Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

A-405/2012. Úrskurður frá 17. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

 

Hinn 17. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-405/2012.

 

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 14. júní 2011, kærði [...] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun tannlæknadeildar Háskóla Íslands á beiðni hans dags., 4. maí 2011, um aðgang að lista yfir nöfn tannlækna og aðstoðarfólks, sem ráðið var til tannlæknadeildar HÍ til að sinna tímabundnu verkefni velferðarráðuneytisins um ókeypis tannlækningar fyrir börn.

 

Aðdragandi kæru þessarar er sá að kæranda barst í tölvupósti frá Tannlæknafélagi Íslands auglýsing tannlæknadeildar Háskóla Íslands þar sem auglýst var eftir tannlæknum til vinnu við tímabundna tannlæknaþjónusta við börn bágstaddra fjölskyldna. Í auglýsingunni kom m.a. fram að ríkisstjórnin hefði samþykkt að efna til átaksverkefnis um endurgjaldslausa tannlæknaþjónustu fyrir börn yngri en 18 ára sem ættu tekjulága foreldra. Tannlæknadeild Háskóla Íslands myndi sjá um verkefnið sem standa ætti frá 1. maí til 26. ágúst 2011.

 

Kærandi sendi rektor Háskóla Íslands tölvupóst 4. maí 2011 og segir þar eftirfarandi: „Ég undirritaður fer hér með fram á að fá í hendur sem fyrst upplýsingar um hvaða tannlæknar hafa verið ráðnir til starfa á Tannlæknadeild HÍ eða af Tannlæknadeild HÍ til að sinna tannlækningum samkvæmt reglugerð Velferðarráðuneytisins nr. 408/2010. Einnig óskast upplýst um samning þann sem tannlæknar sem hafa ráðið sig til vinnu eftir, sem og vinnulýsingu og annað er fylgir framkvæmd reglugerðarinnar og snýr að Tannlæknadeild Háskóla Íslands.“

 

Með bréfi, dags. 24. maí 2011, synjaði Háskóli Íslands beiðni kæranda, en í bréfinu kemur fram sú afstaða háskólans að umbeðnar upplýsingar falli undir 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá er vísað til þess að þeir sem tækju þátt í átaksverkefninu kæmu ekki til með að falla undir lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, enda yrðu þeir ekki ráðnir til háskólans og því ekki starfsmenn í skilningi laganna.

 

Rétt er að taka fram að með bréfi, dags. 7. júní 2011, kveðst deildarforseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands staðfesta að hafa sent kæranda tölvupóst 5. maí þar sem segir m.a.: „Samningurinn er í viðhenginu fyrir þig, en ekki ætlaður til dreifingar. Spurningu um tannlækna er ekki hægt að svara skv. 5. gr. upplýsingalaga.“

 

Sem fyrr segir barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 14. júní 2011. Í kærunni segir kærandi að hann telji nauðsynlegt að hann sem tannlæknir viti hvaða tannlæknar í átaksverkefninu komi til með að sinna sjúklingum sem hafi komið reglulega til hans undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að þessar upplýsingar komi fram, auglýsingin sé opinber og enginn geti haft hagsmuni af því að upplýsingar um ráðningar í störfin liggi ekki fyrir. Í kærunni kemur og fram að kærandi hafi sótt um á grundvelli framangreindrar auglýsingar nokkrum vikum áður og óskað í umsókninni eftir umræðu um kaup og kjör, en ekki fengið svar.

 

Málsmeðferð

Kæran var send Háskóla Íslands með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júní 2011. Var háskólanum veittur frestur til 24. júní 2011 til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi vegna hennar. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran laut að.

 

Með bréfi Háskóla Íslands, dags. 29. júní 2011, var bréfi úrskurðarnefndarinnar svarað. Þar segir m.a. svo: „Í samræmi við framangreinda framkvæmd tilkynntu tannlæknar þá daga sem þeir sæju sér fært að sinna verkefninu þannig að ekki var um eiginlegt ráðningarferli að ræða eða önnur formleg skjalfest samskipti. Af þeim sökum eru engin frekari gögn í málinu önnur en þau sem nefndin hefur nú þegar undir höndum.

 

Ekki liggur fyrir listi yfir þá tannlækna sem taka þátt í átaksverkefninu enda ekki ljóst fyrr en að því loknu hvaða sjálfstætt starfandi tannlæknar koma að því. Háskólinn telur sig ekki þurfa að taka saman lista með nöfnum þeirra sem taka þátt í átakinu enda eru þeir ekki umsækjendur um störf né starfsmenn skólans.“

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2011, var kæranda gefinn kostur á því að gera frekari athugasemdir varðandi kæruna í tilefni af framangreindri umsögn Háskóla Íslands. Svar hans barst með bréfi, dags. 7. júlí 2011.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

 

Niðurstaða

Kæra  máls þessa lýtur að synjun Háskóla Íslands á beiðni kæranda, dags. 4. maí 2011, um afhendingu lista yfir nöfn tannlækna og aðstoðarfólks sem væru þátttakendur í átaksverkefni um tannlækningar sem að framan er lýst.

 

Kærandi óskaði einnig í sama skipti eftir upplýsingum um samning sem tannlæknar hefðu ráðið sig eftir, vinnulýsingu og annað sem fylgdi framkvæmd reglugerðar nr. 408/2010 og snéri að tannlæknadeild Háskóla Íslands. Að því er síðarnefndu óskina varðar verður af gögnum málsins ráðið að kærandi hafi fengið sendan ráðningarsamning og hafi tannlæknadeildin a.m.k. að því leyti orðið við beiðni hans. Hvað sem því líður þá nær kæran til úrskurðarnefndar um upplýsingamál einungis til synjunar tannlæknadeildarinnar á því að heimila aðgang að „lista yfir nöfn þeirra tannlækna og aðstoðarfólks, sem ráðið hefur verið til tannlæknadeildar HÍ til að sinna svokölluðu átaksverkefni velferðarráðuneytisins.“

 

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, kemur fram að stjórnvöldum „er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“ Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Þá leiðir einnig af tilvitnuðu ákvæði að stjórnvöldum er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Skýring úrskurðarnefndarinnar á þessum ákvæðum laganna er sú að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað.

 

Á þeim tíma sem beiðni kæranda kom fram, eða 4. maí 2011, lá ekki fyrir hver þátttaka tannlækna yrði, enda verkefnið þá nýhafið og skyldi standa til 26. ágúst 2011. Í bréfi Háskóla Íslands, dags. 29. júní 2011, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur jafnframt fram að listi yfir þá tannlækna sem taki þátt í verkefninu hafi ekki verið tekinn saman. Réttur til aðgangs nær til þeirra gagna sem fyrir liggja hjá stjórnvaldi þegar beiðni berst, sbr. það sem segir í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga sem rakin er hér að framan, þ.e. „fyrirliggjandi gögnum.“ Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur hvorki efni né ástæður til þess að draga í efa réttmæti þeirrar staðhæfingar Háskóla Íslands að ekki hafi legið fyrir listi yfir þátttakendur í verkefninu á þeim tíma sem beiðni kom fram. Þá hefur heldur ekkert komið fram sem bendir til þess að háskólinn hafi tekið slíkan lista saman síðar, enda segir í framangreindu bréfi háskólans frá 29. júní að háskólinn telji sér það ekki skylt. Með vísan til þess sem að framan segir ber að staðfesta hina kærðu synjun Háskóla Íslands um aðgang að upplýsingum.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Háskóla Íslands frá 24. maí 2011 um að synja beiðni [...] um aðgang að upplýsingum um nöfn tannlækna og aðstoðarfólks sem ráðið var til tannlæknadeildar HÍ til að sinna tímabundnu verkefni velferðarráðuneytisins um ókeypis tannlækningar fyrir börn.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

Friðgeir Björnsson                                                                                      Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta