Ljósmyndasýningin Lífríki norðurslóða "Í gegnum linsuna" opnar í anddyri sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn á Norðurslóðahátíð
Norðurslóðahátíð eða Arktisk Festival verður að venju haldin á Norðurbryggju dagana 30.-31. október n.k.
Að því tilefni mun ljósmyndasýningin Lífríki norðurslóða „Í gegnum linsuna” opna í anddyri sendiráðsins. Ljósmyndasýningin er safn ljósmynda sem tóku þátt í ljósmyndakeppni CAFF árið 2018, en CAFF er vinnuhópur Norðurskautsráðs um verndun lífríkisins á norðurslóðum. Ljósmyndakeppnin hefur verið haldin 2014 og 2018 og hefur báðum keppnunum fylgt fjöldi sýninga á Íslandi og erlendis. Keppninni og sýningunni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi lífríkisins á norðurslóðum og benda á þann fjölda áskorana sem það stendur frammi fyrir en jafnframt að sýna áhorfandanum fegurð og töfra þessa einstaka svæðis. Þessi sýning í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn er haldin í tilefni 25 ára afmælis Norðurskautsráðsins og 30 ára afmælis CAFF skrifstofunnar, sem staðsett er á Akureyri.
Í tilefni opnunarinnar mun Tom Christensen formaður Circumpoloar Biodiversity Monitoring Program segja almennt frá lífríki norðurslóða, sérstöðu þess og hvers vegna það er svo mikilvægt að vinna saman og samræma vöktun á svæðinu. Kári Fannar Lárusson verkefnastjóri hjá CAFF mun einnig fjalla um CAFF, Norðurskautsráðið og almennt um mikilvægi norðurslóðasamstarfs. Hann mun einnig fara nokkrum orðum um sýninguna, segja frá hugmyndinni á bak við keppnina og fjalla um einstaka ljósmyndir.
Sýningin mun opna formlega laugardaginn 30. október kl 11.00 og verður hún opin báða daga hátíðarinnar frá kl 10.00-16.00. Sýningin verður svo í framhaldinu opin í anddyri sendiráðsins alla virka daga fram til febrúarloka 2022.
Frekari upplýsingar um sýninguna Lífríki Norðurslóða „ í gegnum linsuna“.
CAFF
gaf út Arctic Biodiversity Assessment (ABA) skýrsluna 2013 sem er fyrsta
heildstæða mat á lífríki norðurslóða, með framlögum frá yfir 250 vísindamönnum,
ásamt framlagi frumbyggja. Ljósmyndakeppnin var fyrst haldin 2014 til að vekja
athygli á ráðstefnu CAFF um lífríki norðurslóða. Ráðstefnan var haldin í þeim tilgangi að þróa
aðgerðaráætlun til að fylgja eftir ráðleggingum sem fram koma í skýrslunni um
verndun lífríkisins á norðurslóðum. Ráðstefnan var síðan endurtekin 2018 til
að meta árangur af því starfi sem unnið hefur verið.
Sýningarnar á Íslandi og sýningin í Kaupmannahöfn eru liðir í formennsku
Íslands í Norðurskautsráði 2019-2021 og eru samstarfsverkefni CAFF og
Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC). Ísland tók við formennsku í
Norðurskautsráðinu í annað sinn, í maí 2019 og leiddi ráðið til 20 maí 2021.
Yfirskrift formennskunnar, „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“ vísar til mikilvægi
sjálfbærrar þróunar fyrir velferð Íslands og minnir á að starf
Norðurskautsráðsins hefur frá upphafi miðað að því að tryggja sjálfbæra þróun
og efla samvinnu á norðurslóðum. Þessi ljósmyndasýning er styrkt af
utanríkisráðuneytinu en fjöldi stofnana og fyrirtækja hafa komið að verkefninu,
þar ber sérstaklega að nefna stofnanir á Akureyri en Akureyri er miðstöð
norðurslóðamála á Íslandi.
Ljósmyndakeppnin 2018 var mjög farsæl með meira en 1600 innsendar myndir sem
skiptust í fjóra flokka: lífríki, landslag, fólk og viðskipti og vísindi á
norðurslóðum ásamt sérstökum flokki fyrir unga ljósmyndara. Aðalverðlaunin voru
ljósmyndaferð til Rovaniemi í Finnlandi árið 2019.
Þekktir ljósmyndarar dæmdu keppnina og má þar nefna Carsten Egevang (www.carstenegevang.com),
Einar Guðmann og Gyðu Henningsdóttir (www.icelandinphotos.is), Lawrence Hislop (www.lawrencehislop.com)
og Krista Ylinen (www.kristaylinen.com).
Undir hverri mynd má sjá nafn ljósmyndara, í hvaða sæti myndin lenti,
ráðleggingar varðandi lífríkið úr ABA skýrslunni og umsagnir dómara um
viðkomandi mynd.