Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

A-406/2012. Úrskurður frá 17. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

 

Hinn 17. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-406/2012.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 13. október 2011, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Seðlabanki Íslands hefði synjað honum um aðgang að fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis vegna sölu á tilgreindu fyrirtæki og svörum Seðlabankans við þeim.

 

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir umbeðnum upplýsingum 30. ágúst 2011. Það erindi ítrekaði hann með tölvupósti 9. september sama ár.

 

Erindi kæranda var svarað með tölvupósti 14. september. Þar segir m.a. eftirfarandi: „Bréf og spurningar Umboðsmanns Alþingis varða kvörtun tiltekins aðila og svör Seðlabankans þar af leiðandi einnig. Seðlabankanum er ekki fært á að afhenda þér bréf Umboðsmanns Alþingis né svarbréf Seðlabanka Íslands á grundvelli 35. gr. seðlabankalaga né skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“

 

Í kæru málsins er krafan um aðgang að gögnum rökstudd á þennan hátt: „Undirritaður telur að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja um aðgang að umbeðnum gögnum sé röng þegar litið er til þess að um er að ræða hagsmuni sem varða almenning miklu hvort sem litið er til fjárhagslegra hagsmuna eða hagsmuna er lúta að aðhaldi almennings með stjórnsýslu stofnana og ábyrgð á henni. Þá tekur undirritaður fram að venjulega birtir Seðlabanki Íslands þau gögn sem send eru til umboðsmanns Alþingis á heimasíðu bankans.“

 

 

Málsmeðferð

Sem fyrr segir barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 13. október 2011. Með bréfi, dags. 24. október, gaf úrskurðarnefndin Seðlabanka Íslands kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Frestur til þess var veittur til 31. október. Jafnframt var óskað afhendingar á afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Svarbréf Seðlabankans er dags. 4. nóvember. Í því kemur m.a. eftirfarandi fram:

 

„Seðlabanki Íslands ítrekar það sem fram kemur í synjunarbréfi aðallögfræðings bankans til kæranda frá 14. september sl. að Seðlabankanum sé ekki fært á að afhenda kæranda bréf Umboðsmanns Alþingis (UA), dags. 6. maí sl. né svarbréf Seðlabankans, dags. 7. júlí sl. á grundvelli 35. gr. seðlabankalaga né skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Synjunin nái þó ekki til 8. og 9. kafla svarbréfs Seðlabankans, sem talið var að væru ekki undir þagnar- og trúnaðarskyldu 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, enda fjalla þeir um lagagrundvöllinn að stofnun Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), og hafa þegar verið afhentir kæranda sem [...], sbr. bréf dagsett 7. september 2011.“

 

Seðlabankinn vísar einnig til þagnarskyldureglu í 15. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál til stuðnings ákvörðun sinni.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. nóvember, var kæranda gefinn kostur á því að gera frekari athugasemdir varðandi kæruna í tilefni af  umsögn Seðlabanka Íslands og frestur til þess til 17. nóvember. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Í þeim gögnum sem Seðlabanki Íslands hefur hafnað að veita kæranda aðgang að er ítrekað vísað til málefna og nafns lögaðila sem beint hefur kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna samskipta við Seðlabankann svo og lögmanns þess aðila. Úrskurðarnefndin kynnti lögmanni viðkomandi aðila um fram komna kæru og óskaði þess að upplýst yrði hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að veittur yrði aðgangur að hinum umbeðnu gögnum. Með tölvupósti lögmanns umrædds lögaðila til nefndarinnar kom fram sú afstaða að í umræddum gögnum væri fjallað um málefni sem vörðuðu einka- og fjárhagsmálefni hans og sanngjarnt og eðlilegt yrði að telja að færu leynt með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Á þessu stigi máls væri umbjóðandi hans ekki tilbúinn að veita samþykki sitt fyrir því að þessar upplýsingar yrðu gerðar opinberar.

 

Niðurstaða

1.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir m.a.: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Réttur til upplýsinga er þannig bundinn við gögn sem varða tiltekin mál sem eru eða hafa verið til meðferðar í stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga, sbr. og 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Þau afmörkuðu samskipti umboðsmanns Alþingis og Seðlabanka Íslands sem bréf þeirra hafa að geyma má út af fyrir sig að telja mál sem Seðlabankinn hefur eða hefur haft til meðferðar sem stjórnvald. Beiðni kæranda um aðgang að gögnum er því nægilega afmörkuð og kæru réttilega beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Fyrir liggur að umboðsmaður Alþingis sendi bréf til seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, og einnig bréf til bankaráðs Seðlabankans, bæði dags. 6. maí 2011. Eins og kæra máls þessa er orðuð og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni verður að líta svo á að beiðni kæranda nái til beggja bréfa umboðsmanns Alþingis svo og svarbréfs Seðlabankans sem er dags. 7. júlí 2011.

 

2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalag birtist meginregla laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt.

 

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

 

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).

 

Í ljósi atvika máls þessa og þeirra upplýsinga sem kærandi hefur óskað aðgangs að verður hér einnig að líta til þess að í lögum sem ná til starfsemi kærða, Seðlabanka Íslands, er að finna ákvæði um þagnarskyldu sem hvílir á starfsmönnum hans, sbr. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og 15. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

 

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um það að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður hins vegar að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og þýdd ákvæðum upplýsingalaga“ eins og segir í skýringum við 2. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum.

 

Í 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 segir: „Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur þau atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.“

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að í þessu ákvæði felist regla um sérstaka þagnarskyldu en ekki almenna en þagnarskyldan er sérgreind með þeim hætti að hún nái til alls sem varði hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þar með er hins vegar ekki sagt að hvaðeina sem bankanum tengist með einum eða öðrum hætti falli undir þagnarskylduna. Slíkt verður að meta í hverju tilviki fyrir sig en nái þagnarskyldan ekki til ákveðinna tilvika verður hins vegar að gæta að því hvort undantekningar frá upplýsingarétti eigi við, sbr. 4.-6. gr. upplýsingalaga. Þá verður eftir því sem við á í hverju tilviki ennfremur að túlka ákvæði þetta til samræmis við 5. gr. upplýsingalaga, a.m.k. að því leyti sem þagnarskyldan er afmörkuð við þau atriði sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

 

Í 15. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. 2. gr. laga nr. 128/1999, kemur fram að þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt.

 

Umrætt ákvæði telst einnig vera sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsinglaga, sem ber þó eftir atvikum að túlka til samræmis við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga með sama hætti og 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. 

 

3.

Eins og fyrr greinir nær kæran í þessu máli til tveggja bréfa sem umboðsmaður Alþingis ritaði 6. maí 2011, annað til bankaráðs Seðlabanka Íslands en hitt til seðlabankastjóra, svo og svarbréfs seðlabankans, dags. 7. júlí 2011.

 

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til seðlabankastjóra er gerð grein fyrir kvörtun tilgreinds lögaðila vegna samskipta við Seðlabanka Íslands og stjórnsýslu hans. Því er lýst að kvörtunin lúti annars vegar að athugun Seðlabanka Íslands á tiltekinni útgáfu skuldabréfa, málsmeðferð bankans á því máli, skorti á því að bankinn hafi tilgreint lagagrundvöll athugunarinnar og gildi þeirra gjaldeyrisreglna sem settar hafi verið. Hins vegar lúti hún að sölumeðferð Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á hlutum í tilteknu fyrirtæki.

 

Í bréfinu er ítarlega lýst samskiptum Seðlabanka Íslands og Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. annars vegar og þess aðila er beint hafði umræddri kvörtun til umboðsmannsins hins vegar og efni og tildrög kvörtunarinnar rakin nánar auk annarra málavaxta sem umboðsmaður telur tilefni til að vísa til. Í bréfinu er síðan óskað skýringa bankans á tilgreindum atriðum í 11 töluliðum.

 

Í beiðni kæranda í máli þessu felst ósk um aðgang að umræddu bréfi umboðsmanns Alþingis. Beiðnin beinist að Seðlabanka Íslands. Bréf umboðsmanns er átta blaðsíður. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið ítarlega efni þessa bréfs. Á blaðsíðum númer eitt, þrjú, fjögur og fimm í bréfinu er lýst samskiptum Seðlabanka Íslands við þann lögaðila sem beint hefur til umboðsmanns áðurnefndri kvörtun vegna athugunar á útgáfu skuldabréfa og tengdum þáttum. Lýsingin beinist að þessari athugun og tengslum hennar við sölumeðferð Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á hlutum í tilteknu fyrirtæki. Fyrir liggur, samkvæmt bréfi umboðsmanns, að nefnd athugun Seðlabankans á umræddri útgáfu á skuldabréfum byggðist á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Þrátt fyrir að umrætt bréf hafi borist bankanum frá umboðsmanni Alþingis verður í ljósi eðlis þessara upplýsinga og samhengis þeirra í heild sinni að telja að þær falli allar undir sérstaka þagnarskyldu starfsmanna bankans, sbr. 15. gr. nefndra laga um gjaldeyrismál.

 

Á blaðsíðu tvö í umræddu bréfi kemur fram almenn lýsing umboðsmanns Alþingis á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, reglum um gjaldeyrismál nr. 370/2010, fyrri athugun umboðsmanns á útgáfu þeirra reglna og upplýsingum um fyrirætlanir stjórnvalda um gerð nýs frumvarps til laga um breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Þar er aðeins á einum stað vikið að heiti þess lögaðila sem lagði fram áðurnefnda kvörtun til umboðsmanns. Á blaðsíðu númer sex í sama bréfi er vikið að heiti nefnds lögaðila, athugun Seðlabankans á útgáfu hans á skuldabréfum og dagsetningum sem þeirri athugun tengjast. Þessi umfjöllun telur tæpan helming texta á blaðsíðunni í línum talið. Á blaðsíðum sjö og átta er að stærstum hluta að finna almennar fyrirspurnir umboðsmanns um framkvæmd rannsókna vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Þar er á þremur stöðum vikið að heiti þess lögaðila sem lagði fram þá kvörtun sem er tilefni að bréfi umboðsmanns og að heiti þess fyrirtækis sem Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. hafði til þeirrar sölumeðferðar sem athugasemdir höfðu verið gerðar við í kvörtun til umboðsmanns. Þessar þrjár tilvísanir eru ekki í samfellu.

 

Í 7. gr. upplýsinglaga segir að eigi ákvæði 4.-6. gr. aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins. Sama regla á við um önnur gögn. Samkvæmt framangreindu koma upplýsingar sem falla undir sérstakt þagnarskylduákvæði 15. gr. laga um gjaldeyrismál fram í svo stórum hluta umrædds bréfs umboðsmanns að úrskurðarnefndin telur ekki efni til þess að leggja fyrir Seðlabankann að veita aðgang að öðru efni skjalsins samkvæmt ákvæði 7. gr. upplýsinglaga. Er því staðfest sú ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 14. september 2011 að hafna aðgangi að umræddu bréfi í heild sinni.

 

4.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til bankaráðs Seðlabankans, dags. 6. maí 2011, greinir umboðsmaður frá því að honum hafi borist kvörtun vegna þess að ráðið hafi ekki svarað bréfi sem því hafi verið ritað í nóvember 2010. Ennfremur er því lýst að sami aðili hafi lagt fram kvörtun vegna athugunar Seðlabanka Íslands á útgáfu hans á skuldabréfum og vegna sölumeðferðar Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á hlutum í tilteknu fyrirtæki og tilgreint að bréf vegna þeirrar kvörtunar hafi verið ritað seðlabankastjóra.

 

Upplýsingar um þann sem lagði fram umræddar kvartanir, nánari lýsing á þeim atriðum sem kvartanir hans beinast að og dagsetningar sem að málinu lúta koma fram nokkuð víða í umræddu bréfi. Vegna tengsla umrædds bréfs við það bréf sem áður er rakið og umboðsmaður Alþingis ritaði seðlabankastjóra verður að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál að byggja á því að einnig þessar upplýsingar séu háðar sérstakri þagnarskyldu starfsmanna Seðlabankans samkvæmt 15. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Þessar upplýsingar koma eins og áður sagði fram nokkuð víða í umræddu bréfi. Meginefni bréfsins telur 38 línur en þær upplýsingar sem háðar eru sérstakri þagnarskyldu koma samkvæmt framangreindu fram í 16 línum sem ekki mynda samfelldan texta í skjalinu. Iðulega bæri að yfirstrika þessar línur í heild sinni. Í þessu ljósi telur úrskurðarnefndin ekki efni til þess að leggja fyrir Seðlabankann að veita aðgang að skjalinu að hluta samkvæmt ákvæði 7. gr. upplýsingalaga. Er því staðfest sú ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 14. september 2011 að hafna aðgangi að umræddu bréfi í heild sinni.

 

5.

Í beiðni kæranda felst að síðustu ósk um aðgang að svarbréfi Seðlabanka Íslands, dags. 7. júlí 2011, sem ritað er vegna fyrirspurna umboðsmanns Alþingis til seðlabankastjóra, dags. 6. maí sama ár og áður er rakið.

 

Það bréf telur 11 blaðsíður og skiptist í 11 tölusetta kafla. Samkvæmt skýringum Seðlabanka Íslands hefur kæranda þegar verið afhent afrit af köflum 8 og 9 í bréfinu. Ekki þarf því í úrskurði þessum að taka nánari afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim.

 

Í þeim hlutum bréfsins sem eftir standa er á 11 stöðum vikið að heiti þess lögaðila sem kvörtun hafði beint til umboðsmanns vegna athugunar Seðlabankans á útgáfu hans á skuldabréfum og tengdum atriðum, að mikilvægum dagsetningum sem tengjast málinu og að heiti þess fyrirtækis sem Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. hafði til sölumeðferðar og kvörtun fyrrnefnds lögaðila til umboðsmanns hafði einnig lotið að. Þessar upplýsingar telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að séu háðar sérstakri þagnarskyldu 15. gr. laga um gjaldeyrismál, með sama hætti og sambærilegar upplýsingar sem fram koma í þeim tveimur bréfum umboðsmanns Alþingis sem þegar hefur verið fjallað um.

 

Að öðru leyti er í bréfi Seðlabankans einvörðungu að finna almenna lýsingu bankans á lagaumhverfi, starfsháttum og verklagi vegna eftirlits með gjaldeyrisviðskiptum og um tengsl Seðlabanka Íslands við Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. Eru þessar lýsingar fram settar sem svör við þeim sérstöku fyrirspurnum sem umboðsmaður hafði sett fram í bréfi sínu til seðlabankastjóra.

 

Tilgreindar upplýsingar eru ekki þess eðlis að þær falli undir ákvæði 5. gr. upplýsingalaga, enda kemur í þeim ekkert fram sem varðar hagsmuni tilgreindra einkaaðila. Þá lúta þessar upplýsingar ekki að högum einstakra viðskiptamanna og verða því ekki felldar undir hina sérstöku þagnarskyldu sem fram kemur í 15. gr. laga um gjaldeyrismál. Seðlabanki Íslands hefur í málinu jafnframt byggt á því að umbeðnum upplýsingum beri að halda leyndum vegna þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

 

Eins og áður hefur verið rakið segir í því ákvæði að „Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur þau atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.“

 

Hið umrædda bréf Seðlabankans geymir ekki frekari upplýsingar um hagi viðskiptamanna bankans en þegar hafa verið felldar undir sérstakt þagnarskylduákvæði 15. gr. laga um gjaldeyrismál. Þá verða upplýsingar í bréfinu ekki felldar undir þann þátt reglunnar sem felur í sér að þagnarskyldu skuli gætt um „önnur þau atriði sem ... leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls...“, enda verður skylda til trúnaðar sem í þessu felst ekki túlkuð með víðari hætti en þegar leiðir af ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Eftir stendur þá hvort þær upplýsingar sem fram komi í bréfinu séu háðar trúnaði þar sem þær teljist vera upplýsingar um „málefni bankans sjálfs.“

 

Tilvitnað orðalag um „málefni bankans sjálfs“ verður ekki túlkað svo rúmt að þar undir falli hvers kyns upplýsingar um það lagaumhverfi eða reglur sem Seðlabankinn starfar eftir. Hér undir kunna að falla upplýsingar um fjárhagsleg málefni eða fjárhagslegar ráðstafanir Seðlabankans, um beinar ákvarðanir sem varða starfsemi hans eða undirbúning þeirra og eftir atvikum aðrar upplýsingar sem af tilliti til hagsmuna bankans sjálfs má telja eðlilegt að leynt fari. Í því bréfi sem hér um ræðir er, eins og áður segir, einvörðungu að finna almenna lýsingu á lagalegu starfsumhverfi Seðlabankans í tengslum við hlutverk hans samkvæmt lögum um gjaldeyrismál og í tengslum við það fyrirkomulag sem hann hefur valið við umsýslu tiltekinna eigna m.a. um þýðingu og tengsl við fyrirtækið Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. Þessar upplýsingar falla ekki undir hið sérstaka þagnarskylduákvæði 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

 

Seðlabanki Íslands hefur ekki í máli þessu byggt á því að trúnaðar skuli gætt um efni hins umrædda bréfs vegna almannahagsmuna, sbr. 6. gr. upplýsingalaga eða að trúnaðar skuli gætt um efni þess vegna annarra lagaákvæða en hér hefur verið tekin afstaða til. Með hliðsjón af þessu ber Seðlabanka Íslands að afhenda kæranda afrit af bréfi bankans til umboðsmanns Alþingis í heild sinni, með þeim takmörkunum sem tilgreindar eru í úrskurðarorði. 

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 14. september 2011 að synja kæranda, [A], um aðgang að tveimur bréfum frá umboðsmanni Alþingis, dags. 6. maí 2011, til bankaráðs Seðlabankans annars vegar og seðlabankastjóra hins vegar.

 

Seðlabanka Íslands ber að afhenda kæranda afrit af svarbréfi Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis, dags. 7. júní 2011, þó með eftirfarandi takmörkunum:

 

1)      Í fyrstu málsgrein á blaðsíðu eitt ber að afmá heiti lögmanns og einkaréttarlegs lögaðila.

2)      Á blaðsíðu tvö ber að afmá texta sem hefst á orðunum „Þann 13.“ og lýkur á orðunum „um gjaldeyrismál“, samtals átta línur.

3)      Á blaðsíðu tvö ber að afmá texta sem kemur á eftir orðunum „á fjármagnshreyfingum vegna uppgjörs viðskipta með skuldabréf“ til enda setningarinnar.

4)      Á blaðsíðu tvö í línu fjögur talið að neðan ber að afmá heiti einkaréttarlegs lögaðila og heiti mánaðar í neðstu línu á sömu blaðsíðu.

5)      Á blaðsíðu þrjú ber í tveimur efstu línunum að afmá heiti einkaréttarlegs lögaðila og dagsetningu.

6)      Á blaðasíðu þrjú í sjöundu línu talið að ofan ber að afmá heiti einkaréttarlegs lögaðila.

7)      Á blaðsíðu þrjú ber að afmá dagsetningu sem kemur á eftir orðunum: „er það mat Seðlabankans að tilkynning bankans,“.

8)      Á blaðsíðu fjögur ber að afmá heiti einkaréttarlegs lögaðila.

9)      Á blaðsíðu fimm ber að afmá í heild texta í tölusettum kafla 6.

10)  Á blaðsíðu 11 í þriðju línu talið að ofan í tölusettum kafla 11 ber að afmá heiti tveggja einkaréttarlegra lögaðila.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

  

Friðgeir Björnsson                                                                                       Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta