Samþykkt nr. 100 um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf
Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt
Samþykkt nr. 100 um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf
Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem stjórn Alþjóðavinnumála-skrifstofunnar hefur kvatt til funda í Genf og kom saman til þrítugustu og fjórðu þingsetu sinnar 6. júní 1951, og hefur ákveðið að gera ákveðnar tillögur varðandi regluna um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, sem er sjöunda málið á dagskrá þingsins, og hefur ákveðið, að þessar tillögur skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, gerir í dag, tuttugasta og níunda júní árið nítján hundruð fimmtíu og eitt, eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Jafnlaunasamþykktina frá 1951:
1. gr.
Í þessari samþykkt —
a. tekur orðið „laun“ yfir hið venjulega grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, sem greidd er beint eða óbeint, hvort heldur í fé eða fríðu, og vinnuveitandinn greiðir starfsmanninum fyrir vinnu hans;
b. eiga orðin „jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf“ við launataxta, sem settir eru án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum.
2. gr.
1. Með þeim ráðum, er hæfa þeim aðferðum, sem hafðar eru við ákvörðun launataxta, skal hvert aðildarríki stuðla að því og tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þessum aðferðum, að reglan um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf taki til alls starfsfólks.
2. Þessari reglu skal komið til framkvæmda með:
a. landslögum eða reglugerðum;
b. ráðstöfunum, sem komið er á eða viðurkenndar eru með lögum, til ákvörðunar á launum;
c. heildarsamningum milli vinnuveitenda og verkamanna, eða
d. með þessum mismunandi aðferðum sameiginlega.
3. gr.
1. Þar, sem slíkt mundi greiða fyrir því að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt, skal gera ráðstafanir til þess að koma á óvilhöllu mati á störfum, sem byggist á því að metin sé sú vinna, sem inna skal af hendi.
2. Reglur þær, sem fara ber eftir við þetta mat, geta stjórnvöld þau, sem hafa með höndum ákvörðun launataxta, ákveðið, en þegar taxtarnir eru ákveðnir með heildarsamningum, geta aðilar þeirra ákveðið þær.
3. Mismunur á launatöxtum, er samsvarar mismun, sem ákveðinn er með slíku óhlutdrægu mati á vinnu þeirri, sem leysa ber af hendi, skal ekki talinn fara í bága við regluna jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, enda sé ekki greint á milli kynja.
4. gr.
Eftir því sem við á ætti hvert aðildarríki að hafa samvinnu við hlutaðeigandi vinnuveitenda- og verkamannafélög með það fyrir augum að koma ákvæðum þessarar samþykktar í framkvæmd.
5.–14. gr.
(Samhljóða 6.–15. gr. samþykktar nr. 99 hér að framan.)