Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga
Fréttatilkynning nr. 30/2004
Nefnd sem fjallað hefur um mögulegan flutning verkefna á sviði heilbrigðismála og þjónustunnar við aldraða frá ríki til sveitarfélaga skilaði Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, áfangaskýrslu um málið í dag.
Nefndin var skipuð í október 2003 og var henni falið að kanna kosti og galla þess að flytja heilsugæslustofnanir og heilbrigðisstofnanir, aðrar en Landspítala – háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, til sveitarfélaganna. Í starfi sínu var nefndinni gert að huga sérstaklega að þjóðhagslegri hagkvæmni slíkra breytinga, gæðum þjónustunnar og hver áhrif breytinga af þessu tagi yrðu á stöðu og réttindi þess starfsfólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu.
Í nefndinni eiga sæti:
Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, formaður nefndarinnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi í Reykjavík.
Reinhard Reynisson, bæjarstjóri í Húsavík.
Guðjón Bragason, skrifstofustjóri í Félagsmálaráðuneytinu.
Ólafur Hjálmarsson, skrifstofustjóri í Fjármálaráðuneytinu.
Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík.
Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðarkróki.
Arnar Jónsson, ráðgjafi hjá PARX Viðskiptaráðgjöf vann með nefndinni.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
25.11.2004