Hoppa yfir valmynd
30. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 105 um afnám nauðungarvinnu

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 105 um afnám nauðungarvinnu

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem yfirstjórn stofnunarinnar kvaddi til setu í Genf, kom saman í 40. sinn þann 5. júní 1957, og eftir að hafa haft til meðferðar málið um nauðungarvinnu, sem var fjórða mál á dagskrá þessa þings, og eftir að hafa athugað ákvæði samþykktarinnar frá 1930, um nauðungarvinnu; og eftir að hafa athugað, að samþykktin frá 1926, um þrælahald, kveður svo á, að allar nauðsynlegar ráðstafanir skuli gerðar til þess að varna því, að þvingunarvinna eða nauðungarvinna komist á það stig, að hún samsvari þrældómi, og að viðaukasamþykktin frá 1956 um afnám þrælahalds og þrælaverslunar og þess skipulags og þeirrar venju, er líkist þrælahaldi, kveður svo á, að algerlega skuli afnumin þvingun vegna skulda og öll ánauð; og eftir að hafa athugað að samþykktin frá 1949, um kaupverndun, kveður svo á, að kaup skuli greitt reglulega og leggur bann við þeim hætti á kaupgreiðslum, er á nokkurn hátt skerðir rétt hans til þess að skipta um húsbændur; og eftir að hafa ákveðið að samþykkja frekari tillögur varðandi afnám tiltekinna greina nauðungarvinnu, sem brjóta í bág við mannréttindi þau, er stofnskrá Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir og greind eru í hinni almennu mannréttindaskrá; og eftir að hafa ákveðið að tillögur þessar skuli gerðar að alþjóðlegri samþykkt, gerir þingið í dag, þann 25. júní 1957, eftirfarandi Samþykkt, er vitna má til sem samþykktarinnar frá 1957, um afnám nauðungarvinnu.


1. gr.

     Sérhvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir hjá sér samþykkt þessa, skuldbindur sig til að láta ekki viðgangast, heldur uppræta, hvers konar nauðungarvinnu:

     a. er beitt sé með pólitískri þvingun, fræðslu, eða sem refsingu gegn mönnum fyrir að hafa eða láta í ljósi stjórnmálaskoðun eða skoðanir hugsjónalega gagnstæðar hinu ríkjandi skipulagi, stjórnmálalegu, félagslegu eða efnahagslegu;

     b. er beitt sé sem aðferð til þess að nota verkalýðinn til breytinga á efnahagskerfinu;

     c. er beitt sé til þess að aga verkalýðinn;

     d. er beitt sé til refsingar fyrir þátttöku í verkföllum;

     e. er beitt sé til misununar sökum uppruna, félagslegrar aðstöðu, þjóðernis eða trúarbragða.


2. gr.

     Sérhvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir hjá sér samþykkt þessa, skuldbindur sig til að gera fullnægjandi ráðstafanir til þess að tryggja það, að þegar í stað og til fullnustu verði afnumin nauðungarvinna eins og hún er skilgreind í 1. gr. samþykktar þessarar.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta