„Ferðamenn eyði 700 milljörðum á Íslandi árið 2030“
- Bætum samkeppnishæfni Íslands
- Fjölga störfum í menningu og skapandi greinum
- Endurreisum ferðaþjónustuna
„Með samþættingu málefnasviða nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis eru skapaðar forsendur fyrir ný tækifæri og sókn í þágu samfélagsins alls og stuðlað að vexti og velsæld til framtíðar,” sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra á opnum kynningarfundi í Norðurljósasal Hörpu í dag. Nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti tekur til starfa í dag.
Hér má horfa á kynningarfundinn:
Verðmætasköpun í skapandi umhverfi
Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu mætast málaflokkar viðskipta, ferðaþjónustu og menningar. Sköpun og ferðaþjónusta eru skurðpunktar milli menningar og viðskipta.
„Málaflokkar nýs ráðuneytis vera burðarásar í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins til framtíðar. Markmiðið er að ferðamenn eyði 700 milljörðum króna hér á landi árið 2030,“ sagði ráðherra. „Hlutverk ríkisins er að móta umhverfi þar sem sköpunarkrafturinn þrífst, verðmætaskapandi umhverfi fyrir atvinnu- og menningarlíf. Það styrkir samkeppnishæfni okkar sem ekki aðeins snertir atvinnulífið heldur allt samfélagið í heild sinni.“
Ferðaþjónusta- Menning- Viðskipti: Umhverfi fyrir vöxt og velsæld
- Ljóst er að ferðaþjónustan og menningargeirinn njóta gagnkvæms ávinnings af velgengni og hagsmunir þeirra að miklu leyti samofnir. Þannig hafa íslenskir menningarviðburðir á borð við tónlistar- og kvikmyndahátíðir verið aðdráttarafl ferðamanna um árabil.
- Að sama skapi njóta skapandi greinar góðs af stærri markaði sem fylgir fjölgun ferðamanna og aukinni eftirspurn eftir íslenskri list og menningu.
- Með stuðningskerfi skapandi greina og almennri lagaumgjörð viðskiptalífsins skapast grundvöllur til framþróunar .
- Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Fyrstu hundrað dagarnir
Ráðherra kynnti helstu verkefni fyrstu 100 daga nýs ráðuneytis þar á meðal áframhald markaðsátaksins Saman í sókn, lokum endurskoðunar á skipulagi og starfsemi lista- og menningarsjóða og starfslauna listamanna, heildarstefnumótun í neytendamálum og undirbúning að stofnun Tónlistarmiðstöðvar og gerð tónlistarstefnu.
„Við ætlum að byggja á því góða sem er til staðar, sækja fram og hækka sköpunarvísitölu Íslands – þannig stuðlum við að endurreisn efnahagslífsins og tryggjum góðan grundvöll til framtíðar. Það er hugvitið, þekkingin og sköpunin sem er megindrifkraftur þeirra framfara sem við stefnum að,“ segir Lilja.