Mál nr. 553/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 553/2020
Miðvikudaginn 17. mars 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 29. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. september 2020 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2019, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2018 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 1.346.826 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með umsókn, dags. 18. júní 2019, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna erfiðra fjárhagsaðstæðna. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2019, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2019 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 563.827 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með umsókn til stofnunarinnar, dags. 12. ágúst 2020, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukrafna vegna erfiðra fjárhagsaðstæðna. Með bréfi, dags. 21. september 2020, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. október 2020 og þá bárust athugasemdir frá kæranda með tölvupóstum 25. og 27. október 2020. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 11. desember 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. desember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki. Með tölvubréfi úrskurðarnefndar 22. febrúar 2020 voru tölvupóstar kæranda frá 25. og 27. október 2020 sendir Tryggingastofnun ríkisins til kynningar.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þar sem niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki pening til að borga kröfu að fjárhæð 1.517.456 kr. Kærandi hafi verið á vinnumarkaðnum í X ár, hann sé kominn á ellilífeyri og sé á atvinnuleysisbótum.
Þann 1. janúar 2018 hafi kærandi verið úrskurðaður 75% öryrki, hann sé með gigtarsjúkdóm, hjarta- og kransæðasjúkdóm, seinvirkan skjaldkirtil, þvagsýrugigt og sykursýki 2. Í nóvember 2017 hafi kærandi fengið sjúkrabætur frá stéttarfélagi sem hafi verið um 80% af þeim tekjum sem hann hafði haft.
Í samtali við þjónustufulltrúa hafi kærandi greint frá bótum sem hann fengi frá B og hafi honum verið leiðbeint á þá leið að hann ætti að hafa samband þegar greiðslurnar myndu hætta. Kærandi hafi verið á sjúkrabótum í sex mánuði sem hafi komið í veg fyrir að hann myndi missa heimilið sitt.
Á árinu 2010 hafi húsnæðislán kæranda hækkað úr 24,5 milljónum í tæpar 45 milljónir. Kærandi hafi farið í bankann 2011-2012 til að reyna bjarga lánunum. Til að geta haldið áfram hafi kærandi þurft að auka tekjurnar og eina leiðin hafi verið sú að byrja töku ellilífeyris hjá C lífeyrissjóði og fórna þannig 50% af lífeyrinum sem hann hefði átt að hafa. Í júní 2018 hafi kærandi ekki séð sér annað fært en að fara á vinnumarkaðinn á ný þar sem hann hafi ekki getað lifað á örorkubótunum.
Kærandi hafi byrjað á ellilífeyri í september 2018. Í nóvember 2018 hafi kærandi verið upplýstur um að hann þyrfti að endurgreiða allar bæturnar frá Tryggingastofnun þar sem hann hafi ekki átt rétt á þeim og hafi hann byrjað að greiða inn á kröfuna eftir bestu getu. Kærandi hafi unnið allt árið 2019 þar til Covid skall á í mars 2020 en þá hafi hann ákveðið að taka frí frá störfum en honum hafi svo verið sagt upp 30. maí 2020 og hafi hann þá sótt um atvinnuleysisbætur.
Í tvígang hafi kærandi farið fram á að ofgreiðslukrafan yrði felld niður þar sem hann hafi ekki getað borgað hana.
Krafan sé um 1.500.000 kr. og útgjöld hans séu 617.456 kr. á mánuði. Kærandi sé með 308.000 kr. í atvinnuleysisbætur og 175.000 kr. fyrir skatta, eiginkona hans sé með 56.000 kr. í örorkubætur og 188.000 kr. eftir skatta. Kærandi hafi tekið eftir því að krafa Tryggingastofnunar sé komin til Vinnumálastofnunar.
Kærandi hafi spurt Tryggingastofnun hvernig hann ætti að lifa af þessu, þ.e. borga lánin og kröfuna og hafi honum þá verið bent á að leita til hjálparstofnana um matargjafir.
Í september 2019 hafi kærandi farið í endurfjármögnun og standi húsnæðislán hans í dag í 51.183.751 kr. og fari hækkandi.
Í athugasemdum kæranda frá 22. og 28. desember 2020 komi fram að Tryggingastofnun hafi stöðvað innheimtu á meðan málið hafi verið til meðferðar en nú sé innheimtan byrjuð aftur. Kærandi hafi einungis átt 4.099 kr. rétt fyrir jól.
