Nr. 334/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 334/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17030050
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. mars 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fyrst lagt fram umsókn um dvalarleyfi fyrir barn útlendings 13. janúar 2005 en þeirri umsókn, ásamt umsókn föður hans, hafi verið synjað með ákvörðun, dags. 23. mars 2006. Hinn 26. júní 2006 sótti kærandi aftur um dvalarleyfi fyrir barn útlendings en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun, dags. 27. apríl 2009. Kærandi sótti því næst um dvalarleyfi á grundvelli náms 29. maí 2015. Í ljósi þess að fylgigögn með þeirri umsókn voru ófullnægjandi var umsókninni synjað 30. september 2015. Hinn 30. júní 2016 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. mars 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 14. mars 2017. Kærunefnd hefur borist bréf frá umboðsmanni kæranda, dags. 7. mars 2017. Þann 1. júní 2017 bárust kærunefnd viðbótargögn frá Útlendingastofnun.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru eldri ákvarðanir stofnunarinnar í málum kæranda raktar. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að í gögnum sem hafi fylgt með umsókn kæranda frá 13. júní 2005 hafi komið fram að foreldrar kæranda væru [...] og [...]. Þau gögn hafi borið það jafnframt með sér að [...] væri systir kæranda. Þessu til sönnunar hafi fylgt ýmis gögn frá yfirvöldum í heimalandi s.s. fæðingarvottorð kæranda og skírnarvottorð hans. Þá hafi einnig fylgt undirrituð yfirlýsing frá [...] titlaðri sem „Affidavit of Custody“ þar sem fram hafi komið að hún væri dóttir [...] og eldri systir kæranda. Þar að auki hafi fylgt með bréf titlað „Affidat of Consent to Travel“ undirrituðu af [...], þar sem fram kom að hún sé lögleg móðir kæranda sem hafi fæðst í [...], þann [...]. Þá gefi hún samþykki sitt fyrir því að eiginmaður hennar fari með son þeirra til Íslands til að heimsækja dætur þeirra þrjár,
[...].
Í gögnum sem hafi fylgt dvalarleyfisumsókn kæranda frá 26. júní 2006 séu foreldrar kæranda hins vegar tilgreindir [...] og [...]. Sú skráning hafi samsvarað þeirri umsókn sem væri til skoðunar hvað varðaði móður kæranda en ekki föður sem nú væri skráður [...]. Þá hafi fylgt fleiri gögn sem tilgreindu [...] sem móður kæranda. Í þeim gögnum hafi ýmist verið tekið fram að [...] færi með forsjá kæranda, [...] eða [...]. Útlendingastofnun hafi þá óskað eftir frekari forsjárgögnum en engin gögn borist.
Útlendingastofnun taldi að þegar litið væri á gögn málsins og þær upplýsingar sem eldri umsóknir kæranda bæru í skauti sér væri það enn mat stofnunarinnar að óljóst væri hverjir séu kyn- og forsjárforeldrar kæranda. Í ljósi þess væri ekki hægt að byggja tengsl kæranda við landið á sambandi hans við umboðsmann hans, [...]. Var það mat Útlendingastofnunar að undantekningarregla 78. gr. laga um útlendinga ætti ekki við og var umsókn hans synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í bréfi frá [...], sem kveðst vera móðir kæranda, dags. 7. mars 2017, kemur fram að hún hafi verið að reyna að fá dvalarleyfi fyrir son sinn frá árinu 2005. Kærandi hafi þá verið [...] að aldri en vegna skorts á fylgigögnum með umsókn, skorts á fjármunum og tíma, þá hafi umsóknum þeirra ítrekað verið hafnað. Hún kveður stöðuna á faðerni kæranda vera flókna og vonar að hún mæti skilningi. Hún og kærandi hafi verið aðskilin of lengi og að ástandið skaði þau bæði, sem og systkini hans og alla fjölskylduna. Þá biðji hún íslensk stjórnvöld að hafa í huga að hún hafi fyrst sótt um dvalarleyfi fyrir hann fyrir tólf árum síðan og hún viti að stjórnvöld hafi skilning á því hvernig foreldri og barni líði þegar þau eru aðskilin vegna aðstæðna sem þau hafi enga stjórn á.
[...] kveður kæranda vera aleinan á [...] með ömmu sinni og afa sem eldist með hverjum deginum. Það sé aldrei að vita hvenær þau yfirgefi þennan heim. Aðskilnaður þeirra mæðgina hafi haft mest áhrif á kæranda. Henni finnist hún hafa brugðist syni sínum og hún óski þess að stjórnvöld veiti henni annað tækifæri til að fá hann til landsins. Að lokum óski hún eftir ráðleggingum og aðstoð varðandi umsókn kæranda.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.
Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi. Ákvæði 4. mgr. 78. gr. laganna er samkvæmt orðalagi sínu undantekning frá þeirri almennu reglu að sérstök tengsl myndist á meðan á löglegri dvöl stendur. Ber að mati kærunefndar að túlka ákvæðið þröngt.
Kærandi byggir umsókn sína um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið einkum á sambandi sínu við [...]. Að mati kærunefndar hefur ekki grundvallarþýðingu við úrlausn málsins hvort [...] sé móðir kæranda enda byggja ákvæði 1. og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga á því að heildstætt mat fari fram á tengslum umsækjanda við landið.
Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...] gamall einhleypur karlmaður, er búsettur og uppalinn á [...] hjá hjónum sem hann kveður vera móðurafa sinn og ömmu. Kærandi kveður þau vera orðin gömul og hann viti ekki hversu lengi þau muni lifa. Kærandi hefur aðeins dvalist hér á landi í skamman tíma en samkvæmt gögnum málsins dvaldi hann á Íslandi í janúar 2015 og fram í apríl sama ár og að því er virðist frá lokum maí 2016 fram í miðjan ágúst sama ár. Kærandi hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi. Þá liggur fyrir að hann lauk skólagöngu sinni á [...]. Hann hefur sótt um dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi en var synjað 30. september 2015. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óski eftir því að fá dvalarleyfi á Íslandi svo hann geti búið með móður sinni og systkinum.
Samkvæmt framansögðu hefur umsækjandi ekki dvalið hér á landi samkvæmt útgefnu dvalarleyfi. Verða tengsl sem hann hefur myndað í annars konar dvöl hér á landi því ein og sér ekki talin geta verið grundvöllur útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. og 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.
Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að [...] sé móðir kæranda og að hann eigi systkini hér á landi er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að rík umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi í málinu. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi alist upp hjá nánum fjölskyldumeðlimum í heimaríki og benda gögn málsins ekki til þess að hann sé háður umönnun [...]. Samkvæmt framansögðu er kærandi fullorðinn einstaklingur, hann er vinnufær og hefur verið búsettur á [...] alla sína ævi. Rík umönnunarsjónarmið eru ekki til staðar né aðrar ástæður sem myndu leiða til þess að bersýnilega ósanngjarnt yrði að veita kæranda ekki dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason