem annað foreldrið hafi andast á meðgöngu barnsins og það fæðist lifandi þrátt fyrir að tilvikin væru að öðru leyti sambærileg. Skýrist það af því að ákvæðið hafi einungis tekið til heimildar til yfirfærslu réttinda vegna andláts foreldris eftir fæðingu barns eins og rakið hafi verið hér að framan. Löggjafanum hafi því þótt ástæða til að breyta þessu til að gæta sanngirni. Af framansögðu sé jafnframt ljóst að ætlun löggjafans hafi verið að hið sama gilti um beitingu ákvæðanna að öðru leyti.

Í samræmi við það þyki einnig rétt að rekja athugasemdir við 7. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 (nú 8. mgr. 8. gr.) en það sama gildir varðandi 11. mgr. 18. gr. og 14. mgr. 19. gr. laganna sem hafi komið inn með breytingalögum nr. 90/2004, en þar segi orðrétt:

 „Sérstök undanþága á banni við framsali á fæðingarorlofi er gerð í 7. mgr. Á það við þær aðstæður þegar annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri og það hefur ekki tekið út fæðingarorlof sitt. Færist þá sá réttur sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Það er skilyrði að hið látna foreldri hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi það farið með forsjá barnsins. Hafi hið látna foreldri átt rétt til greiðslna í fæðingarorlofi skal miða við heildartekjur eftirlifandi foreldris skv. 13. gr.“

Í þessu máli reyni samkvæmt öllu framangreindu á það skilyrði hvort hið látna foreldri hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs og það þannig sjálfkrafa hlotið forsjá barnsins samkvæmt barnalögum við fæðingu þess, hefði það verið á lífi, svo unnt sé að yfirfæra réttindin á móður.

Samkvæmt meginreglunni í 6. mgr. 8. gr. ffl. komi fram að réttur foreldris til fæðingarorlofs sé bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefjist, sbr. þó [7. mgr.]. Í 7. mgr. 8. gr. ffl. komi fram að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.

Í 1. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003, komi síðan fram að barn eigi rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem séu í hjúskap, sbr. þó 3. mgr. 31. gr., eða hafi skráð sambúð sína í þjóðskrá. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns þá fari móðir ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr. Í 1. mgr. 32. gr. laganna sé fjallað um að foreldrar geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg en samningur um forsjá barns öðlist gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 5. mgr. 32. gr.

Fyrir liggi í gögnum málsins að hjúskaparstaða/sambúðarstaða hins látna og kæranda hafi verið með þeim hætti er hann lést að kærandi hefði ein farið með forsjá barnsins við fæðingu þess. Af þeim völdum geti ákvæði 2. mgr. 19. gr. ffl. ekki komið til álita í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi því réttilega verið synjað um yfirfærslu réttinda skv. 2. mgr. 19. gr. ffl. með bréfi, dags. 5. júní 2013.

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Kærandi bendir á að í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs komi fram að synjun um fæðingarstyrk umfram sex mánuði sé byggð á því að í 2. mgr. 19. gr. ffl. sé um að ræða yfirfærslu á réttindum foreldris sem hafi látist á meðgöngutíma til eftirlifandi foreldris. Þar sem hjúskaparstaða kæranda hafi verið slík við andlát föður barnsins að hún hefði ein farið með forsjá barnsins, ef hún hefði verið óbreytt við fæðingu barnsins, hafi barnsfaðir hennar ekki átt rétt til fæðingarorlofs eða -styrks og því geti 2. mgr. 19. gr. ekki átt við.

Þessari afstöðu sé harðlega mótmælt.

Í fyrsta lagi sé byggt á því að samkvæmt orðum 2. mgr. 19. gr. eigi kærandi rétt á fæðingarstyrk. Eins og rakið hafi verið í kæru, dags. 15. júlí 2013, komi þar skýrt fram skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks og séu þau skilyrði uppfyllt í þessu máli. Byggt sé á því að ekki sé heimilt að þrengja rétt kæranda með tilvísun til skilyrða í öðrum ákvæðum laganna, sem eigi við um aðrar aðstæður. Þá verði réttur kæranda heldur ekki skertur á grundvelli túlkunar á líklegum vilja löggjafans samkvæmt greinargerð með lagafrumvarpi.

Í öðru lagi sé vísað til þess að í athugasemdum um 5. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 74/2008 segi að þegar annað foreldri hafi andast á meðgöngu barns hafi það foreldri ekki öðlast rétt til fæðingarorlofs. Því geti yfirfærsla réttinda ekki komið til álita í slíkum aðstæðum. Löggjafinn hafi því talið rétt að eftirlifandi foreldrið myndi öðlast rétt til fæðingarorlofs sem hafi svarað til réttinda beggja foreldra. Sjálfstæði eftirlifandi foreldris endurspeglast meðal annars í því, að við ákvörðun um hvort um sé að ræða fæðingarstyrk eða -orlof sé ekki horft til stöðu þess látna við andlátið, heldur sé aðeins horft til stöðu þess eftirlifandi.

Í þriðja lagi sé byggt á því að það sé fráleitt að reisa stjórnvaldsákvörðun á ágiskun stjórnvalda um hvaða ákvörðun foreldrarnir hefðu tekið ef bæði hefðu lifað fæðingu barnsins. Slíkar vangaveltur geti vart talist til málefnalegra sjónarmiða og fullnægjandi grundvöllur fyrir takmörkun á réttindum kæranda. Hér megi jafnframt nefna að í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi aðilum ekki einu sinni verið þungun kunnug þegar faðirinn hafi látist og þeim hefði því ekki gefist nokkur kostur á að taka ákvörðun um framhaldið.

Samkvæmt öllu framangreindu sé byggt á því að í 2. mgr. 19. gr. sé um að ræða sjálfstæðan rétt eftirlifandi foreldris og tilvísun til skilyrðis í 7. mgr. 8. gr. laganna eigi ekki við.

Við gerð kæru, dags. 15. júlí 2013, hafi lögmanni kæranda orðið það á að stökkva fram um eitt ár. Krafan hafi því verið miðuð við reglu sem eigi við um börn sem fæðist árið 2014, sbr. 2. mgr. i.f. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. lög nr. 143/2012.

Í 2. mgr. 19. gr. segi að við þær aðstæður sem þar sé lýst öðlist eftirlifandi foreldri rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði. Byggt sé á því að lögbundinn réttur kæranda skv. 2. mgr. 19. gr. ffl. verði ekki skertur nema með lagaboði og því eigi hún rétt á fæðingarstyrk í tólf mánuði.

 

V. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna andláts hins foreldris.  

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri sem hefur verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði af síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.

Samkvæmt skýru lagaákvæði er hér um að ræða sjálfstæðan rétt eftirlifandi foreldris til greiðslu fæðingarstyrks ólíkt því þegar annað foreldra andast eftir fæðingu en fyrir 18 mánaða aldur barns sem leiðir til yfirfærslu réttinda, sbr. 14. mgr. 19. gr. ffl.

Því kemur ekki til skoðunar þegar annað foreldra andast á meðgöngu hvort hið látna foreldri hefði uppfyllt skilyrði laganna um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks.

Óumdeilt er í málinu að kærandi uppfyllir öll skilyrði greiðslu fæðingarstyrks skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. Faðir barnsins lést á meðgöngu og barnið fæddist lifandi. Öllum skilyrðum 2. mgr. 19. gr. ffl. fyrir greiðslu fæðingarstyrks í níu mánuði er því fullnægt. Ekkert hefur fram komið um aðrar ástæður sem leitt gætu til þess að réttur kæranda verði skertur. Verður því fallist á kröfu kæranda um lengingu fæðingarstyrks vegna andláts hins foreldris þannig að hún eigi rétt til fæðingarstyrks í níu mánuði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um greiðslu fæðingarstyrks vegna andláts hins foreldris á meðgöngu barns er felld úr gildi. Kærandi á rétt til fæðingarstyrks í níu mánuði.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta