Nr. 422/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 422/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19060014
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 11. júní 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisfangslaus (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. maí 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga og 3. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. janúar 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku og Þýskalandi. Þann 18. janúar 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá dönskum yfirvöldum, dags. 30. janúar 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 27. maí 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 28. maí 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 11. júní 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 21. júní 2019 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að dönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Danmerkur.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að aðstæður hans í Danmörku hafi verið erfiðar. Árið 2016 hafi hann verið færður í brottflutningsmiðstöð í kjölfar þess að hann fékk lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Þá hafi hann misst allan rétt til heilbrigðisþjónustu og fjárhagsaðstoðar, auk þess sem andlegri heilsu hans hafi hrakað mikið. Kærandi greini frá því að hann hafi haldið sig innandyra af ótta við að eyðileggja mál sitt fyrir dönskum stjórnvöldum. Þá greini kærandi frá því að hann séríkisfangslaus. Foreldrar hans séu frá [...] en hann hafi fæðst í flóttamannabúðum í [...] þar sem hann hafi ekki fengið útgefin skilríki.
Kærandi gerir ítarlega grein fyrir aðstæðum, aðbúnaði og réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku og vísar í því sambandi til fjölda skýrslna alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Þar komi m.a. fram að í kjölfar aukningar á umsóknum um alþjóðlega vernd í Danmörku árin 2014 og 2015 hafi stjórnvöld ráðist í fjölmargar aðgerðir sem miði m.a. að því að draga úr veitingum á alþjóðlegri vernd, herða útlendingalöggjöf landsins og stýra einstaklingum sem hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni með skilvirkari hætti til upprunalands, t.d. með því að koma þeim fyrir í miðstöðvum fyrir brottflutning. Kærandi telji allar líkur á því að honum verði aftur komið fyrir í slíka miðstöð, verði hann sendur aftur til Danmerkur, þar sem hann muni hafa takmarkað ferðafrelsi, enga framfærslu og algjöra lágmarksþjónustu. Kærandi kveði að stefna danskra stjórnvalda þegar kemur að varðhaldi umsækjenda hafi sætt harkalegri gagnrýni en frjáls félagasamtök hafi m.a. komið því á framfæri að dönsk stjórnvöld haldi ekki utan um fjölda þeirra umsækjanda sem séu hnepptir í varðhald, að hámarkstími varðhalds sé alltof langur, aðbúnaður í varðhaldsmiðstöðvum sé slæmur og að virkt aðhald sjálfstæðra dómstóla með framferði stjórnvalda vanti. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vakið athygli á því að ofangreindar aðgerðir danskra stjórnvalda ali á útlendingaandúð og geti haft lífshættulegar afleiðingar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Í fyrsta lagi telji kærandi að honum muni ekki standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta eða aðgangur að húsnæði þrátt fyrir fullyrðingar stofnunarinnar þess efnis í hinni kærðu ákvörðun. Í öðru lagi telji kærandi óvarlegt af Útlendingastofnun, í ljósi þess að kærandi hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni í Danmörku og verið komið fyrir í miðstöð fyrir brottflutning, að fullyrða að ekki hafi verið sýnt fram á að dönsk yfirvöld muni ekki veita kæranda þá vernd sem áskilin er í alþjóðlegum skuldbindingum á sviði mannréttinda, þ. á m. reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu (non-refoulement). Í þriðja lagi mótmæli kærandi fullyrðingu stofnunarinnar þess efnis að hann eigi raunhæfa möguleika á því að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Danmörku og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu en afar erfitt sé að fá mál sitt endurupptekið hjá dönskum stjórnvöldum. Loks geri kærandi athugasemd við beitingu Útlendingastofnunar á reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Meðal annars geri kærandi athugasemd við lagastoð reglugerðarinnar vegna þeirra skilyrða sem þar séu sett fram um mat á sérstökum ástæðum. Kærandi vísi þá jafnframt til þess að þau viðmið sem sett séu fram í 32. gr. a reglugerðarinnar séu nefnd í dæmaskyni og geti því ekki komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda. Kærandi telji að aðstæður hans séu það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, svo sem fram komi í framangreindu ákvæði reglugerðarinnar. Þá telji kærandi að hann muni eiga afar erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, verði honum gert að snúa aftur til Danmerkur, enda hafi hann þegar fengið lokasynjun á umsókn sinni þar í landi.
Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi vísi til þess að íslenska ríkið sé bundið af grundvallarreglunni um non-refoulement þar sem lagt sé bann við því að senda einstakling þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu. Vísi kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, svo og 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Kærandi greini frá því að lokasynjun danskra stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd frá árinu 2016 hafi ekki komið til framkvæmda sökum þess að hvorki [...] né [...] hafi samþykkt að taka við honum og hafi hann því verið réttlaus með öllu í Danmörku síðastliðin þrjú ár. Þá telji kærandi, í ljósi yfirvofandi endursendingar hans til [...], að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að vísa almennt til þess að í Danmörku sé veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda þangað sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað.
Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í öðru lagi á því að umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi skuli tekin til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi fjallar kærandi m.a. um túlkun á 2. mgr. 36. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum við ákvæðið og hugtakinu sérstaklega viðkvæm staða, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi greini frá því, sem fyrr segir, að hann sé réttlaus með öllu í Danmörku. Þá telji kærandi, í ljósi þess að nær ógerlegt hafi reynst fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að sækja um endurupptöku á máli sínu í Danmörku, að möguleikar hans á því að fá ríkisfangsleysi sitt viðurkennt þar í landi séu hverfandi. Standi hann því frammi fyrir því að vera brottvísað til [...] þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, engin tengsl og réttindi hans sem ríkisfangslauss einstaklings séu engin. Þá reki kærandi niðurstöðu rannsóknar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem m.a. komi fram að ríkisfangslausum einstaklingum sé oft mismunað, auk þess sem þeir upplifi oft fátækt og óvissu, m.a. vegna erfiðleika við að afla staðfestingu á auðkenni. Með vísan til framangreinds telji kærandi að til staðar séu slíkar sérstakar ástæður fyrir hendi í máli hans sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Danmerkur á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja dönsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára einstæður karlmaður. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun m.a. vera kvíðinn og stressaður. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur m.a. fram að kærandi sé almennt heilbrigður maður. Þá hefur kærandi greint frá því að hann sé ríkisfangslaus og ólæs. Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.
Aðstæður í Danmörku
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Amnesty International Report 2017/18 - Denmark (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 1. júní 2019);
- Asyl – Status 2018 (Institut for Menneskerettigheder, 22. júní 2018);
- Country Profile – Denmark (European Database of Asylum Law, 1. febrúar 2018);
- Denmark 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);
- ECRI Report on Denmark (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 16. maí 2017);
- Freedom in the World 2019 – Denmark (Freedom House, 4. febrúar 2019);
- Human Rights in Denmark – Status 2016-17 (Institut for Menneskerettigheder, 2017);
- The Asylum Procedure in Denmark (Danish Refugee Council, desember 2015);
- Upplýsingar af vefsíðum dönsku útlendingastofnunarinnar (www.nyidanmark.dk) og samtakanna Dansk Flygtningehjælp (flygtning.dk) og Refugees Welcome (refugees.dk og refugeeswelcome.dk).
Í ofangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku. Sé umsókn synjað eiga umsækjendur þess kost að bera synjunina undir sérstaka kærunefnd útlendingamála (d. Flygtningenævnet). Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn, telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans, sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans. Umsækjendur njóta túlkaþjónustu við málsmeðferðina og er endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð veitt á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök umsækjendum lögfræðiaðstoð, þeim að kostnaðarlausu.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að dvelja í Danmörku meðan á málsmeðferð stendur. Dönsku útlendingastofnuninni ber að sjá umsækjendum fyrir húsnæði, alla jafna í þar til gerðum móttökumiðstöðvum, og samgöngum vegna funda á vegum hins opinbera, s.s. málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum eða heilbrigðisþjónustu. Þá er greiddur vasapeningur, fyrir mat og hreinlætisvörum, til umsækjenda sem ekki fá fæði í búsetuúrræðinu sínu. Sé umsækjandi ekki samvinnuþýður, s.s. við tilfærslu milli búsetuúrræða eða brottflutning, getur það þó orðið til þess að framangreind þjónusta sé skert að einhverju leyti. Af ofangreindum gögnum verður ráðið að umsækjendur sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd eru að jafnaði til fluttir í brottflutningsmiðstöðvar, þ. á m. Kærshovedgård, þar til af flutningi til heimaríkis verður. Þar sé einstaklingum tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu auk þess sem í boði eru þrjár máltíðir á dag. Þá sé rafræn aðgangsstýring notuð í brottflutningsmiðstöðvum til að hafa eftirlit með ferðum þeirra er þar dvelja.
Sem fyrr segir ber danska útlendingastofnunin kostnað af dvöl umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku en heilbrigðisþjónusta við umsækjendur og aðra erlenda ríkisborgara er ekki hluti af danska sjúkratryggingakerfinu. Á ofangreindri vefsíðu stofnunarinnar kemur fram að hún standi undir kostnaði við brýna heilbrigðisþjónustu, sem ekki þoli bið, svo og verkjadeyfandi þjónustu. Meðferð sé talin brýn ef frestun gæti leitt til lífshættulegra áverka, hrörnunar, alvarlegrar hnignunar á heilsufari eða langvinns ástands.
Í ofangreindri skýrslu dönsku mannréttindastofnunarinnar frá 2018 kemur m.a. fram að á árinu 2016 hafi á degi hverjum að meðaltali um 138 umsækjendur um alþjóðlega vernd sætt varðhaldi eða annars konar frelsissviptingu en 81 umsækjandi árið 2015 og 92 umsækjendur árið 2014. Varðhald eða önnur frelsissvipting verður að eiga sér lagastoð og skal aðeins beitt að loknu einstaklingsbundnu mati, sé annað og vægara úrræði ekki tækt. Þá skal varðhald ávallt vera eins stutt og mögulegt er, málsmeðferð í varðhaldsmálum skal hafa forgang og taka skal tillit til viðkvæmra hópa, s.s. veikra, aldraðra, barna, barnshafandi kvenna o.s.frv.
Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.
Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Að mati kærunefndar bera fyrirliggjandi upplýsingar um Danmörku jafnframt með sér að þar sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þess og frelsi sé ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að upplýsingarnar benda til þess meðferð danskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Danmörku, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hans eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Í greinargerð er því haldið fram að erfiðleikar sem kærandi standi frammi fyrir í Danmörku séu þess eðlis að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans. Í því sambandi er vísað til þess að kærandi hefur fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku og stendur frammi fyrir brottvísun þaðan. Þá verður ekki annað ráðið af greinargerð en að kærandi haldi því fram að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans þar sem dönsk stjórnvöld hafi ekki leyst með réttum hætti úr umsókn hans um vernd vegna ríkisfangsleysis.
Eins og áður hefur komið fram er það mat nefndarinnar að málsmeðferð danskra yfirvalda sé með þeim hætti að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda og að málsmeðferðin veiti fullnægjandi vernd gegn því að fólk sé endursent þangað sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þess eða frelsi ógnað. Að því er varðar sjónarmið kæranda sem tengjast mati á ríkisfangsleysi tekur kærunefnd fram að í ljósi skýrslna og gagna, þ. á m. frá dönsku útlendingastofnuninni, telur nefndin ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að fram fari fullnægjandi skoðun á ríkisfangsleysi umsækjenda um alþjóðlega vernd, en Danmörk er m.a. aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954. Að því er varðar aðstæður einstaklinga sem hafa fengið lokasynjun á umsókn um alþjóðlega vernd í Danmörku er ljóst að aðstæður einstaklinga sem dveljast í brottflutningsmiðstöðvum eru lakari en aðstæður umsækjenda sem ekki hafa enn fengið lokaniðurstöðu í mál sínu. Aftur á móti er það mat nefndarinnar að aðstæðurnar séu ekki slíkar að almennt verði talið að einstaklingar sem hafa fengið lokasynjun á umsókn um alþjóðlega vernd eigi erfitt uppdráttar í Danmörku. Þá verður að mati nefndarinnar ekki talið að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda að öðru leyti séu þess eðlis að hann verði talinn eiga erfitt uppdráttar vegna þessara aðstæðna eða að sérstakar ástæður séu að öðru leyti fyrir hendi í málinu á þessum grundvelli.
Hvað varðar sjónarmið kæranda um að varðhald í Danmörku kunni að bíða hans við komuna þangað til lands áréttar kærunefnd það sem þegar hefur komið fram um varðhald þar í landi. Umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hlotið hafa endanlega neikvæða niðurstöðu í Danmörku getur, eftir atvikum, verið gert að sæta varðhaldi í samræmi við skilyrði danskra laga þar um og getur það t.d. átt við þegar einstaklingur á yfir höfði sér brottvísun og grunur leikur á um að hann muni koma sér undan slíkri ákvörðun. Þótt fram hafi komið gagnrýni á aðbúnað útlendinga í brottflutningsmiðstöðvum í Danmörku og þeirra sem sæta varðhaldi þar er það mat kærunefndar, m.a. með vísan til skýrslna danska umboðsmannsins, að almennt sé aðbúnaður þar í samræmi við gildandi lög og grundvallarréttindi þar í landi og reglur sem leiða m.a. af mannréttindasáttmála Evrópu. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin því ljóst að sá möguleiki að kærandi kunni að vera færður í varðhald leiði ekki til þess að kærandi teljist munu eiga erfitt uppdráttar í Danmörku eða að öðru leyti séu fyrir hendi sérstakar ástæður í máli hans af þeim sökum.
Að öðru leyti er það mat kærunefndar að þau viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi ekki við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku eigi rétt á brýnni heilbrigðisþjónustu, sem ekki þoli bið, svo og verkjadeyfandi þjónustu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi komi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi. Auk þess verður ráðið af ofangreindum gögnum að kærandi geti leitað ásjár danskra yfirvalda, verði hann fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar þar í landi. Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.
Að öðru leyti er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður í máli hans. Verður málið því ekki tekið til efnismeðferðar á þeim grundvelli, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. mars 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 9. janúar 2019.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar sem áður hafa verið raktar, m.a. við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga.
Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd telur því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.
Kærunefnd hefur að öðru leyti farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Frávísun
Samkvæmt gögnum málsins kveðst kærandi hafa komið hingað til lands þann 7. janúar 2019 og sótti hann um alþjóðlega vernd 9. janúar 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi skal fluttur til Danmerkur innan tilskilins frests, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Bjarnveig Eiríksdóttir