Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2024 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 18/2024 Úrskurður 16. apríl 2024

Mál nr. 18/2024                    Eiginnafn:     Bergman (kk.)

                                              Millinafn:       Bergman

Hinn 16. apríl 2024 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 18/2024 en erindið barst nefndinni 9. febrúar. 

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Nafnið Bergmann er á mannanafnaskrá sem eiginnafn og á ættarnafnaskrá.

Eiginnafnið Bergman (kk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, þrjú og fjögur hér að framan. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Bergmans, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra (sjá til dæmis mál nr. 34/2014 (Íshak)).

Þar sem ekki er greinarmunur í framburði á einu og tveimur n-um í áherslulausri stöðu hljóma nöfnin Bergman og Bergmann eins. Það gerir það að verkum að engin aðgreining verður gerð á nöfnunum Bergman og Bergmann og þetta er því í raun eitt og sama nafnið (sbr. greinargerð í máli mannanafnanefndar nr. 76/2008). Samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár báru 1. janúar 2023 13 nafnið Bergmann sem 1. eiginnafn og 511 sem 2. eiginnafn. Líta verður því á að nafnmyndin Bergman sé afbökun rótgróins ritháttar nafnsins, þ.e. Bergmann, og brjóti gegn skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt þessu er aðeins hægt að samþykkja nafnið ef hefð telst fyrir þessum rithætti.

Við túlkun mannanafnanefndar á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er nú stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin uppfærði síðast á fundi 22. mars 2022 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum, eldri vinnulagsreglum, dómaframkvæmd og sjónarmiðum sem fjallað er um í fundargerð:

  1. Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

    Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

    Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

    Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);

    Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Nafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
  4. Þrátt fyrir að ekki sé hefð fyrir tökunafni á grundvelli framanritaðs telst ritháttur þess hefðbundinn sé hann gjaldgengur í veitimáli og nafnið ekki ritháttarafbrigði rótgróins nafns. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.

Tekið skal fram að vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber enginn einstaklingur, sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Bergman og þessi ritháttur nafnsins kemur heldur ekki fyrir í manntölum frá 1703-1920. Er því ekki hefð fyrir þessum rithætti nafnsins og því hafnað.

Umsækjandi óskar þess til vara að nafnið Bergman yrði samþykkt sem millinafn. Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfa öll skilyrði 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn, að vera uppfyllt. Skilyrði 2. mgr. 6. gr. eru:

  • millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
  • nöfn sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annað hvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
  • millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Líkt og framar greinir er nafnið Bergman í raun sama nafn og ættarnafnið Bergmann. Ættarnöfn er einungis heimilt að bera sem millinöfn í þeim tilvikum sem um getur í 7. gr. laga um mannanöfn en í þeim tilvikum sem þar eru tilgreind gerist það án þess að ættarnafnið sé fært á skrá yfir millinöfn. Ættarnöfn er því almennt ekki hægt að samþykkja sem millinöfn. Er því ekki unnt að fallast á beiðni um millinafnið Bergman.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Bergman (kk.) er hafnað.

Beiðni um millinafnið Bergman er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta