Utanríkisráðherra beiti sér í baráttunni um að stöðva stríð gegn börnum
Fulltrúar Barnaheilla – Save the Children – afhentu Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra áskorun í gær um að stöðva stríð gegn börnum. Jafnframt var biðlað til hans að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að stöðva stríð gegn börnum og sjá til þess að Ísland verði í fararbroddi í slíkri vinnu.
Börn voru í meirihluta á fundinum í utanríkisráðuneytinu í gær og skilaboð þeirra til ráðherra voru skýr: að tryggja börnum vernd gegn drápum, limlestingum og hvers kyns ofbeldi; að tryggja börnum vernd gegn því að ganga til liðs við stríðandi fylkingar; að tryggja að engu barni sé neitað um mannúðaraðstoð þegar stríð geisar; að tryggja að skólar og heilsugæslustöðvar séu friðarsvæði og njóti verndar; að tryggja að fylgst sé grannt með brotum gegn réttindum barna í stríði, skýrt sé frá þeim og brugðist við; að tryggja að þeir sem fremja eða bera ábyrgð á ofbeldi gegn börnum, séu látnir svara til saka.
Alexander Amodou afhenti utanríkisráðherra áskorunina en önnur börn sem tóku til máls á fundinum voru Orri Eliasen, Axel Ingi, Ýr, Anja Sæberg, Elsa Margrét, Sigríður Erla, Ingibjörg Elka og Jóhann Már.
Í þessum mánuði stendur yfir 100 ára afmælisátak Barnaheilla, Save the Children, með áskorun um að stöðva stríð gegn börnum.