Í lok árs 2018 hafi Tryggingastofnun hringt í kæranda og honum sagt að hann hafi aldrei átt rétt á örorkubótum. Kærandi sé ekki sáttur við það. Umsókn kæranda um örorku hafi verið synjað og hafi hann því kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar. Kærandi hafi því leitað til síns stéttarfélags og hafi fengið sjúkrasjóðsbætur á meðan. Þegar bæturnar hafi loks komið í janúar 2018 hafi þær verið það lágar að enginn gæti lifað á þeim. Sjúkrasjóðsbætur kæranda hafi verið um 80% af þeim tekjum sem hann hafði haft, hann hafi verið á þeim þangað til júní 2018. Kærandi hafi séð fram á að hann gæti ekki lifað á bótum frá Tryggingastofnun. Kærandi hafi í maí 2018 sent Tryggingastofnun skattkortið en hafi tekið það aftur í júlí og látið vita að hann væri búinn að fá vinnu.
Kærandi sé hjarta- og kransæðasjúklingur og auk þess sé hann með hryggigt, hjartadrep, sykursýki 2, hægvirkan skjaldkirtil, þvagsýrugigt og æðaþrengingar í fótum. Eiginkona kæranda sé öryrki og eigi erfitt á mörgum sviðum daglegs lífs og þurfi hann oft að aðstoða hana með marga hluti. Það styttist í að hún verði 67 ára og þá fari hún væntanlega á ellilífeyri og þeirra bíði fátækt.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á umsókn kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfum sem hafi myndast í kjölfar uppgjöra tekjuáranna 2018 og 2019.
Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.
Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkörfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”
Kröfur sem deilt sé um í málinu séu tilkomnar vegna uppgjöra tekjuáranna 2018 og 2019.
Á árinu 2018 hafi kærandi verið með örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar til 30. september 2018 og ellilífeyri og tengdar greiðslur frá 1. október til 31. desember 2018. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 1.346.826 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.
Tryggingastofnun hafi gert tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2018, dags. 25. janúar 2018. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 1.581.288 kr. í lífeyrissjóðtekjur og 13.668 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum tekjum. Kærandi hafi fengið greitt samkvæmt þessari áætlun í janúar 2018.
Þann 6. febrúar 2018 hafi kærandi sent inn nýja tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir 1.515.888 kr. í lífeyrissjóðstekjur og aðrar tekjur óbreyttar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. febrúar 2018, hafi ný tekjuáætlun verið samþykkt og hafi kærandi fengið fékk greitt í samræmi við hana frá 1. febrúar til 31. október 2018.
Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í október [2018] hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Tryggingastofnun hafi útbúið nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann 12. október [2018] þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að launatekjur kæranda á árinu yrðu 1.443.705 kr. en að aðrar tekjur yrðu óbreyttar. Gert hafi verið ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð 57.750 kr. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þessa tekjuáætlun og hafi kærandi fengið greitt í samræmi við hana frá 1. nóvember til 31. desember 2018.
Við bótauppgjör ársins 2018, dags. 22. maí 2019, hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda á árinu 2018 hafi verið 2.717.933 kr. í launatekjur, 1.664.157 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 2.658.750 kr. í aðrar tekjur og sameiginlegar með maka og 9.154 kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafði verið 108.716 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem hafi komið til frádráttar.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið ofgreiðsla í öllum bótaflokkum. Kærandi hafi fengið 1.943.470 kr. greiddar á tímabilinu en hefði með réttu átt að fá 106.824 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 1.346.826 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Þann 18. júní 2019 hafi kærandi sótt um niðurfellingu sem hafi verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. ágúst 2019.
Á árinu 2019 hafi kærandi verið með ellilífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 563.827 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.
Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun vegna ársins 2019, dags. 17. janúar 2019, hafi verið gert ráð fyrir 3.330.636 kr. í launatekjur, 1.584.108 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 13.668 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka. Einnig hafi verið gert ráð fyrir greiðslu iðgjalds í lífeyrissjóð til frádráttar 133.236 kr. Kærandi hafi fengið greitt samkvæmt þessari áætlun 1. janúar til 31. mars 2019.
Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í mars 2019 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá hafi Tryggingastofnun búið til nýja tillögu að tekjuáætlun, dags. 15. mars 2019, sem hafi hins vegar ekki haft nein áhrif á rétt kæranda þar sem hann hafi þá þegar verið búinn að skila inn nýrri tekjuáætlun.
Þann 5. mars 2019 hafi kærandi sent inn nýja tekjuáætlun. Á grundvelli hennar hafi Tryggingastofnun útbúið nýja tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir 3.835.200 kr. í launatekjur, 2.130.344 kr. í lífeyrissjóðstekjur, en aðrar tekjur hafi verið óbreyttar. Einnig hafi verið tekið tillit til 153.407 kr. greiðslu iðgjalds í lífeyrissjóð til frádráttar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2019, hafi ný tekjuáætlun kæranda verið samþykkt. Kærandi hafi fengið greitt í samræmi við hana frá 1. apríl til 30. september 2019.
Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í september 2019 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli þessara upplýsinga og hafi kæranda verið sent bréf þann 12. september 2020 þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að launatekjur kæranda á árinu yrðu 6.582.818 kr. en að aðrar tekjur yrðu óbreyttar. Gert hafi verið ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð 263.311 kr. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þessa tekjuáætlun og hafi kærandi fengið greitt í samræmi við hana frá 1. október til 31. desember 2019.
Við bótauppgjör ársins 2019, dags. 22. maí 2020, hafi komið í ljós að tekjur kæranda á árinu 2018 hafi verið 7.092.271 kr. í launatekjur, 2.122.755 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 7.482 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafi verið 283.690 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem hafi komið til frádráttar.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt að fullu í öllum bótaflokkum. Kærandi hafi fengið 989.575 kr. en hefði með réttu ekki átt að fá neitt greitt. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 563.827 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Í kjölfarið hafi kærandi sótt um niðurfellingu dags. 13. ágúst 2020, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 21. september 2020.
Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.
Fjallað sé um um innheimtu ofgreiddra bóta í 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.
Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga áranna 2018 og 2019 sem séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Eins og gögn málsins beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun. Um sé að ræða launatekjur, lífeyrissjóðtekjur og aðrar tekjur sem kærandi hafi fengið á greiðslutímabilinu og hafi ekki gefið upp. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.
Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að þetta skilyrði sé uppfyllt í máli kæranda.
Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið það mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Kærandi hafi síðustu ár verið fremur tekjuhár og sé eignastaða ágæt með tilliti til skuldastöðu. Einnig verði horft sérstaklega til þess að ljóst sé að kærandi hafi ekki verið í góðri trú og hafi áður fengið ofgreitt af sömu ástæðu. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri hægt að líta svo á að kærandi uppfyllti skilyrði undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi hins vegar talið ástæðu til að koma til móts við kæranda og samþykkta dreifingu kröfunnar á 60 mánuði í stað þeirra 12 sem að jafnaði sé gert ráð fyrir.
Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir málið og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. september 2020 á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta áranna 2018 og 2019.
Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.
Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá 1. janúar 2018 til 31. september 2018 og ellilífeyri frá 1. október 2018 þar til 1. nóvember 2019 þegar greiðslur voru stöðvaður sökum tekna. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2018 með bréfi, dags. 22. maí 2019. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hans hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 1.346.826 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að launatekjur, lífeyrissjóðstekjur og svonefndar aðrar tekjur í skattframtali kæranda voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2019 með bréfi, dags. 22. maí 2020. Niðurstaða endurreikningsins var sú að kærandi átti ekki rétt á neinum greiðslum á árinu sökum tekna, nánar tiltekið að bætur til hans hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 563.827 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að launatekjur og lífeyrissjóðstekjur kæranda samkvæmt skattframtali voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins.
Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.
Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta áranna 2018 og 2019.
Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að greiðslur örorku- og ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um að umræddar tekjur gætu haft áhrif á bótagreiðslur og því hafi honum borið að upplýsa um þær. Því er ekki fallist á að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu kemur fram að ástæða beiðninnar séu erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Meðaltekjur kæranda á árinu 2019 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 767.918 kr. á mánuði. Meðaltekjur kæranda fyrstu tíu mánuði ársins 2020 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 648.339 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignastaða kæranda hafi verið jákvæð á árinu 2019. Úrskurðarnefndin horfir til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum kröfunnar á 60 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum eins og meginreglan er samkvæmt 3. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni nemur því 25.559 kr. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til erfiðra félagslegra aðstæðna. Einnig lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. september 2020 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta, er staðfest.
Rakel Þorsteinsdóttir